133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:22]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru miklir fjármunir í spilinu þar sem þessi sauðfjársamningur er. Þess vegna er svo ákaflega mikilvægt að hann nýtist bændum og íslenskum neytendum vel og skapi framþróun í greininni. Það er megináhersluatriði Samfylkingarinnar.

Það er sorglegt að horfa upp á hvernig búseta hefur dregist saman í sveitum því að hún er einmitt uppistaðan í samfellu byggðar og á henni byggist þjónusta og iðnaður í þéttbýlinu.

Stjórnvöld bera ábyrgð í þessu efni og því hefur hvorki verið leitað allra leiða til að efla atvinnulífið né styrkja undirstöður. Til dæmis tekur Ísland ekki þátt í byggðaþróunaráætlun Evrópusambandsins en Norðmenn t.d. hafa borgað sig inn í þá áætlun. Hún er ekki hluti af samningum EES við Evrópusambandið. Byggðaaðgerðir Norðmanna eru markvissar og margvíslegar.

Yfirlýst stefna Samfylkingarinnar er að við viljum styðja íslenskan landbúnað og búsetu í sveitum landsins. Jafnframt leggjum við þunga áherslu á lækkun matarverðs til íslenskra neytenda eins og málflutningur Samfylkingarinnar og barátta í fjölda ára færir sönnur á. Við höfum sagt, og formaður okkar margítrekað, að við teljum nauðsynlegt að styðja íslenskan landbúnað en jafnframt að matvælaverð lækki. Formaður okkar hefur jafnframt sagt að vel gæti verið að stuðningur við landbúnað þurfi að hækka tímabundið meðan breytingaferlið stendur yfir. Allar aðgerðir verði gerðar í samráði við bændur, hvort heldur er lækkun á tollum eða aðrar aðgerðir.

Það kom skýrt fram í tillögum okkar til lækkunar matarverðs í haust að við ætlum að framkvæma í samráði við bændur og ætlum að efla samkeppnis- og verðlagseftirlit. Hvorugt þessara atriði setti ríkisstjórnin á oddinn.

Varðandi stuðning við búsetu í dreifbýli og atvinnugreinar þar erum við ekkert öðruvísi en nágrannaþjóðir okkar og þjóðir Evrópusambandsins sem styðja búsetu í dreifbýli undir ýmsum formerkjum, m.a. með stuðningi við landbúnað ýmiss konar. Hér eru aðgerðir hins vegar mjög fábreyttar og gefa viðkomandi svæðum og einstaklingum ekki nægilegt olnbogarými til þróunar og búháttabreytinga auk þess sem undirstöðuþættir, svo sem samgöngur, hafa verið vanræktir gróflega sem kemur niður á þróun landsbyggðarinnar og stendur í vegi fyrir að hún eflist.

Varðandi búfjársamninga gagnrýnum við að verið er að binda hendur tveggja næstu ríkisstjórna og það tæpu ári áður en núverandi samningur rennur út. Það er sem sagt nægur tími fyrir næstu ríkisstjórn til að ganga frá samningi. Eðlilegt væri að drög lægju fyrir og að gengið yrði frá samningi að lokinni myndun næstu ríkisstjórnar. En það er hluti af aðferðafræði Framsóknarflokksins sérstaklega að koma fram með svona samninga á síðustu stundu og gefa í skyn að samningsgerð væri í hættu ef ekki verði lokið við málin á þeim örskamma tíma sem er til þingloka. Það á við nú og það átti við þegar mjólkursamningurinn var gerður.

Staðreynd málsins er hins vegar sú að það er enginn þingflokkur á Alþingi sem ekki hefur fullan skilning á mikilvægi þessara undirstöðugreina fyrir byggð landsins. Það hvarflar ekki að einum einasta þingmanni að setja íslenskan landbúnað í hættu. En það þjónar hagsmunum Framsóknarflokksins að hræða bændur og þá fjölmennu hópa sem vinna tengt landbúnaði með þessum hætti. (Landbrh.: Þetta er kjaftæði.) Það er illa gert en tilgangurinn helgar meðalið. Þannig telja þeir sig tryggja sér pólitískan stuðning. Þetta er sem sagt pólitískur hráskinnaleikur sem á ekkert skylt við málefnalega umfjöllun.

