133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:47]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það hvort ég vilji samþykkja þennan samning eða ekki þá kemur það auðvitað í ljós. Þetta er 1. umr. og við eigum eftir að sjá hvernig málinu vindur fram. Ég fór hins vegar yfir það í ræðu minni áðan, eins og ég vænti að hv. þingmaður hafi heyrt og ég raunar ítrekaði áðan, að að öllu óbreyttu þætti ekki ástæða til að vera að samþykkja þennan samning svo löngu áður en hann gengur í gildi. Það kann að vera rétt hjá hv. þingmanni að það sé nauðsynlegt til að bændur haldi sálarró sinni af því að búið er að hræða þá svo mikið. Þeim hefur verið talin trú um að þeir njóti ekki stuðnings á Alþingi og þar hefur t.d. hæstv. landbúnaðarráðherra gengið fram í því að hræða þá á Samfylkingunni og (Gripið fram í.) ýmsir talsmenn bænda, því miður. Það er sorglegt.

Hv. þm. Kjartan Ólafsson spurði líka hvað ég teldi hæfilega mikið af lambakjöti fyrir íslenskan markað og ég held að hann hafi næstum því ætlast til að ég tæki það fram í kílóum og jafnvel grömmum. Það stendur í markmiðsgreinum samningsins að örva eigi markaðsvitund bænda og afurðastöðva. Ég tel það þýða að bændur og markaðsstöðvar eigi að koma sér saman um hvað sé hæfilegt magn á íslenskan markað, þ.e. hvað framleiða þurfi mikið fyrir íslenskan markað, hvað telja þeir sig geta selt mikið.