133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[13:39]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga, um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, með síðari breytingum. Frumvarpið er að finna á þskj. 1020 sem er 669. mál þessa þings.

Frumvarp þetta er samið í samráði við Bændasamtök Íslands. Tilgangur frumvarpsins er að lögfesta nauðsynlegar breytingar á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, vegna ákvæða í samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar milli landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands sem undirritaður var 25. janúar 2007. Samningurinn er byggður á eldri samningi um framleiðslu sauðfjárafurða frá 11. mars 2000, en þó töluvert einfaldaður og breyttur. Samningurinn sem nú liggur fyrir nær yfir tímabilið frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2013. Um efni hans vísast til fylgiskjals I með frumvarpi þessu. Ekki er í samningnum um grundvallarstefnubreytingu af hálfu ríkisins að ræða hvað varðar stuðningsfyrirkomulag við sauðfjárrækt. Þó felur samningurinn og frumvarp þetta í sér nokkrar breytingar sem nánar er gerð grein fyrir í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins.

Helstu efnisatriði frumvarpsins eru eftirfarandi:

Í 1. gr. frumvarpsins er fjallað um breytingar á 2. gr. búvörulaga þar sem skilgreiningar á hugtökum er að finna. Hugtakið jöfnunargreiðslur er m.a. fellt brott þar sem hætt verður að greiða slíkar greiðslur ef frumvarp þetta verður að lögum og munu jöfnunargreiðslur verða felldar inn í beingreiðslur.

Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um brottfall 3., 4., 5. og 6. mgr. 29. gr. laganna sem allar eiga það sameiginlegt að fjalla með einum eða öðrum hætti um útflutning á kindakjöti og skyldu sláturleyfishafa og sauðfjárframleiðenda til að taka þátt í slíkum útflutningi. Í samningi ríkisins og Bændasamtaka Íslands, um starfsskilyrði sauðfjárræktar, frá 25. janúar sl. er kveðið á um afnám útflutningsskyldunnar í ákveðnum skrefum og verður skyldan að fullu afnumin 1. júní 2009. Ákvæði um útflutningsskyldu falla því brott úr lögunum eftir nánari fyrirmælum gildistökuákvæðis laganna.

Í 3. gr. frumvarpsins er fjallað um breytingu á ákvæðum 36. gr. búvörulaga. Með tilkomu nýs samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar var markmiðum samningsaðila lítillega breytt og þau umorðuð án þess þó að um neina grundvallarbreytingu á markmiðum sé að ræða. Með frumvarpinu er lögð áhersla, samanber b-lið, á að styrkja búsetu í dreifbýli. Í samræmi við þetta markmið renna tilteknar greiðslur til ákveðinna lögbýla á svæðum þar sem sauðfjárrækt er sérstaklega mikilvæg fyrir viðkomandi byggð. Í dag rennur svipuð fjárhæð til viðkomandi byggða í formi styrks í gegnum svonefnd 7.500 ærgildi, en með nýjum sauðfjársamningi var sérstaklega samið um þennan styrk sem úthluta á til þeirra aðila sem nú njóta greiðslna á grundvelli 7.500 ærgildanna.

Í nýju samkomulagi um starfsskilyrði sauðfjárræktar er ekki lengur gert ráð fyrir svonefndum jöfnunargreiðslum. Því er gert ráð fyrir því í 4. gr. frumvarpsins að jöfnunargreiðslur renni inn í heildargreiðslumark sauðfjár á samningstímabilinu. Með hliðsjón af því er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að 40. gr. gildandi laga falli brott og til verði ný 37. gr. búvörulaga þar sem m.a. verði fjallað um og taldir upp þeir flokkar greiðslna sem gert er ráð fyrir í samningnum frá 25. janúar 2007.

