133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.

668. mál
[11:32]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hægt er að taka undir það með hæstv. forsætisráðherra að barnaverndarmálum er öðruvísi fyrir komið nú en var fyrir 40–50 árum. Samt lesum við í blöðum að forstjóri Barnaverndarstofu gagnrýnir það mjög hvernig skipulag þessara mála er. Hann telur að setja þurfi í málaflokkinn meira fjármagn og lýsir ýmiss konar brotalöm í starfsemi barnaverndarmála hér á landi. Ég vil spyrja hvort hæstv. ráðherra hafi tekið eftir því og hvort ekki sé ástæða til að skoða það.

Ég held að á margan hátt sé miklu minna fjármagn sett til málefna barna hér á landi en gert er annars staðar. Ég vil minnast þess að ríkisstjórnin er að heykjast á því að framfylgja stefnu Alþingis um að móta heildarstefnu í málefnum barna og unglinga sem samþykkt var árið 1991. Ég vil rifja það upp sem rætt var í sölum Alþingis fyrir tveimur til þremur árum, og líka af því að hæstv. landbúnaðarráðherra er hér, en þá var það tekið sem dæmi um að gera þyrfti betur í málefnum barna og unglinga að umboðsmaður hersins fékk 50 millj. kr. í framlag á sama tíma og umboðsmaður barna fékk 10 millj. Það þarf greinilega ýmislegt að skoða í þessu máli.

Ég saknaði þess að hæstv. ráðherra svaraði ekki ýmsum þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra ætlar að gera það í lok umræðunnar. Ég spyr hann hvort framsetning frumvarpsins útiloki að hægt sé að skoða Byrgið, fyrst og fremst er verið að tala um að rannsaka meðferðarheimili fyrir börn. Það er mjög mikilvægt að fyrir liggi hvort hægt er að útiloka það og ég spyr hæstv. ráðherra líka varðandi Byrgið: Beinist lögreglurannsókn ekki fyrst og fremst að fjármálaóreiðunni en ekki illri meðferð sem börn hafa sætt? Þetta þarf að koma upp á yfirborðið. Ég spyr líka um 1. gr. um skipan nefndarinnar sem mér finnst mjög óljós. Ég vil helst ekki setja þetta alfarið í hendur forsætisráðherra og skilja hann eftir með það alveg opið hverjir muni skipa þessa nefnd.