133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:10]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Að gefnu tilefni verð ég að vísa á bug stóryrðum hæstv. landbúnaðarráðherra um að þingmenn Samfylkingarinnar í salnum þurfi að skammast sín. Ástæðan fyrir því að hæstv. landbúnaðarráðherra hefur uppi stór orð og mikinn hita af litlu tilefni er sú að hann hefur sjálfur nokkuð að skammast sín fyrir. Hann hefur staðið þannig að málefnum sauðfjárbænda að það skilar þeim hvorki lífskjörum sem duga og hægt er að bjóða upp á árið 2007 né neytendum því matvöruverði sem hægt er að bjóða upp á árið 2007.

Ég kom hingað upp, virðulegur forseti, til að spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra hvernig hann liti á þessa skuldbindingu gagnvart fjárlögum komandi ára. Ég spyr hvort hann sé með samningi þessum að binda Alþingi til sex ára, fram yfir allt næsta kjörtímabil, um liðlega 20 milljarða fjárveitingar eða hvort ný ríkisstjórn sem tekur við í maí næstkomandi sé frjáls að því að gera þær breytingar í samningum við bændur sem hún telur þurfa eða veita það fé sem sú stjórn telur þurfa á næsta kjörtímabili. Hefur hæstv. landbúnaðarráðherra í þessu frumvarpi til breytinga á fyrri lögum enga fyrirvara um gerð fjárlaga á ári hverju?