Í 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins koma fyrir þeir flokkar greiðslna sem stuðningi ríkisins er veitt í, þ.e. beingreiðslur, sem samkvæmt samningnum eru á ári út samningstímann 1.716 millj. kr., gæðastýringargreiðslur 898 millj. kr. út samningstímann, ullarnýtingargreiðslur 300 millj. kr. út samningstímann, greiðslur vegna markaðsstarfs og birgðahalds, sem í upphafi samningstímans eru 311 millj. kr. en lækka á hverju ári og eru í lok samningstímans um 160 millj. kr., svæðisbundinn stuðningur 43 millj. kr. út samningstímann og að lokum greiðslur vegna nýliðunar og átaksverkefna 80 millj. kr. út samningstímann. Heildarfjárhæð greiðslna á ári út samningstímann fer úr 3.348 millj. kr. í upphafi lækkandi ár frá ári og eru á lokaári samningsins 3.197 millj. kr. Tekið skal fram að allar ofangreindar fjárhæðir eru miðaðar við verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs 1. janúar 2007 sem var 266,2 stig og taka þær mánaðarlegum breytingum þaðan í frá.

Í 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins er að finna frekari breytingar er leiða af undirritun nýs samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar. Í greininni er að finna upplýsingar um heildargreiðslumark í sauðfé sem í gildi verður frá og með 1. janúar 2008, þ.e. 368.457 ærgildi. Einnig er kveðið á um hvert verði heildarbeingreiðslumark sauðfjárafurða, þ.e. 1.716 millj. kr. á ári, og um skiptingu þess hlutfallslega á milli lögbýla. Kveðið er á um sömu skiptingu beingreiðslna og farið var eftir árið 2007.

Í 5. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að gildandi 4. mgr. 38. gr. falli brott. Í dag er greininni ætlað að uppfylla ákveðna samningsskuldbindingu ríkisins samkvæmt núverandi sauðfjársamningi sem fellur úr gildi 1. janúar 2008. Eftir þann tíma á greinin ekki lengur við. Í nýjum sauðfjársamningi er hins vegar að finna ákvæði sem kallar á breytingu á lögum þar sem kveða þarf á um tiltekinn lögvarinn rétt ábúenda eða leigutaka lögbýlis til að kaupa eða skrá greiðslumark á viðkomandi býli. Í greininni er jafnframt ítrekuð heimild leiguliðans til að framselja slíkt greiðslumark án samþykkis jarðeiganda.

Hæstv. forseti. Ekki er þörf á að fjalla um efni 6. gr. Þar sem ekki er gert ráð fyrir að jöfnunargreiðslur verði áfram greiddar til framleiðenda með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í 40. gr. gildandi búvörulaga er í 7. gr. fjallað um hvernig jöfnunargreiðslur eru teknar inn í heildargreiðslumark lögbýla frá og með 1. janúar 2008. Um þá framkvæmd er vísað til nýs bráðabirgðaákvæðis, Ú, við lögin.

Í 8. gr. frumvarpsins er fjallað um þær breytingar sem gert er ráð fyrir að verði á 41. gr. laganna. Gert er ráð fyrir að 1. mgr. gildandi 41. gr. falli brott í heild þar sem hún, ef frumvarp þetta verður að lögum, á þá ekki lengur við. Almennt má segja um greinina að í henni er fjallað um svokallaðar gæðastýringargreiðslur í sauðfjárrækt. Með því er átt við sérstakar greiðslur sem greiddar eru úr ríkissjóði samkvæmt ákvæði í samningi um starfsskilyrði í sauðfjárrækt frá 25. janúar 2007. Greiðslurnar skulu fara til þeirra bænda sem uppfylla skilyrði lagagreinarinnar og reglugerðar sem sett er um heimild í þeim. Með þeirri breytingu sem lögð er til á 41. gr. er lagatextinn gerður einfaldari og gert ráð fyrir að almenn efnisákvæði og nánari skilyrði fyrir gæðastýringargreiðslum verði útfærð í reglugerð sem ráðherra setur í samráði við Bændasamtök Íslands.

