133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.

668. mál
[11:39]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að þetta frumvarp skuli komið fram. Þar er kveðið á um að könnuð verði starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn fyrr á tíð. Í máli hæstv. forsætisráðherra kom fram að rannsóknin mundi hefjast á meðferðarheimilinu að Breiðavík en jafnframt kom fram í máli hæstv. ráðherra að rannsóknin yrði síðan útvíkkuð. Vil ég taka undir það með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að mikilvægt sé að rannsóknin taki einnig til Heyrnleysingjaskólans og annarra stofnana þar sem ásakanir hafa komið fram um ofbeldi gegn börnum og unglingum sem þar voru. Hæstv. forsætisráðherra tók reyndar undir þetta, lagði áherslu á skipuleg vinnubrögð, einhvers staðar þyrfti að byrja og ég fagna því að þessi rannsókn skuli nú hafin.

Varla líður sá dagur að við fáum ekki í fjölmiðlum frásagnir af hrikalegum atburðum sem áttu sér stað á meðferðar- eða upptökuheimilum, vistheimilum fyrir börn og unglinga frá fyrri tíð. Það er mjög mikilvægt gagnvart þeim einstaklingum sem beittir voru ofbeldi að hið sanna verði leitt í ljós hið fyrsta og að allir þeir sem eiga um sárt að binda fái aðstoð hjá hinu opinbera. Ég fagna því að skref skuli hafa verið stigin í þá átt. Við eigum að sjálfsögðu að taka alvarlega allar athugasemdir frá aðilum á borð við Geðhjálp ef þörf er á að endurskoða þá aðstoð sem er í boði.

Það er fyrst og fremst vegna þess fólks sem varð fyrir ofbeldi sem rannsókn af þessu tagi þarf að fara fram. En ég vek einnig athygli á annarri hlið og það er gagnvart því fólki sem starfaði við umræddar stofnanir og heimili og er sjálft saklaust. Einnig vegna þessa fólks þarf að varpa ljósi á hið sanna í málinu. Þetta er hlutur sem við eigum ekki að taka léttilega. Ég hef grun um að mörgum þeim sem hafa starfað við þessar stofnanir og eru alsaklausir af ásökunum sem komið hafa fram gegn öðrum starfsmönnum líði ekkert allt of vel þessa dagana. Fyrir hönd allra sem tengjast þessum heimilum er mjög mikilvægt að leiða hið rétta í ljós.

Við höfum fengið upplýsingar og varpað hefur verið ljósi á þessi mál frá ýmsum hliðum. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vakti máls á grein sem birtist í gær í blöðum frá fátækri móður sem svipt var barni sínu. Aftaka fjölskyldu í Hafnarfirði, var fyrirsögn þeirrar greinar sem mun hafa birst í Morgunblaðinu og það er þetta sem á að verða okkur að umhugsunarefni núna. Er eitthvað í þessum málum sem við getum skilað inn í samtímann og til framtíðar? Getum við lært af því sem gerst hefur, dregið af því ályktanir og gripið til aðgerða? Að sjálfsögðu mun sú vitundarvakning sem fylgt hefur þeim uppljóstrunum og þeim upplýsingum sem eru að koma fram í samfélaginu hafa áhrif. Þetta verður að verða til þess að eftirlit og aðhald verði stóreflt á stofnunum sem vista börn og ungmenni.

Það er annað líka. Við þurfum að huga að því hvað við eigum við með ofbeldi. Erum við einvörðungu að tala um ofbeldi af kynferðislegum toga eða eigum við að horfa á þessi mál í víðara samhengi? Ég held að við eigum að gera það. Hér hefur verið vitnað til umræðu sem fram fór í þinginu fyrir nokkrum dögum að frumkvæði hv. varaþingmanns, Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur, um málefni heyrnarlausra. Það var mjög góð umræða. Ég veit ekki hvort þingmenn almennt hafa lesið grein sem birtist í Morgunblaðinu sl. mánudag undir fyrirsögninni Reynslusaga heyrnarlausrar konu. Greinin er eftir Önnu Jónu Lárusdóttur. Þar segir frá veru hennar í Heyrnleysingjaskólanum. Hún fjallar ekki um ofbeldi af því tagi sem við höfum verið að tala um í tengslum við þessa umræðu heldur ofbeldi af öðrum toga. Hún segir almennt frá hlutskipti sínu í lífinu sem heyrnarlaus kona. Hún segir frá námi sínu í Heyrnleysingjaskólanum þar sem hún fékk ekki þá kennslu sem skyldi, ekki þá menntun eða þá kennslu sem henni hafi borið. Seinna þegar hún var orðin fullorðin kona fékk hún vinnu í Heyrnleysingjaskólanum við kennslu táknmáls. En henni var síðan sagt upp störfum vegna þess að hún hafði ekki öðlast næga menntun, hún var ekki með kennarapróf. Hún segir orðrétt, með leyfi forseta: „Þá fannst mér sem ríkið og skólakerfið hefðu svikið mig tvisvar.“ Ég ætla að lesa fáeinar setningar úr greininni, með leyfi forseta:

