133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.

668. mál
[11:14]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna því frumvarpi sem hér er lagt fram um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn um leið og ég harma að það skuli svona seint fram komið eins og raun ber vitni þegar lítill tími lifir af þessu þingi. Eins og hæstv. ráðherra heyrði eru ákveðnar athugasemdir við málið þannig að þetta þarf auðvitað skoðunar í nefnd og hefði þurft að fara til umsagnar ýmissa aðila. Þess vegna ber auðvitað að harma það að frumvarpið skuli ekki koma fram fyrr.

Tilgangur frumvarpsins er að fá fram nauðsynlegar lagaheimildir til stofnunar sérstakrar nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn og einnig er mælt fyrir um stöðu nefndarinnar og valdheimildir sem ég vildi líka fara aðeins inn á í máli mínu. Markmið könnunarinnar er að staðreyna eins og kostur er hvort þau börn sem vistuð voru á árum áður í opinberum vist- eða meðferðarheimilum hafi sætt illri meðferð meðan á dvöl þeirra stóð. Það er auðvitað mergurinn málsins að ofan í þetta mál þarf að fara með skipulegum hætti og rannsaka hvað þarna átti sér stað. Ég held að það sé alveg ljóst að við stöndum frammi fyrir því að þau börn sem þarna dvöldu sættu illri meðferð og þjóðfélagið skuldar þeim sem þarna voru og sættu illri meðferð að hér verði allt sett upp á borðið og málið metið í heild sinni, m.a. út frá skaðabótakröfum þessara einstaklinga og annarri aðstoð sem þjóðfélagið gæti hugsanlega veitt þeim að því er varðar félagsleg úrræði eða meðferðarúrræði.

Ég velti fyrir mér, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem kom í andsvar, gildissviði þessa frumvarps vegna þess að það verður að vera mjög skýrt. Hæstv. forsætisráðherra hefur skýrt það að hér sé aðallega verið að tala um Breiðavíkurheimilið en eftir atvikum hliðstæðar stofnanir og sérskóla þar sem börn dvöldu. Ég held að það sé mikilvægt að nefndin fái mjög frjálsar heimildir til að skoða þessi heimili öll, ekki bara Breiðavíkurheimilið. Ég sé að forsætisráðherra sem ákveður skipan nefndarinnar á að setja henni erindisbréf og það hefði verið mjög æskilegt að slíkt erindisbréf hefði fylgt með frumvarpinu eða a.m.k. að nefndin sem fær málið til meðferðar, hv. allsherjarnefnd, fái að sjá þetta erindisbréf og hversu víðtækar heimildir ráðherrann ætlar að gefa nefndinni. Ég vil mælast til þess við hæstv. ráðherra að slíkt erindisbréf verði lagt fyrir hv. allsherjarnefnd.

Í 5. gr. frumvarpsins er talað um að forsætisráðherra ákveði skipan nefndarinnar. Ég hefði viljað að nánar verið hefði sagt um hvernig skipan nefndarinnar á að vera, hvaða aðilar með hvaða sérþekkingu og annað eigi að vera í slíkri nefnd. Ég hefði t.d. talið mikilvægt að þeir sem vinna að barnaverndarmálum, þetta kemur í hugann bara meðan ég stend hérna, eins og formaður Barnaverndarstofu ætti sæti í slíkri nefnd en við rennum alveg blint í sjóinn hvernig hæstv. ráðherra ætlar að skipa hana. Ég fékk það mál til skoðunar í morgun þannig að ég sé ekki einu sinni hvort sagt er eitthvað til um það hve margir eiga að sitja í nefndinni þannig að ég geri ákveðnar athugasemdir við það.

Varðandi Byrgið upplýsir ráðherra að það sæti lögreglurannsókn og manni fannst á hæstv. ráðherra að það væri óþarfi að Byrgið færi undir í þessari skoðun. Nú er það svo að manni finnst að nánast sé verið að loka fyrir það í frumvarpinu eins og það er lagt fram vegna þess að í fyrsta lagi er talað um vist- og meðferðarheimili fyrir börn og í annað stað er talað um ákveðið tímabil að því er varðar Breiðavík og síðan er undirstrikað að heimild þessi taki ekki til þeirra stofnana sem starfandi eru við gildistöku laga þessara. Byrgið er að vísu ekki starfandi núna, en það voru ekki börn þar, það voru fullorðnir einstaklingar þannig að mér finnst takmörkunin í frumvarpinu útiloka það að jafnvel þó að nefndin vildi taka á málefni Byrgisins, þá nær gildissviðið bara til barna og þar með er verið að útiloka það. Ég spyr því hæstv. ráðherra um það ef nefndinni svo sýnist, getur hún þá ekki tekið Byrgismálið til skoðunar?

