133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:48]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fékk ekki svar við þeirri spurningu sem ég spurði vegna þess að í fyrstu ræðu sinni sagði hv. þingmaður að of mikið kjöt væri á þessum markaði. Þá vil ég auðvitað eðli málsins samkvæmt spyrja, ekki í neinum grömmum heldur í tonnum talið: Hvað er of mikið? Segir ekki markaðslögmálið til um það hvar þessi markaður og framleiðsla eru í jafnvægi? Þannig er það bara með aðrar landbúnaðarvörur í landinu.

Þess vegna vil ég fá að vita hvernig hv. þingmaður ætlar að snúa sér í þessu máli og ég vil líka spyrja hv. þingmann um útflutningsskylduna, hvað hún á við í raun. Við heyrðum það hér í þingsal að hv. þingmaður vill skoða það í umfjöllun þingsins hvort ekki sé rétt að samþykkja samninginn. Það er bara af hinu góða að menn vilji horfa opnum augum á það starf sem við eigum að vinna á Alþingi og ég er ánægður með að heyra það. En ég vildi fá að heyra um útflutningsskylduna og um fullyrðinguna of mikið kjöt og hvernig á að koma því máli fyrir.