„Mig langar að segja ykkur sögu af sjálfri mér og frá minningum mínum úr Heyrnleysingjaskólanum. Ég man að ég sat inni í skólastofu, bara fjögurra ára gömul, með hinum nemendunum. Við vorum á mismunandi aldri og þau elstu um 5 árum eldri en ég. Kennarinn lét mig fyrst teikna og ég fylgdist bara með hvernig hann kenndi hinum nemendunum. Ég skildi bara ekki hvað hann var að segja — ekki neitt. Ég man líka eftir því að vera að læra að lesa og skrifa. Ég kunni öll orðin og vissi hvernig átti að skrifa þau en mörg orðin skildi ég ekki hvað þýddu. Svo var ég líka í talkennslu. Það var notaður spegill við talkennsluna og mér var alltaf aftur kennt að tala sömu hljóðin. Ég var orðin svo þreytt á að æfa mig að tala.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Þegar ég var búin að vera nokkra mánuði í skólanum man ég að kennarinn lét mig fá verkefni til að læra að skrifa og lesa. Ég skildi ekkert hvað hann var að segja — ekki eitt orð. Hann notaði ekkert táknmál eða fingrastöfun. Þegar ég var orðin svona um 6–8 ára gömul fékk ég bók til að æfa mig að lesa og skrifa. Kennarinn skrifaði á töfluna og reyndi að útskýra fyrir mér orðin. Ég skildi bara mjög lítið. Oft var orðinu sleppt ef ég skildi það ekki. Ég fékk alltaf sömu verkefnin aftur á hverju ári. Ég náði mjög lélegum árangri í stærðfræði og lærði einnig mjög lítið um heilsufræði og mjög lítið í náttúrufræði. Ég lærði ekki neitt í dönsku og ensku. Þegar ég sat með hinum nemendunum og ef ég talaði við þá táknmál þá barði kennarinn á hönd mína.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Þegar ég útskrifaðist úr skóla var ég bara með barnaskólanám en ég fékk enga einkunn á prófi. Ég fékk ekkert prófskírteini. Ég hef oft hugsað til baka um hvað ég hef þurft að þola. Nú í dag hef ég verið að kenna í skóla og guð minn góður, hvað það er mikill munur á kennslunni í dag. Nú er börnunum kennt á táknmáli og það er notaður túlkur og fleira. Þegar ég var ung fékk ég vinnu sem verkakona þangað til ég gifti mig. Ég eignaðist þrjú börn sem ég hef alið upp. Nú eru þau uppkomin og ég á fjögur barnabörn. Ég hef verið búsett erlendis í 11 ár og hef lært ensku ágætlega. Þegar við svo fluttum heim fékk ég vinnu í Heyrnleysingjaskólanum sem leiðbeinandi. Ég kenndi táknmál og um menningu og sögu heyrnarlausra. Í kennslunni ræddum við um hvað táknmál er og við skoðuðum og sömdum ljóð á táknmáli.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Ég kenndi þarna í 15 ár þangað til Heyrnleysingjaskólanum var lokað og hann þurfti að flytja í Hlíðaskóla. Þar var hann gerður að táknmálssviði. Ég vann á táknmálssviðinu í tvö ár en var þá sagt upp. Ástæða uppsagnarinnar var að ég hef ekki menntun. Þannig missti ég þá vinnu. Þegar þetta gerðist fannst mér ríkið hafa svikið mig tvisvar. Í fyrsta lagi var mér veitt léleg grunnmenntun og hafði engan aðgang að framhaldsmenntun og svo er mér sagt upp vegna menntunarskorts. Þar sveik ríkið mig aftur. Nú í dag vinn ég í leikskóla. Ég hef reynt að tala við Kennaraháskólann. Það gerði ég í fyrra. Ég ætlaði að reyna að fá menntun sem leikskólakennari. Þar var mér sagt að því miður væri ég ekki með grunnskólapróf og ekki heldur stúdentspróf. Ég er orðin 56 ára gömul og mig langar að njóta lífsins með fjölskyldu minni og barnabörnunum mínum. Ég á yndislega fjölskyldu. En ég vil ekki þola meiri útilokun. Mér finnst vera kominn tími til þess fyrir mig að fá tækifæri í lífinu og fá að njóta þeirra tækifæra sem mér finnst ríkið hafa svikið mig um.“

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að vitna meira í þessa grein eftir Önnu Jónu Lárusdóttur en minni á að fyrir þinginu liggur frumvarp um táknmál, um að það verði viðurkennt sem fyrsta mál þeirra sem ekki heyra. Ég ræði þetta í samhengi við það hvað við getum lært af fortíðinni og hvað við getum gert núna til að bæta hlut þeirra sem misrétti voru beittir. Við ræðum nú annars konar misrétti, misrétti sem tengist hrikalegu ofbeldi, misnotkun á börnum og unglingum. Það frumvarp sem við ræðum hér fjallar um það. Ég fagna því að rannsókn skuli hafin á Breiðavík. Ég tek undir ábendingar og áskoranir um að ekkert megi til spara í mannafla og fjármunum til að útvíkka rannsóknina þannig að hún taki til ofbeldis sem fram fór víðar, sögusagna um meira ofbeldi en þegar hefur verið dæmt í í Heyrnleysingjaskólanum og öðrum stofnunum sem hér hefur verið vikið að.

Ég segi líka, hæstv. forseti. Við eigum að horfa á misréttið í víðara samhengi en þetta og þar vísa ég m.a. í reynslusögu heyrnarlausrar konu, Önnu Jónu Lárusdóttur, sem aldrei fékk þá menntun sem henni bar og hefur nú verið svipt atvinnu sinni af þeim sökum.