133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.

668. mál
[11:52]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það er engin ástæða fyrir hæstv. forsætisráðherra að reiðast því, afbaka og aflaga orð manna þó að hann sé gagnrýndur fyrir að leggja fram mál sem að mínu viti er allt of þröngt. Það er hægt að gagnrýna hæstv. ráðherra fyrir að fylgjast ekki nægilega vel með þessum málum. Það kom skýrt fram í máli hans að ríkisstjórnin hefur greinilega ekkert kynnt sér málefni Heyrnleysingjaskólans eins og eðlilegt hefði verið í þeirri umræðu sem fram hefur farið. Það er hins vegar af og frá, frú forseti, að hægt sé að túlka orð mín eins og hæstv. forsætisráðherra gerði, að ég væri að kenna honum eða ríkisstjórninni um þessi mál. Það er með miklum ólíkindum. Bara til að það sé algjörlega skýrt vil ég segja að ég tel ég ekki að þessi ríkisstjórn beri neina sök á því sem hefur gerst í fortíðinni varðandi bæði Heyrnleysingjaskólann og Breiðavík. Ég held að það sé mjög erfitt að ásaka einhver stjórnvöld sérstaklega fyrir það.

Á Norðurlöndunum og í Evrópu þar sem svipaðar stofnanir hafa verið settar upp til að ala önn fyrir börnum sem einhverra hluta vegna hafa þótt erfið eða ekki getað verið heima hjá sér hafa sambærilegir atburðir gerst. Því miður er það sem gerðist í Heyrnleysingjaskólanum ekki einskorðað við slíka stofnun hér á landi, heldur hefur þetta gerst í Noregi, Svíþjóð, mjög víða á Vesturlöndum. Þetta er því miður alþjóðlegt fyrirbæri. Þess heldur hefði þá ríkisstjórnin átt að geta dregið upp úr sjóðum reynslu annarra þjóða. Þetta vil ég segja alveg skýrt í upphafi máls míns.

Ég tel sjálfsagt að stofna nefnd til að rannsaka mál af þessu tagi. Það er sjálfsagt að setja nefnd í það að rannsaka málið sem tengist Breiðavík og það er sjálfsagt að þessi ríkisstjórn hysji upp um sig brækurnar og geri reka að því að bæta þeim sem undir ábyrgð stjórnvalda á þeim tímum sættu miska. Það hafa aðrar þjóðir gert. Það getur vel verið að þessi ríkisstjórn sé með einhverjum hætti að ráðslaga um slíkt en ég hef ekki orðið var við að ríkisstjórnin ætli að greiða mönnum fé fyrir það sem gerðist á þessum stofnunum og var á ábyrgð ríkisins þótt ekki sé hægt að kenna neinu tilteknu stjórnvaldi eða tilteknum einstaklingum sem fóru með framkvæmdarvaldið um það. Hitt liggur fyrir að svo virðist sem mörg líf hafi lent á rangri braut eftir að menn voru þarna langtímum saman. Hugsanlega er hægt að rekja mikla ógæfu til þessa. Ef stjórnvald hefur með ákvörðunum sínum, eftirlitsleysi eða þekkingarleysi á einhverjum tíma bakað mönnum þann miska kemur að sjálfsögðu til álita að bæta þeim hann með einhverjum hætti. Það hefur komið upp í umræðunni um Byrgið. Þá hlýtur út frá sjónarmiðum jafnræðis hið sama að gilda um þá sem voru í Breiðavík. Sömuleiðis hljóta menn að skoða það sem gerðist í Heyrnleysingjaskólanum og beita nákvæmlega sömu bótahugmyndum og bótareglum gagnvart þeim. Svo einfalt er það. Sá sem ber ábyrgð á miska skal líka sæta ábyrgð varðandi bætur til að reyna að leggja líkn við þraut.