Þrátt fyrir mikla fjármuni sem í þessum samningi felast eru bændur kvíðafullir og telja samninginn gallaðan vegna niðurfellingar útflutningsskyldu. Það er merkilegt og umhugsunarefni þar sem vitað er að bændur fá mjög lágt verð í sinn hlut fyrir útflutt kjöt, svo lágt að það nægir stundum rétt fyrir breytilegum kostnaði við framleiðsluna. Það er að sjálfsögðu allsendis óviðunandi og þýðir að bændur leggja fram alla sína vinnu án þess að fá nokkuð fyrir sinn snúð.

Hver er þá skýringin á því að bændur vilja flytja út þessar afurðir? Jú, hún er sú að of mikið kjöt er framleitt fyrir íslenskan markað og stuðningur við bændur er framleiðslutengdur. Þeim er greitt fyrir að framleiða of mikið magn á íslenskan markað í stað þess að styðja búsetu í sveitum óháð framleiðslu. Það er hægt að gera samninga við bændur um annað en að framleiða kjöt eins og dæmin frá Evrópusambandinu sanna.

Bændur óttast að ef lambakjötið færi á innlendan markað mundi verð lækka. Það er vissulega ástæða til að halda það vegna þess að sláturleyfishafar hafa öll tök á að ráða verðinu til bænda. Sauðfjárbændur mundu bera skaðann eins og þeir gera alltaf. Þeir eru alltaf þeir sem fá það sem út af stendur þegar allir aðrir hafa hirt sitt.

Þetta er skiljanlegt og þekkt en þá hlýtur næsta spurning að vera hvort útflutningur kjöts sé eina ráðið, útflutningur sem auk þess kostar ríkissjóð umtalsverða fjármuni á ári hverju og hefur gert um árabil. Væri ekki nær að koma til móts við bændur með öðrum hætti, að halda t.d. stuðningi við þá en aflétta framleiðsluskyldunni, a.m.k. að hluta, og gera samninga um annars konar atvinnustarfsemi, samanber stefnumótun Evrópusambandsins í málefnum dreifbýlisins? Allt sem Evrópusambandið gerir megum við gera. Við getum sótt margar góðar fyrirmyndir þangað til hagsbóta fyrir bændur og landsbyggðina enda sé ég svo sem ýmislegt í þessum samningi núna sem er sótt beint til Evrópusambandsins, t.d. þegar talað er um að auðvelda nýliðun. Það kemur beint úr samningum við Evrópusambandið. Eitthvað fleira rakst ég á áðan sem ég man ekki rétt í bili.

Með þessu móti sem við sjáum núna eru bændur háðir ríkisvaldinu og þeir eru líka háðir sláturleyfishöfum. Það sem verst er (Gripið fram í.) er að þrátt fyrir allt sem þessi samningur felur í sér eru bændur mjög uggandi um sinn hag. Það held ég að sé ekki ætlun ríkisvaldsins og okkar sem fjöllum um þennan samning. Við viljum gjarnan styðja við búsetu í sveitum og við eflingu landsbyggðarinnar og er ekki vanþörf á eftir meðferð ríkisstjórnarinnar á landsbyggðinni undanfarin ár eins og tölur um búferlaflutninga sýna okkur fram á. En við viljum auðvitað gera það þannig að fólk geti um frjálst höfuð strokið og geti þróað atvinnuhætti í sveitum og þróað framleiðslu sína. Það er bara ekki nógu vel að því staðið í þessum samningi, því miður.

Markmiðin í þessum samningi eru í rauninni mjög góð hvert um sig. Það er hins vegar vandséð hvernig þau standast miðað við það sem ég hef verið að segja um að það er verið að framleiða of mikið kjöt fyrir íslenskan markað. Ég ætla t.d. að benda á annað: Hvernig stenst það að það eigi að örva markaðsvitund bænda og afurðastöðva á sama tíma og það á að efla sauðfjárræktina? Þýðir kannski það að efla sauðfjárræktina eitthvað annað en ég held? Ég legg þann skilning í eflingu sauðfjárrækt að það eigi að gera afurðina betri, söluvænlegri og allt það en nýliðunin meðtalin hlýtur að þýða að það eigi að efla bústofninn, fjölga sauðfé. Ég get ekki séð hvernig þetta fær staðist, því miður.