Í 9. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að 42. gr. núverandi laga falli brott. Í núverandi 42. gr. er fjallað um hlutverk framkvæmdanefndar búvörusamninga við framkvæmd og eftirlit með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu. Gert er ráð fyrir því að hætt verði með lögum að fela framkvæmdanefndinni verkefni vegna gæðastýringar. Einn annmarki þess kerfis sem nú er í gæðastýringu er hversu mörg stjórnvöld koma að þeim málum sem þar er fjallað um. Með því að hætta að fela framkvæmdanefndinni ákveðin stjórnsýsluverkefni vegna gæðastýringarinnar verður þessum aðilum fækkað. Gert er ráð fyrir því að ráðherra feli í reglugerð Landbúnaðarstofnun að sinna því hlutverki sem framkvæmdanefndinni er nú falið í lögum.

Ekki er sérstök þörf á að fjalla um 10., 11. og 12. gr. frumvarpsins en um athugasemdir við þær er vísað til framlagðrar greinargerðar með frumvarpinu á þskj. 1020.

Í 13. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að nefnd sú sem komið er á fót í 46. gr. gildandi laga, og fjallar um ágreining um það hvort einstakir framleiðendur uppfylla skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu eða ekki, verði lögð niður. Í raun hefur það verið svo að fá mál hafa ratað á borð umræddrar nefndar. Samhliða því að ákvæði er varða úrskurðarnefndina eru felld brott eru tilvísanir í búvörulögunum þar sem fjallað er um úrskurðarnefndirnar felldar brott, þ.e. úr 1. mgr. 56. gr. og 1. mgr. 61. gr. Nánar um rökstuðning fyrir ákvæði greinar er vísað til umfjöllunar í greinargerð með frumvarpi þessu.

Í 14. gr. er gert ráð fyrir því að 47. gr. núverandi laga falli brott og þar með að framkvæmdanefnd búvörusamninga hætti að hafa yfirumsjón með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu.

Í 15. gr. er gert ráð fyrir því að 48. gr. núverandi laga falli brott. Ákvæði hennar hafa nú að mestu verið færð í 41. gr.

Í 16. gr. er gert ráð fyrir því að 49. gr. núverandi laga falli brott. Í 49. gr. núverandi laga er fjallað um úrskurðarnefnd vegna ágreinings um greiðslumark og skipan hennar. Úrskurðarnefnd samkvæmt búvörulögum um ágreining um greiðslumark fékk þrjú mál til meðferðar 2001, ellefu mál árið 2002, þrjú mál árið 2003, fjögur mál 2004 og tvö mál 2005. Með ofangreindri breytingu verður það svo að þær ákvarðanir sem gera má ráð fyrir að Landbúnaðarstofnun felli verði kæranlegar til ráðherra sem æðra stjórnvalds, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Í 56. gr. í X. kafla um framleiðslu- og greiðslumark mjólkur 1998–2005 er kveðið á um að 49. gr. gildi um ágreining vegna ákvarðana á greiðslumarki lögbýla samkvæmt þeim kafla. Í 61. gr. í XI. kafla um framleiðslu- og verðmyndun garð- og gróðurhúsaafurða 2002–2011 er kveðið á um að 49. gr. gildi um ágreining samkvæmt þeim kafla. Í samræmi við það að úrskurðarnefndin er lögð niður eru ofangreindar tvær tilvitnanir í 49. gr. felldar brott úr viðeigandi lagagreinum.

17. gr. frumvarpsins þarfnast ekki skýringar. Um 18. gr. er ekki þörf að fjölyrða en um hana eiga við þær athugasemdir sem þegar hafa verið raktar um 5. gr. Í 19. og 20. gr. eru felldar úr lögunum tilvitnanir til úrskurðarnefnda sem gert er ráð fyrir að verði aflagðar ef frumvarp þetta verður að lögum.