Ég sagði, frú forseti, að ég teldi þessa tillögu allt of þrönga. Hæstv. forsætisráðherra tók það illa upp þegar ég tók upp málefni Heyrnleysingjaskólans og þeirra sem þar voru, spurði hvort ég heyrði illa sjálfur og hvort ég hefði ekki heyrt þegar hann sagði að hér ætti að taka skipulega málefni Breiðavíkur og „annað eftir atvikum“. Aldrei í framsögu hæstv. ráðherra var minnst á Heyrnleysingjaskólann, sem sýnir bara að sá skóli og það sem þar gerðist hefur verið fyrir utan sjóndeildarhring ríkisstjórnarinnar. Hún hefur ekki gefið því máli gaum og þó ættu að hafa verið ærnar ástæður til þess.

Helsta ástæðan er auðvitað sú merkilega ræða sem hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir flutti hér á dögunum og snart alla þá sem hlustuðu á, og sáu. Hv. þingmaður reifaði þá það skelfilega mál sem kom upp fyrir nokkru í sambandi við Heyrnleysingjaskólann. Hún rifjaði upp hvernig börnin sem þar voru á heimavist fengu ekki að læra táknmálið, gátu ekki tjáð sig, voru girt og læst af innan múra málleysisins. Þau gátu ekki komið á framfæri reynslu sinni.

Hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir sem þekkir þetta betur en nokkur annar sem nokkru sinni hefur stigið inn í þessa sali greindi okkur frá því að árum saman hefði verið kvittur um það í samfélagi heyrnarlausra að börn á heimavist Heyrnleysingjaskólans hefðu sætt einelti, líkamlegu ofbeldi og kynferðislegri misnotkun. Það var ekki fyrr en löngu seinna, árið 1998, sem það braust fram með ákveðnum hætti og það leiddi til kæru í málinu. Í ljós kom að þær kringumstæður sem börnin sögðu frá, nákvæmlega hver hafði verið valdur að því og við hvaða aðstæður það hefði gerst var allt saman satt og rétt og þetta leiddi til sakfellingar. Það kom í ljós samkvæmt dómi að fjögur börn höfðu verið misnotuð með þessum hætti.

Síðan gerist það aftur, og af því hefði hæstv. ríkisstjórn náttúrlega átt að vita. Fyrir þremur árum kom upp sakamál á Suðurnesjum sem var töluvert mikið í fjölmiðlum. Við rannsókn þess máls kom í ljós að einn aðili sem því tengdist hafði sætt grófu kynferðislegu ofbeldi á heimavist Heyrnleysingjaskólans á sínum tíma. Dómarinn sagði þá, og það hefði átt að ná eyrum framkvæmdarvaldsins, að það væri hneyksli að málið hefði ekki verið rannsakað. Það hefur ekkert verið rannsakað síðan. Framkvæmdarvaldið hlítti ekki þeirri áskorun sem birtist í orðum dómarans út af þessu. Hins vegar var gerð rannsókn á þessu máli og muni ég rétt fór sú rannsókn fram í formi opinberrar eða óopinberrar skýrslu fyrir nokkrum mánuðum. Hver var meginniðurstaðan í rannsókninni? Jú, frú forseti, meginniðurstaðan var sú að 30–40% þeirra barna sem spurð voru og höfðu verið á heimavist Heyrnleysingjaskólans höfðu sætt ofbeldi af því tagi sem ég var að lýsa hér.

Til hvaða ráða hafa þá stjórnvöld gripið í framhaldinu? Það mál komst ekki í fjölmiðla með svipuðum hætti og mál Breiðavíkur, sem af sérstökum ástæðum komst vel í fjölmiðla, og mér er ekki kunnugt um að ríkisstjórnin hafi gert reka að því að kanna nákvæmlega hvað þarna gerðist og hversu útbreitt þetta var, hverjir það voru, og bjóða þá þeim sem sættu þessu ofbeldi upp á sams konar ráðgjöf og þeim hefur verið boðin sem voru í Breiðavík. Þetta tel ég ámælisvert. Mér hitnaði auðvitað í hamsi í orðaskiptum mínum við hæstv. ráðherra áðan vegna þess að það kom skýrt fram að þetta var utan við sjónsvið ríkisstjórnarinnar. Hún virtist enga grein gera sér fyrir þessu þó að fyrir lægi skýrsla, nokkurra mánaða gömul, þó að fyrir lægi yfirlýsing dómara við rannsókn sakamáls sem leiddi til sakfellingar árið 2004 um að það væri hneyksli að þetta hefði ekki verið rannsakað. Svona einfalt er nú þetta.