Sérstaklega tel ég ástæðu til að skilja þetta svona því að seinasti markmiðsliðurinn hljóðar upp á að stuðla að framþróun í sauðfjárrækt og það hlýtur þá fyrst og fremst að þýða að það eigi að bæta afurðirnar eða eitthvað í þá veruna. Það að efla greinina sem atvinnugrein hlýtur að þýða að það eigi að stækka bú eða eitthvað slíkt. Að bæta afkomu sauðfjárbænda, á því er vissulega mikil þörf en því miður er ég ekki viss um að þessi samningur tryggi það, heldur þvert á móti.

Samfylkingin vill auka stuðning við sauðfjárbændur og dreifbýlið en útfærslan á því hlýtur að vera í samvinnu við bændur, í samvinnu við þá sem búa úti á landsbyggðinni. Jafnvel þó að bændur hafi samþykkt þennan samning með miklum meiri hluta er mér tjáð að þeir hafi verið settir í þá stöðu á síðustu stundu að annaðhvort samþykktu þeir samninginn eða höfnuðu honum þrátt fyrir að þá hafi verið búið að gera á honum breytingar frá því sem hann hljómaði þegar hann var kynntur fyrir þeim á fundum um allt land. Það var atriðið varðandi útflutningsskylduna sem þeir töldu sig hafa tryggingu fyrir að yrði ekki afnumin.

Ég vil taka það fram af þessu tilefni að ég tel nauðsynlegt að fella niður útflutningsskyldu en ég tel hins vegar líka nauðsynlegt að tryggja bændum afkomu. Það er ekki gert í þessum samningi. Það þarf að fara í gegnum þá hluti með bændum hvernig hægt er að tryggja afkomu þeirra. Veita þeim meira frjálsræði til framþróunar og til eflingar mismunandi atvinnustarfsemi í sveitum. En útflutningsskyldan er vitlaus. Hún verður að fara af.

Ég ætla að rifja það upp til gamans að maður sem kom í heimsókn að tilstuðlan Bændasamtaka Íslands frá Nýja-Sjálandi í haust, að gefnu tilefni, tilefni sem ég gaf víst, kvað það vera arfavitlaust af Íslendingum að láta sér detta í hug að flytja út lambakjöt. Hann nefndi sem dæmi verðið sem Nýsjálendingar fá fyrir sitt kíló í útflutningi sem er eitthvað um 200 kr. Ég veit að íslenskt lambakjöt selst fyrir háar fjárhæðir í búðum í Ameríku en ég veit líka að bændurnir fá ekki nóg í sinn hlut fyrir það sem þarna er selt. Það eru allir aðrir sem hirða ágóðann af því sem þar er selt.

Hvað varðar afkomu bænda er markaðssetning á lambakjöti í búðum erlendis misheppnuð. Hún er hins vegar ágætislandkynning því að það er auðvitað verið er að selja afbragðsafurðir. En það hefur ekkert með afkomu bænda að gera nema að það er verið að grynnka á markaðnum hér heima og það hefur áhrif á það sem bændur fá í sinn hlut.

Mín skoðun er sú að við getum ekki tryggt lækkun matarverðs á Íslandi til neytenda nema með því að það komist jafnvægi á framleiðsluna og eftirspurnina hér heima. Það er reyndar það sem ein markmiðsgreinin hlýtur að hljóða upp á, þ.e. að örva markaðsvitund bænda. Það ætti a.m.k. að þýða það að þeir ættu að haga magni framleiðslunnar eitthvað í átt til þess sem markaðurinn sækist eftir, jafnframt því sem þeir þurfa auðvitað að þróa sína vöru eins og þeir hafa verið að gera með miklum ágætum undanfarin ár.

Þessi samningur er sem sagt að mínu mati með góðum markmiðum, með miklum fjármunum. Hann bindur næstu tvær ríkisstjórnir Íslendinga en hann tryggir eftir sem áður ekki afkomu bænda.