Ég hef litið svo á að jafnvel þó að Byrgið sé í lögreglurannsókn þá beinist lögreglurannsóknin fyrst og fremst að fjármálaóreiðunni þar en ekki hvaða meðferð þeir einstaklingar sem þar voru sættu. Ég spyr ráðherrann að því: Er það ekki skýrt að lögreglurannsóknin snúi fyrst og fremst að saknæmu athæfi varðandi fjármálaóreiðu en ekki að illri meðferð á þeim einstaklingum eða misnotkun á þeim einstaklingum sem þar dvöldu sé skoðuð?

Þá vil ég víkja að því sem hv. þm. Helgi Hjörvar kom að, það sem fram hefur komið á síðustu dögum varðandi það sem Geðhjálp hefur haldið fram, að þeir einstaklingar sem voru í Byrginu og Breiðavík hafi ekki fengið þá meðferð sem stjórnarflokkarnir lofuðu. Málið bar þannig að að félagsmálanefnd sem ég á sæti í beindi því til hæstv. ríkisstjórnar að þeir einstaklingar sem á þyrftu að halda áfallahjálp eða sérfræðiaðstoð eða meðferð mundu fá hana tafarlaust. Nú er komið upp að Geðhjálp telur að svo hafi ekki verið og mér fannst svör hæstv. ráðherra ekki fullnægjandi áðan og ég tel málið í þeirri stöðu að félagsmálanefnd verði að taka þetta mál upp aftur til þess að fara yfir hvað er rétt og rangt í því. Ég hef lesið það sem landlæknisembættið hefur sagt um þetta en þær skoðanir sem Geðhjálp hefur sett fram í málinu kalla á það að ef ríkisstjórnin gengur ekki eftir þessum málum með skipulegum hætti að þau loforð sem ríkisstjórnin stóð að séu uppfyllt, þá sé ég ekki annað en hv. félagsmálanefnd verði að láta málið til sín taka aftur til að fá hið rétta og sanna fram í því. Það er auðvitað ekki hægt að búa við það ef þær upplýsingar sem komið hafa fram eru réttar að sumt af því fólki sem leitar á geðsvið Landspítalans fái ekki þá meðferð sem það þarf á að halda og sé jafnvel vísað frá.

Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra er tilbúinn að tjá sig eitthvað frekar um það sem mundi þá geta haft áhrif á það hvort ég mun fylgja því eftir að kalla saman félagsmálanefnd til að fara yfir stöðu þessara mála eða hvort ríkisstjórnin sjálf mun gera einhverja atlögu að því að beita sér fyrir því að þetta verði skoðað, t.d. bæði af heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytinu, og það verði staðreynt hvað er rétt og rangt í þessu máli.

Út af fyrir sig er kannski ekki ástæða til að fara nánar ofan í þetta nema ég hef áhyggjur af hvernig gildissviðið er skilgreint þarna og endurtek spurningu mína til hæstv. ráðherra um hvort orðalagið taki þá fyrir það, því hér er verið að tala um vist- og meðferðarheimili fyrir börn, að Byrgið geti verið undir í slíkri rannsókn. Ég tek undir það með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að það er auðvitað ekki hægt að ganga fram hjá því að það verður að fara í skoðun á því sem fram hefur komið varðandi Heyrnleysingjaskólann og að þar hafi farið fram misnotkun á börnum eins og haldið hefur verið haldið fram og jafnvel á fleiri heimilum. Jafnvel þó að rannsókn nefndarinnar beinist fyrst og fremst að Breiðavíkurmálinu sem hún á að skila niðurstöðum um fyrir 1. janúar 2008, þá tel ég mikilvægt að önnur heimili séu einnig skoðuð.

Ég spyr líka hvað verði gert, virðulegi forseti, þegar talað er um að nefndin eigi að fjalla um hvaða lærdóm megi draga af niðurstöðum könnunarinnar og gera tillögur til að koma í veg fyrir að brotinn verði réttur á börnum í opinberri forsjá. Er verið að gera eitthvað annað en þetta? Þá er ég að tala um hvort stjórnvöld og framkvæmdarvaldið séu að vinna eitthvað að því að auka eftirlit með starfandi meðferðarstofnunum fyrir börn og unglinga og fullorðna einstaklinga. Er verið að gera eitthvað til þess að skoða eftirlit með þeim sem fá fjárframlög, til aðila sem eru utan ríkiskerfisins? Ég kallaði eftir því að fá frá hæstv. fjármálaráðherra svör við ýmsum spurningum að því er varðar m.a. eftirlitsþáttinn hjá þeim aðilum sem eru utan ríkiskerfisins og hvaða eftirlit er með fjárframlögum sem þeir aðilar fá og hvernig eftirliti ráðuneytanna er háttað með slíkum framlögum. Ég veit ekki hvort ég fæ þau svör áður en þingi lýkur en ég legg auðvitað mikla áherslu á þau og spyr ráðherra líka að því hvort verið sé að vinna að því að koma á einhverjum samræmdum verklagsreglum og eftirliti með slíkum stofnunum sem eru starfandi. Ég held að það sé afar mikilvægt að fá þetta fram.

