133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.

668. mál
[11:11]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Má ég minna hæstv. forsætisráðherra á að málin sem komu upp í Heyrnleysingjaskólanum urðu sakamál og það er búið að dæma í þeim málum. Sá sögusveimur sem þar var á ferli lengi um misnotkun á börnum reyndist vera réttur en hann hafði verið mjög lengi á sveimi og það var ekki ráðist í það mál fyrr en allt of seint og það hefur aldrei verið hreinsað upp.

Við þingmenn hlustuðum á átakanlega ræðu hv. þm. Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur fyrir nokkrum dögum sem flutt var á táknmáli þar sem hún lýsti með mjög grafískum hætti þeim hörmungum sem heyrnarlaus börn lentu í í Heyrnleysingjaskólanum. Þau voru einangruð, fengu ekki einu sinni að læra málið til þess að geta tjáð sig og enginn trúði þeim og það kom í ljós að allt sem þau sögðu var rétt. Þetta reyndist vera svo a.m.k. í fjórum tilvikum, en sá kvittur er enn þá uppi í þessum hópi að þetta hafi verið miklu útbreiddara og auðvitað verður að rannsaka það. Annað kemur ekki til greina finnst mér og mér finnst að þetta mál sé mjög vanhugsað af hálfu hæstv. forsætisráðherra.

Þau í ríkisstjórninni hlaupa hérna til, til þess að láta rannsaka Breiðavík af því að það mál hefur verið mikið í fjölmiðlum en málefni Heyrnleysingjaskólans hafa ekki verið í fjölmiðlum og þá er það látið mæta afgangi eða eins og hæstv. forsætisráðherra sagði hérna áðan, fyrst um sinn á að rannsaka Breiðavík. Hérna er um að ræða alvarleg mál og það á ekki að láta mál af þessu tagi bíða. Það á að taka þau fyrir og ef þarf meiri mannafla þá á að útvega hann. Þetta fólk er enn í sorg, það er enn í vanlíðan og þeim sem sættu þessu og tengdust þessu tiltekna dómsmáli var boðið upp á ákveðna meðferð en það eru fleiri eins og hér kom fram sem þurfa á umönnun að halda. Kerfið er með þessum hætti raunverulega að setja þau í biðstöðu og það er ekki ásættanlegt.