133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.

668. mál
[11:05]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sú þjónusta sem gerð hefur verið að umtalsefni hér og ríkisstjórnin beitti sér fyrir byggðist á því að geðdeild Landspítalans yrði fyrsti viðkomustaður þessara einstaklinga í kerfinu, þ.e. eins konar gátt þar sem vandamál viðkomandi yrðu greind. Það liggur líka fyrir að geðdeildin hefur ekki yfir alls kyns félagslegum úrræðum að ráða, t.d. húsnæði og þess háttar. Það er líka vitað að þeir góðu starfsmenn sem þar eru geta ekki leyst slík vandamál upp á eigin spýtur. Þá reynir á að kerfið finni lausnir og aðilar innan þess vinni saman til þess að finna þá lausn sem hverjum og einum hentar. Ég treysti því að þannig sé unnið og allt sé gert til að hjálpa því fólki sem þarna á um sárt að binda eða á við mikil vandamál að stríða. Íslenska heilbrigðiskerfið eða félagsmálakerfið er þannig uppbyggt að það getur leyst svona vandamál og fagfólkið sem við höfum í okkar þjónustu ræður við það. Þess vegna leyfi ég mér að vona að enginn verði út undan í þessu en auðvitað er það mikilvægt að einstaklingarnir sem eiga hlut að máli eða aðstandendur þeirra eftir atvikum, sjái til þess að þeir leiti sér þeirrar aðstoðar sem þeir þurfa.