133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:13]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það gefst tækifæri til þess síðar að fjalla nokkuð í ræðu um afstöðuna til fjárlaga og skuldbindinga fyrir komandi kjörtímabil, sem lýsir sér í ræðu hæstv. landbúnaðarráðherra. Ég held að það eigi að vera öllum mikið umhugsunarefni að ríkisstjórnir á hverjum tíma telji sig þess umkomnar að gera samninga og skuldbinda að verulegu leyti fyrir næstu kjörtímabil þær ríkisstjórnir sem eiga eftir að taka við sem er í raun fyrir tímabil sem umboð þeirra nær ekki til. Ég held að það sé almennt ástæða til að gjalda varhuga við því.

Um málstað hæstv. landbúnaðarráðherra við þessa umræðu vitnar hans eigin hiti og reiði best. Eftir stendur sem fyrr að stefna hans hefur hvorki dugað sauðfjárbændum til að búa við sæmileg lífskjör né neytendum til að fá matvælaverð sem við gerum kröfu um í dag. Það er sá bautasteinn sem Guðni Ágústsson skilur eftir í landbúnaðarráðuneytinu og er sannarlega tilefni til að taka þar til í vor.