133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.

668. mál
[10:59]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þessa kynningu á málinu og málið sjálft, en vegna umfjöllunar síðustu daga vil ég spyrja hann um þá þjónustu sem fórnarlömbum Byrgisins og Breiðavíkur átti að standa til boða. Hæstv. forsætisráðherra gaf nokkuð eindregnar yfirlýsingar um þann stuðning sem í boði yrði fyrir þá sem þurftu að líða fyrir dvöl í Breiðavík og í Byrginu en síðustu daga hefur komið fram hjá Geðhjálp, m.a. framkvæmdastjóra þeirra samtaka, Sveini Magnússyni, að talsverður hópur þessara fyrrverandi skjólstæðinga í Breiðavík og Byrginu fái ekki aðstoð eða þjónustu. Það er full ástæða til að hlusta eftir því. Við vitum það sem hér erum að þeir sem fengu inni í Byrginu voru þeir sem var vísað út úr öllum öðrum stofnunum og fengu hvergi neina þjónustu þannig að það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að það geti endurtekið sig.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann hafi gengið eftir því að fyrirheit hans um stuðning við það fólk sem um sárt á að binda eftir Breiðavík og Byrgið sé í raun og veru til fyrir þetta fólk og það fái stuðning og aðstoð.