Í 21. gr. er fjallað um breytingu á 74. gr. núverandi laga. Í tengslum við afnám útflutningsskyldu á sauðfjárafurðum í áföngum og að fullu 1. júní 2009 er gert ráð fyrir því að 74. gr. falli brott. Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að landbúnaðarráðherra hætti að hafa afskipti af samningum milli Bændasamtaka Íslands og sláturleyfishafa um verkaskiptingu vegna slátrunar og verkunar sauðfjár- og stórgripaafurða til sölu á erlendan markað. Slík samningsskylda er nú felld brott úr lögunum. Þessir aðilar geta eftir sem áður haft ákveðið samstarf og þá innan ramma samkeppnislaga, nr. 44/2005. Sérstaklega á það við um samstarf vegna útflutnings á erlendan markað enda hafi það ekki áhrif á samkeppni innan lands.

Í 22. gr. er gert ráð fyrir því að ákvæði 1., 2. og 3. mgr. 75. gr. falli brott þar sem þau hafa ekki lengur þýðingu. Í greininni er jafnframt kveðið á um breytingu á 4. mgr. gildandi 75. gr. í þá veru að sérstakur sjóður, svokallaður Garðávaxtasjóður sem starfræktur hefur verið og úthlutað hefur styrkjum til stofnræktar garðávaxta, rannsókna og tilrauna með ræktun og meðferð garðávaxta og vöruþróun á þessu sviði, sbr. reglugerð nr. 180/1992, verði sameinaður Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Stjórn Framleiðnisjóðs annast nú vörslu og úthlutun fjár úr sjóðnum. Eignir Garðávaxtasjóðs í árslok 2005 voru 53,6 millj. kr. Úthlutun úr sjóðnum árið 2005 samkvæmt ársskýrslu sjóðsins nam 1,7 millj. kr. (vöxtum af höfuðstól) til fastaverkefnis Landbúnaðarháskóla Íslands og útsæðisnefndar sem varðar viðhald heilbrigðra kartöflustofna. Þar sem fjárþörf verkefnisins var meiri en nam árstekjum Garðávaxtasjóðs árið 2005 var mismuninum mætt með viðbótarframlagi úr Framleiðnisjóði.

Er talið að með því að sameina sjóðinn Framleiðnisjóði landbúnaðarins sé hægt að gera hann að öflugri og einfalda stjórnsýslu með þeim verkefnum sem sjóðnum er ætlað að sinna. Þeim verkefnum sem sjóðnum er ætlað að styrkja eru nú jafnframt styrkfær úr Framleiðnisjóði, samanber lög um Framleiðnisjóð landbúnaðarins, nr. 89/1966, ásamt síðari breytingum, og 3. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998, og er æskilegt að áhersla verði á að áfram fáist jafnmikið og helst meira fé til þessara rannsókna eftir sameiningu sjóðanna.

Í 23. gr. er að finna breytingar á ákvæðum til bráðabirgða við búvörulögin, ákvæði P, R og S eiga ekki lengur við og eru því felld brott. Í nýju ákvæði T er sambærilegt ákvæði og nú er að finna í búvörulögunum en ákvæðið er aðlagað nýjum samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar. Ákvæðið veitir landbúnaðarráðherra áframhaldandi heimild til að gera samning við bændur sem hafa náð 64 ára aldri um að eiga hvorki né halda sauðfé til og með 30. desember 2013 en halda óskertum beingreiðslum á sama tíma. Ákvæði U tekur á afnámi útflutningsskyldu í áföngum og kveður á um þær reglur sem um það gilda. Í ákvæði Ú er fjallað um það hvernig réttur þeirra sem samkvæmt núverandi lögum fá jöfnunargreiðslur breytist í greiðslumark.

Í 24. gr., sem fjallar um gildistöku laganna, kemur fram að þeim er ætlað að taka gildi þann 1. janúar 2008 en ákvæði 2. og 21. gr. koma þó ekki til framkvæmda fyrr en 1. júní 2009.