Ég tel mikilvægt og ítreka það að nefndin hafi frjálsar hendur um hvernig hún gengur í þetta mál. Ég tel að það þurfi að koma nánar fram hvernig við ætlum að skipa nefndina, hvað hún verður fjölmenn og hvaða sérfræðingar muni eiga sæti þar og ég legg áherslu á að allsherjarnefnd fái erindisbréf nefndarinnar til skoðunar.

Að öðru leyti munum við styðja framgang þessa máls, auðvitað að teknu tilliti til þess að tekið verði tillit til þeirra sjónarmiða og skoðana sem við höfum sett fram í málinu. Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra um eitt. Í frumvarpinu stendur að nefndinni sé heimilt að taka skýrslur af fyrrverandi vistmönnum og hverjum þeim öðrum sem nefndin telur að búi yfir vitneskju sem komi að notum í starfi hennar enda veiti þeir samþykki sitt til þess. Ég vil því spyrja: Er eitthvað tekið á því í þessu frumvarpi og er ástæða til að skoða það að ef þeir sem verða kallaðir fyrir nefndina — við erum að tala um 30–40 ára gömul mál — verða uppvísir að því þegar nefndin skoðar þetta mál að þeir hafi brugðið af vegi laganna, gerst brotlegir með einhverjum hætti við lög á þessu tímabili, eiga þeir þá á hættu að verða refsað fyrir þann verknað sem þeir hugsanlega frömdu, aftur í tímann sem kæmi í ljós í starfi nefndarinnar? Ég spyr hvort að því hafi verið hugað. Í frumvarpinu stendur: „Þeim sem gefur skýrslu fyrir nefndinni er heimilt að skorast undan því að svara spurningu ef ætla má að í svari hans geti falist játning eða bending um að hann hafi framið refsiverðan verknað eða að það gæti orðið honum til mannorðsspjalla.“ Þetta er þá ákveðinn hemill á starfi nefndarinnar. Mér sýnist að þarna komi fram að þeir sem búi yfir einhverri vitneskju sem hugsanlega hafi gengið gegn lögum á sínum tíma gætu þá hugsanlega verið sóttir til saka sem torveldar að fá upp réttu og sönnu myndina í þessu máli sem er megintilgangurinn með þessu frumvarpi.

Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þetta frekar. Á þeim tíma sem liðinn er frá því að þetta Breiðavíkurmál kom upp höfum við öll heyrt mjög sorgleg dæmi, átakanleg dæmi um það sem hefur verið að gerast í fortíðinni. Síðast í gær lásu örugglega mörg okkar átakanlega sögu eldri konu sem bar yfirskriftina „Aftaka fjölskyldu í Hafnarfirði“ þar sem hún lýsir með átakanlegum hætti, sem hlýtur að hafa snortið hvern þann sem las það hvernig sonur hennar, eitt af fimm börnum, 10 ára drengur er tekinn af henni fyrir einhverja smáuppátektarsemi, greinilega af því að hún var fátæk. En eins og hún segir þá var ekkert gert með önnur börn sem höfðu lent í því sama af því að foreldrar þeirra voru betur stæð.

Hún lýsir þessu með átakanlegum hætti og eins og við öll þekkjum sem höfum orðið vitni að þeim fjölmörgu sögum sem hafa komið fram í kjölfar uppljóstrunarinnar um Breiðavíkurdæmið þá eru margir einstaklingar sem eiga um sárt að binda í fortíðinni í þessu máli. Og hvernig stjórnvöld hafa brugðist þeim á margan hátt, sem kannski má með einhverjum hætti skrifa á tíðarandann sem þá var þá er samt ekki hægt að afsaka málið þannig. Það liggur einfaldlega fyrir að stjórnvöld hafa brugðist í þessu máli. Við eigum þeim fjölmörgu einstaklingum sem í þessu lentu skuld að gjalda og þess vegna verðum við að reyna að sameinast um þetta mál, að það verði tekið á því með skipulegum hætti og allt verði upplýst, ekki bara gagnvart þessu heimili heldur öðrum og þeim sem eru nær okkur í nútímanum eins og Byrgið. Síðan verðum við að gera eins og kostur er til að bæta þessum einstaklingum það sem samfélagið hefur gert þeim, bæði með því að bjóða þeim upp á meðferð, félagslega aðstoð og eftir atvikum skaðabætur. Umfram allt legg ég þó áherslu á að þótt stutt lifi af þessu þingi þá getum við sameinast um að það frumvarp sem hér er komið fram verði þannig úr garði gert að við getum vænst þess að það skili þeim árangri sem að er stefnt með framlagningu þess.