Það er þess vegna sem ég segi að þessi rannsókn sé of þröng. Þá miða ég við að það er bersýnilegt að sú leiðsögn sem rannsakendum, nefndinni sem verður falin rannsóknin samkvæmt þessu frumvarpi, er ekki beint sérstaklega t.d. að Heyrnleysingjaskólanum. Hæstv. forsætisráðherra segir að það sé auðvitað hægt síðar, það þurfi að taka þetta skipulega, Breiðavík komi fyrst og síðan hugsanlega þetta, eða eins og hæstv. ráðherra orðaði það, „eftir atvikum“. Það er ekki nóg fyrir mig.

Sömuleiðis vil ég segja, frú forseti, að ég er ekki sáttur við það með hvaða hætti hæstv. forsætisráðherra nálgast Byrgismálið hér. Þegar hann var spurður um þetta áðan, m.a. af mér í andsvari, kom hann býsna rogginn og sagði: Veit hv. þingmaður ekki að þetta er lögreglumál? Það er í rannsókn.

Svo kemur hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og spyr hann: Ja, alltsvo, hæstv. forsætisráðherra, er þetta ekki lögreglurannsókn sem beinist fyrst og fremst að fjármálaóreiðu?

Þá svarar hæstv. forsætisráðherra með svofelldum hætti: Jú, hún beinist að fjármálaóreiðu en hún beinist líka að einkamálum sem reist hafa verið vegna einstaklinga sem þar telja sig hafa sætt ofbeldi. Svo bætir hann við: En ég veit það ekki, og það er ekki hægt að ætlast til þess.

Það getur vel verið að það sé ekki hægt að ætlast til þess. Þá er heldur ekki hægt að gera ráð fyrir því að forsætisráðherra vísi röksemdum okkar frá með því að segja varðandi Byrgið: Já, en það er í lögreglurannsókn.

Svo kemur í ljós að hann veit ekkert um hvað hún snýst og segir meira að segja að ekki sé hægt að ætlast til þess að hann viti neitt um það. Herra trúr, hvers konar málflutningur er þetta? Þarna stangast á staðhæfingar og öll röksemdafærslan er í tætlum. Það er allt í lagi frá mínum sjónarhóli, herra forseti, ef málið sjálft verður gott og lætur gott af sér leiða. Ég dreg engan efa á það. Hins vegar finnst mér óhæfa að þetta mál verði ekki látið ná til Byrgisins líka. Þar var um að ræða einstaklinga sem voru börn samkvæmt þeirri skilgreiningu sem hæstv. forsætisráðherra hefur sjálfur beitt sér fyrir í lagafrumvörpum sem við greiddum atkvæði með fyrir nokkrum árum. Þarna voru börn undir 18 ára aldri og við, fulltrúar samfélagsins, berum ábyrgð á þeim. Ef það kemur í ljós að einhver einstaklingur hefur verið beittur ofbeldi, andlegu, líkamlegu eða sætt einhvers konar kynferðislegri misnotkun af þeim mönnum sem þar réðu fyrir, og miðað við alla þá málavöxtu sem við þekkjum í dag kallar það á rannsókn stjórnvalda á því hvort fleiri einstaklingar, fleiri stúlkur, hafi orðið fyrir slíku ofbeldi. Þá dugar ekkert að vísa til rannsóknar lögreglunnar. Sýslumaðurinn á Selfossi vísaði því frá sér að gera almenna rannsókn á þessu máli. Hann sagði: Það þarf kæru einstaklings sem verður að vera andlag slíkrar rannsóknar. Þegar einkamál eru reist varða þau eðli máls samkvæmt þann einstaklingi sem hefur verið brotið á, þann sem brýtur og brotið í heild sinni, ekki aðra. Með öðrum orðum leikur grunur á því að í Byrginu hafi börn allt niður í 15 ára verið misnotuð og það þýðir ekkert fyrir ríkisstjórnina að segja: Við skulum rannsaka málið í Breiðavík en ekki í Byrginu.