Hæstv. forseti. Þá hef ég farið yfir helstu efnisatriði frumvarpsins og samningsins. Þess má geta að bændur hafa fjallað um þennan samning og greitt um hann atkvæði og samþykkt hann með um 90% greiddra atkvæða.

Ég trúi því að þessi samningur sé sauðfjárbúskapnum mjög mikilvægur. Ríkið styður með þessu búgreinina til að eflast og þróast og búa sig undir þær framtíðarhorfur sem t.d. WTO-samningar boða. Öflugri og sterkari bændur eru mikilvægari en áður og þeir verða þá betur í stakk búnir til að mæta lægri tollum og breyttum stuðningi innan lands eins og alþjóðasamningar boða. Sveitin og öflug bú og bændur skipta miklu máli í okkar stóra og strjálbýla landi. Þessi samningur hefur bæði þýðingu fyrir fjölskyldur sauðfjárbænda og neytendur á Íslandi, sem fá lambakjöt á lægra verði á diskinn sinn vegna þessa stuðningsforms við búgreinina. Sauðfjárræktin hefur í mínum huga gríðarlega þýðingu fyrir íslenskan landbúnað og hinar dreifðu byggðir. Lambakjötið er einstök afurð sem vekur athygli um víða veröld fyrir gæði eins og oft hefur verið minnst á úr þessum ræðustól, og er einstaklega hátt metið af íslenskum neytendum. Ullin hefur vissulega bjargað lífi okkar í gegnum aldirnar.

Landbúnaðurinn er almennt í mjög örri þróun. Ný tækifæri blasa við í sveitunum sem aldrei fyrr, hvort sem það er ferðaþjónustan eða þau verkefni sem bændur hafa tekið að sér í skógrækt eða landgræðslu svo ekki sé talað um þá miklu þróun og þann mikla uppgang sem verið hefur í hestamennskunni. Hrossabúgarðarnir vitna um það og það duglega fólk. Það var gleðilegt við upphaf búnaðarþings eftir miklar umræður um landbúnaðinn, og oft og tíðum ekki maklegar eins og þær eru settar fram, að heyra að Íslendingar standa með landbúnaðinum og virða hann mikils.

Það kom t.d. fram í Gallup-könnun að 75% Íslendinga telja að íslenskur landbúnaður sé að skaffa á sitt borð meiri gæði en gerist og gengur og sýnir hve samstaðan er mikil. 94% Íslendinga telja mjög mikilvægt að landbúnaður sé stundaður í landinu og sé öflugur. 80% Íslendinga telja mjög mikilvægt að Ísland verði ekki háð öðrum þjóðum hvað matvælaöryggi og matvælaframleiðslu varðar. Þessi skoðanakönnun vitnar um styrk og sókn íslenskra bænda á síðustu árum við þá öru þróun, við þá gæðastýrðu búvöruframleiðslu og þann kraft sem einkennt hefur sveitirnar og uppgang síðustu árin.

Það var mikið fagnaðarefni að heyra af þessari könnun sem staðfesti reyndar það sem ég vissi að íslenskir bændur er mikils metnir, ekki bara af fólki á landsbyggðinni heldur af Íslendingum almennt. Á höfuðborgarsvæðinu eins og á öðrum stórum þéttbýlisstöðum er margt fólk sem virðir störf bændanna, telur landbúnaðinn mikilvægan fyrir þjóðina og vill sjá hann eflast. Því trúi ég, hæstv. forseti, að sá samningur sem hér hefur verið gerður, og er nú lagður fram á þinginu til afgreiðslu, verði sauðfjárframleiðslunni og landbúnaðinum í heild að miklu gagni horft til framtíðar.

Með þeim orðum lýk ég ræðu minni og legg til að að þessari umræðu lokinni verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbúnaðarnefndar.