133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:14]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það vill svo til að stór hluti Samfylkingarinnar hefur fyrir rest samþykkt þá samninga sem ég hef komið með fyrir þingið. Þeir hafa hátt í ræðustólnum en hafa svo greitt þeim atkvæði af því að hluti þeirra er auðvitað ábyrgir menn og hafa góðan hug, eins og hv. þm. Einar Már Sigurðarson sem hér stendur.

Ég vil svo segja að auðvitað erum við skuldbundnir, bæði af samningum og lagagerð á mörgum sviðum. Við höfum sett lög um félagslegar aðgerðir. Ég hef t.d. nefnt það. Þessi upphæð sem fer á ári í að efla þennan atvinnuveg og greiða niður matvælaverð á disk neytenda er ekki hærri en svo að hún er álíka há og nýupptekin félagshyggja sem snýr að feðraorlofi, með svipaðri upphæð á ári og fer í styrk til svokallaðs feðraorlofs. En þetta er félagsleg aðgerð, þetta er byggðaaðgerð. Þetta mun efla sauðfjárrækt, þennan atvinnuveg sem er mjög mikilvægur fyrir okkur Íslendinga.