133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:15]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það ánægjulegasta sem hefur gerst þessa dagana er einmitt staðfesting á vilja og afstöðu þjóðarinnar til íslensks landbúnaðar í þeirri skoðanakönnun sem var birt við setningu búnaðarþings þar sem 98% svarenda leggja áherslu á og treysta gæðum íslenskrar landbúnaðarframleiðslu. 94% aðspurðra finnst skipta miklu máli að öflugur landbúnaður sé stundaður hér á landi. Um 80% aðspurðra leggja áherslu á að Íslendingar séu ekki öðrum háðir um þær landbúnaðarvörur sem hægt er framleiða hér á landi. Þetta er gríðarlegur stuðningur sem hinn almenni neytandi, almenni borgari, sýnir landbúnaðinum.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hvers vegna tekur hann þá áhættu að fella út úr gildandi samningi ákvæði sem lýtur að útflutningsskyldunni, sem hefur verið nýtt sem stýritæki til að tryggja innlenda sauðfjárframleiðslu gagnvart öryggi neytenda og framleiðenda? Gagnvirknin hefur skapað visst öryggi í þeirri umgjörð sem þessi búgrein hefur stuðst við og samningsaðilar bænda töldu að væri inni í samningnum. Þeir töldu að það væri ekki afnumið með frumvarpinu sem hérna er verið að kynna og þeir telja meira að segja að ekki hafi verið efnt það sem þeim hafði verið lofað í þeim efnum, þ.e. að áfram væri heimild til að grípa inn í útflutningsskylduna og hún yrði ekki afnumin úr lögum eins og hér er lagt til.