133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.

668. mál
[11:03]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin sem eru gefin eftir því sem hann best getur við þessar aðstæður og auðvitað er ekki til þess ætlast að hæstv. forsætisráðherra fari ofan í málefni einstaklinga. Það er mikilvægt þegar forsætisráðherra hefur fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og í þessu tilfelli í raun og veru fyrir hönd þjóðarinnar gefið út um það afdráttarlausa yfirlýsingu að hér sé um að ræða hóp fólks sem samfélagið vilji tryggja að fái þá bestu þjónustu sem völ er á, og þegar hagsmunasamtök þessa fólks, Geðhjálp, og virtur framkvæmdastjóri þeirra, Sveinn Magnússon, gefa út yfirlýsingar um að það sé ekki verið að efna það, þá tel ég að full ástæða sé til þess fyrir hæstv. forsætisráðherra að ganga sérstaklega eftir því að hans eigin yfirlýsingar séu efndar í þessu.

Það sem kannski er ástæða til að hafa áhyggjur af er að Geðhjálp vísar til þess að heilbrigðiskerfið, heilbrigðisþjónustan sé ekki það eina sem þetta fólk þurfi á að halda. Sumir þurfi líka annars konar stuðning vegna þess að vandamál þeirra sé ekki heilbrigðisvandamál og ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann telji koma til greina að víkka þennan stuðning við þetta fólk. Við eigum að hafa ástæðu til að hafa áhyggjur af því að Geðhjálp hafi á réttu að standa vegna þess að allir vita ástæðuna fyrir því að þetta fólk fór í Byrgið, hún er sú að þetta voru óhreinu börnin hennar Evu sem enginn vildi hafa og fengu hvergi þjónustu og var alls staðar vísað á dyr. Við eigum því auðvitað að hafa af því verulegar áhyggjur ef Geðhjálp telur að sú saga sé að endurtaka sig og það sé ekki verið að veita þessu fólki þann stuðning sem því var lofað.