Hvers eiga þeir að gjalda sem voru börn og voru í Byrginu undir eftirlitsleysi stjórnvalda þar sem alls konar hlutir viðgengust af því að stjórnvöld brugðust? Af hverju er ríkisstjórnin svona hrædd við þetta mál, af hverju má ekki ræða það, af hverju má ekki rannsaka það? Það skyldi þó aldrei vera að menn væru hræddir við að niðurstaðan yrði sú að eftirlitsleysi, skortur á aðhaldi og og skortur á því að fara að tilmælum vinnunefndar þriggja ráðuneytisstjóra ættu sinn þátt í því að upp komu þessar aðstæður? Samfélagið ber ábyrgð á þessu, og ríkisstjórnin ber ábyrgð vegna þess að hún hélt verndarhendi yfir þessari starfsemi, eins og þingið allt eins og hér hefur komið fram, og við í þinginu berum þess vegna ábyrgð á því að þetta verði skoðað niður í kjölinn.

Það eru tvær ástæður fyrir því, ekki bara til að reyna að kanna þann miska sem menn kunna að hafa orðið þarna fyrir og reyna að greiða úr honum með einhvers konar aðstoð og áfallahjálp, fjárhagslegri eftir atvikum, heldur líka til að læra af því. Byrgið er mál sem stjórnsýslan þarf að læra af. Heyrnleysingjaskólinn er mál sem stjórnsýslan þarf að læra af. Þá þýðir ekkert að vera forsætisráðherra, koma hingað og segja: Ja, það verður rannsakað skipulega eftir atvikum.

Það verður að koma hér alveg skýrt fram að þessi mál verði rannsökuð og ekkert undan dregið. Ég tek það ekki í mál að taka þátt í því enn einu sinni að Byrginu verði sópað undir teppið. Þessi ríkisstjórn á bara að hafa kjark til að horfast í augu við þá ábyrgð sem á henni hvílir.

Hér skulum við taka höndum saman um að gera þessi mál upp. Það er eitt af því sem þessi ríkisstjórn vill ekki, hvort heldur er varðandi hleranir eða annað, hún er alltaf hrædd við uppgjör. Þessi mál eiga að vera þess eðlis að það séu engin leyndarmál. Það er skylda okkar sem förum hér með vald sem kjörnir fulltrúar og þeirra sem er trúað fyrir framkvæmdarvaldinu að láta rannsaka þessi mál og kanna hvað gerðist. Það á ekki að einskorðast við þær stofnanir sem í fyrndinni störfuðu, það á líka að ná yfir þær stofnanir sem eru að störfum í dag.

Það hefur komið fram hjá einum af æðstu embættismönnum ríkisins, þeim sem er trúað fyrir barnaverndarmálum, forstjóra Barnaverndarstofu, að barnaverndarmál á Íslandi eru í nokkrum ólestri. Það vantar skýra stefnu í barnaverndarmálum, stöðugildum fjölgar ekki, fjárveitingar eru heldur að lækka á sama tíma og barnaverndarmálum stórfjölgar. Frá 1999 til ársins í fyrra fjölgaði þeim um 60%, í fyrra voru 7 þús. mál sem með þessum hætti komu til kasta barnaverndaryfirvalda, sem var vísað til þeirra. Stöðugildum hefur samt ekki fjölgað. Fjárframlög hafa ekki aukist, þau hafa heldur minnkað. Menn verða að taka alvarlega á þessu máli en það finnst mér ekki vera gert.

Þetta vildi ég segja, frú forseti, og ítreka það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði hér fyrir hönd Samfylkingarinnar, við viljum styðja þetta mál en það kemur ekki annað til mála en að það verði útvíkkað og það verði alveg skýrt í því þingskjali sem fylgir lokasamþykkt þessa frumvarps að það muni ná yfir Heyrnleysingjaskólann og skýr fyrirmæli komi fram þar um. Ég tel það óhæfu af þinginu að láta það ekki ná líka til rannsóknar á kjörum og hugsanlegrar rangrar breytni gagnvart þeim börnum sem dvöldust í Byrginu.