133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.

668. mál
[11:30]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau ummæli sem hv. þingmaður hafði í lokin og lýsa sömu tilfinningum gagnvart því máli sem rakið var í blöðum í gær og hún gerði. Þar komu skelfilegar lýsingar fram og því miður ekki þær einu sem sést hafa.

Umgjörð þessara mála hefur mikið breyst á síðustu 40–50 árum frá því að atburðir þeir sem þar eru raktir áttu sér stað. Skipulag barnaverndarmála er með allt öðrum og vonandi miklu betri hætti nú en þá var. Barnaverndarmál voru á vettvangi menntamálaráðuneytisins ásamt fjölmörgum öðrum málum. Því skipulagi hefur öllu verið hnikað til og er nú mun betur að málum staðið. Ég held að ég geti fullyrt það og þingmenn eru vonandi allir sammála um það.

Ég vildi svara einu atriði sem hv. þingmaður nefndi og það er spurningin um refsiverðan verknað. Ég hef áður sagt í þessum ræðustóli að áreiðanlega er ekki um neinn refsiverðan verknað að ræða í þessu máli sem er ófyrndur. Svo langt er um liðið að allt slíkt athæfi er að mínum dómi fyrnt að lögum. Nú vil ég hafa alla fyrirvara á þessu gagnvart starfi nefndarinnar en ég geri ekki ráð fyrir að menn þurfi að óttast refsingar með þeim hætti. Hins vegar er mönnum ekki endilega skylt að svara öllum spurningum sem til þeirra er beint og tekið er af skarið með það hérna. Ef menn telja að þeir geti skaðast af því, m.a. vegna mannorðsspjalla, er þeim heimilt að neita að svara spurningum alveg eins og hver annar einstaklingur getur gert við ýmsar aðstæður í þjóðfélaginu. Þetta er réttarfarslegt atriði, ætlunin er að standa mjög vel að rannsókninni þannig að öll slík atriði og öll meðferð máls sé hafin yfir vafa.