133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:05]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að útflutningsskyldan hafi verið barn síns tíma og að hennar tími sé í raun liðinn, af mörgum ástæðum. Í fyrsta lagi ber atvinnugreininni sjálfri að bera ábyrgð á markaðsmálum sínum. Útflutningsskyldan getur haft margt í för með sér. Hún hefur haft í för með sér að lambakjötið víkur meira af markaði og fer út þegar samkeppni harðnar. Lambakjötið missir hlutdeild á markaði af þessum ástæðum þannig að ég hygg að horft til framtíðar muni þessi niðurstaða styrkja sauðfjárframleiðsluna og færa bændurna nær markaðnum sem er gríðarlega þýðingarmikið að mínu viti.

Ég tel að þessi samningur, eins og sá síðasti, hafi mikla þýðingu. Samningurinn sem við gerðum árið 2000 hafði gríðarlega þýðingu. Við sjáum það í sauðfjárbúskapnum að margt það sama er að gerast og í mjólkurframleiðslunni. Menn eru að byrja að stækka og efla bú sín, tæknivæða þau og gera fjölskyldum sínum kleift að hafa lífvænlegar tekjur af framleiðslunni. Ég trúi því að þessi samningur muni efla sauðfjárræktina mjög næstu sjö árin.