133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:41]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar líka að koma að öðrum athugasemdum hér varðandi markaðinn og söluna á lambakjöti. Ég held t.d. að aukning á sölu á búvörum hafi ekki síst verið að þakka því aukna vinnuafli sem er á landinu í dag. Hvað haldið þið að það sé notað mikið af lambakjöti bara hjá Bechtel á Reyðarfirði í allri þeirri uppbyggingu sem þar er eða á Kárahnjúkum? Það er ekkert lítið magn sem þar hefur farið í gegn af lambakjöti, smjöri og mjólk. Þar eru allir svangir allan sólarhringinn, borða mörgum sinnum á dag þannig að þetta hefur líka sett sitt mark á söluna á lambakjöti.

Ég hvet því hæstv. landbúnaðarráðherra til þess að koma til móts við bændur, því nú munu þeir verða fyrir því að kjöt mun lækka, það er alveg á hreinu. Með niðurfellingu tollanna sem er verið að gera núna mun verð á kjöti lækka. Það mun verða aukin samkeppni og því hvet ég landbúnaðarráðherra til að koma með frumvarp um að fella niður fóðurtollana, fella niður tolla á fóðri til að koma til móts við bændur til að lækka kostnað þeirra við landbúnað. Ég held að það verði líka … (Gripið fram í: Nákvæmlega.) ja, þetta þarf að vera. Það þarf að koma líka til móts við þá með aðföng.

Ég tel að við eigum að klára þennan samning en ekki láta bændur vera í óvissu um þetta. Það er ekkert verið að hræða þá en þeir vita hverjir það eru sem standa með þeim.