133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.

668. mál
[11:35]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað skipun nefndarinnar varðar þá er þetta rétt að það er nokkuð opið og það er sett í vald forsætisráðherra að ákveða t.d. fjölda nefndarmanna. En ég get alveg upplýst að hugmynd mín er sú, og það hef ég rætt við ýmsa sem eru sérfróðir um þessi mál, að nefndin eigi ekki að vera fjölmenn, kannski þriggja manna nefnd en hún þarf að hafa starfskraft. Forsætisráðuneytið mun leggja til aðstöðu í þeim efnum, bæði vinnuaðstöðu og starfsmann eftir því sem þurfa þykir.

Hv. þingmaður spurði að því áðan hvers konar bakgrunn nefndarmenn þyrftu að hafa. Það liggur fyrir að væntanlega verður lagaprófessor í formennsku en ég sé fyrir mér að sérfræðingar af öðrum toga vinni með honum í nefndinni, hugsanlega læknir, sálfræðingur, félagsráðgjafi eða menn með reynslu og bakgrunn í þessum efnum. Það er ekki aðalatriðið hver hin formlega menntun er. Aðalatriðið er að þarna séu menn sem þekkja vel til þessara mála og hafa traustan bakgrunn til að vinna í þessu. Hvorki er búið að ákveða einstaka nefndarmenn né hvaðan þeir eiga að koma.

Varðandi Byrgið þá er þetta frumvarp um skipun nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn. Byrgið var í eðli sínu ekki vist- og meðferðarheimili fyrir börn þó að þar kunni að hafa verið einstaklingar undir 18 ára aldri. Eins og frumvarpið er úr garði gert er ekki gert ráð fyrir því að Byrgið falli undir þessa rannsókn. Ef það á að gerast þarf annaðhvort að útvíkka frumvarpið, framlengja það með einhverjum hætti þegar þessum rannsóknum er lokið eða setja á laggirnar annars konar rannsókn með sérstökum hætti á málefnum Byrgisins. Sakamálarannsókn er í gangi, ég þekki ekki nákvæmlega um hvað hún snýst. Mér hefur skilist að hún sé bæði fjárhagslegs eðlis en líka einkamálaeðlis, þ.e. til komin vegna kærumála einstaklinga. Að öðru leyti hef ég ekki upplýsingar um það frekar en eðlilegt er. Það er ekki hægt að ætlast til þess.