133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[14:50]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér sauðfjársamninginn. Ég ætla að byrja á því að fagna honum, það var mjög brýnt að gera þennan samning.

Sauðfjárræktin hefur grundvallarþýðingu í þeim landshlutum sem veikast standa. Þær sveitir Íslands þar sem byggðin er veikust byggja fyrst og fremst á sauðfjárrækt. Fari hún í upplausn og standist hún ekki blasir það við að mjög stór héruð, mjög stórar sveitir eiga engra annarra kosta völ en að fara í eyði. Það er í sauðfjárrækt sem ræturnar standa dýpst sem halda þessum byggðum sem er lífsnauðsynlegt fyrir okkur að gera.

Ég held að menn séu mjög oft að oftúlka það og segja miklum ofsögum af því hve miklum peningum Íslendingar verja til landbúnaðarins í heild. Það er rangt sem haldið er fram að við séum að setja í hann óskaplega mikla peninga. 3,2 milljarðar til sauðfjárræktar eru ekki stórir peningar. Þetta er okkar stærsta og langmesta byggðaaðgerð og við erum að verja þessum peningum mjög vel.

Ég veit um mjög marga góða menn sem trúa því að ef við minnkuðum framlög til landbúnaðarins mundi hagur ríkissjóðs batna. Ég er alveg viss um að það er öfugt. Ef íslenskur landbúnaður flosnar upp þá mun hagur ríkissjóðs versna vegna þess að hinn óhemjulegi kostnaður sem á okkur mun dynja vegna alls kyns félagslegra vandræða og upplausnar mun verða margfalt hærri en þeir peningar sem við verjum til landbúnaðar í dag.

Það er líka mjög rangt, virðulegur forseti, sem haldið er fram í síbylju að íslenskur landbúnaður standi þannig að hann sé hinn mikli myllusteinn um háls neytenda sem haldi uppi verði á matvöru. Íslensk landbúnaðarframleiðsla er samkvæmt tölum Hagstofunnar rúm 5% af útgjöldum heimilanna, rétt rúm 5%. Það er eitthvað svipað eða rúmlega það sem við flytjum inn og matvaran er því um 11%. Þetta hlutfall hefur lækkað mjög mikið á undanförnum árum og áratugum og er núna allt annað hlutfall en það var áður.

Ég vil líka fara í gegnum það og vekja athygli á því sem er kannski aðalatriði í þessum samningi sem er kostnaðurinn við útfluttar afurðir. Þegar verið er að reikna styrk til landbúnaðar á Íslandi er útflutningsskyldan svokallaða, sem er algjörlega án útgjalda af hálfu ríkisins — það var rangt sem var sagt áðan að hún hefði mikil útgjöld í för með sér fyrir ríkið, hún er reiknuð sem styrkur til landbúnaðarins — um 1.600–1.800 milljónir á ári. Ég vek athygli manna á þessari reiknisaðferð sem WTO notar og bendi mönnum á það til samanburðar: Hverjir eru það sem stjórna WTO? Það eru hinar ríku vestrænu þjóðir, Vestur-Evrópa og Norður-Ameríka.

Ef við tökum Bandaríkin þá eru þau með mjög mikið kerfi í gangi, svokallað Export Finance, sem er heill frumskógur af alls kyns styrkjum. Hvernig haldið þið að það sé reiknað hjá WTO? Núll, ekki eitt sent, ekki einn dollar, af því að það passar ekki Bandaríkjamönnum. Hvernig haldið þið að þetta sé hjá Evrópubandalaginu? Evrópubandalagið er með gríðarlegt kerfi þar sem menn kaupa upp afurðir í stórkostlegum stíl, hundruð þúsunda tonna af alls konar afurðum þegar verðið fer niður fyrir eitthvert ákveðið lágmark sem þeir telja, fara svo og rugla allan kjötmarkað, allan afurðamarkað heimsins, rugla alla verslun þriðja heimsins með niðurgreiðslum og gjafavöru. Hvernig haldið þið að það sé reiknað hjá WTO? Núll, ekki ein einasta evra, af því að það passar ekki Evrópumönnum. Svo þessir miklu styrkir og þessar miklu umræður um að menn séu að ná samkomulagi hjá WTO, það er rifrildi milli þessara tveggja stórvelda um það hvernig eigi að reikna þetta.

Við erum ákaflega feimin við þetta og ég hef grun um það, virðulegi forseti, að sú mikla áhersla sem menn leggja á það í þessum samningi að við hverfum frá útflutningsskyldunni sé meira og minna sprottin af því að íslenskum embættismönnum þyki heldur hvimleitt að þurfa að standa fyrir því niðri í Genf eða hvar sem það er að svona háar fjárhæðir séu reiknaðar inn í íslenskan landbúnað.

Það kann að vera rétt sem sumir halda fram að það hafi jákvæð áhrif á markaðsvitund bænda og á markaðssetningu afurðanna ef útflutningsskyldan er ekki virk. Það kann að vera rétt. En ég fullyrði að enginn maður í dag, árið 2007, geti fullyrt um það hvað gerist árið 2010, ekki einu sinni hæstv. landbúnaðarráðherra. Hann hefur ekki hugmynd um það, ekki frekar en nokkur annar dauðlegur maður getur séð svo langt fram í tímann. (Gripið fram í: Hann veit að hann verður ekki landbúnaðarráðherra þá.)

Þess vegna segi ég, með fullri virðingu fyrir viðleitni manna til að reyna að ná jafnvægi á kjötmarkaðnum, að ég skil ekki alveg af hverju samninganefnd ríkisins gat ekki komið og tekið undir þá beiðni og þær kröfur og þá ósk samninganefndar Bændasamtakanna að setja a.m.k. varnagla, öryggisventil í þennan samning, þann öryggisventil að ef svo stæði árin 2009 og 2010 að við sæjum fram á mjög mikið fall á kjötafurðunum þá væri a.m.k. heimild til handa ráðherranum, ef Bændasamtökin æsktu þess, til að grípa til þeirra neyðarráðstafana. Ég er alveg sannfærður um að það er hreinn glannaskapur, virðulegur forseti, að fara svoleiðis inn í framtíðina, hreinn glannaskapur.

Við skulum taka þær veiku sveitir sem ég var að benda á áðan, stórar sveitir sem eiga allt sitt undir sauðfjárræktinni. Hvað ætla stjórnvöld að gera ef svo illa fer, sem sumir markaðsfræðingar eru að spá þegar aukinn innflutningur er kominn, þegar útflutningsskyldan er farin, að kjötverðið geti kannski hrunið um 40, 50, 60%? Hvað ætla íslensk stjórnvöld að gera þá? Ég held, virðulegi forseti, að við getum ekki unnið svona, okkur beri a.m.k. að slá varnagla þannig að stjórnvöld eigi þá kost á því að grípa til aðgerða ef til þess kemur. Það vill nú svo til, virðulegur forseti, að ég sé ekki heldur framtíðina frekar en hæstv. landbúnaðarráðherra, við getum ekkert rifist um þetta, við vitum þetta hvorugur. Við skulum þess vegna ganga þannig frá þessum samningi. Ég ætla mér að flytja breytingartillögu um þetta, eða biðja hv. landbúnaðarnefnd að gera það, í þá veru að setja þarna inn þennan varnagla. Það reynir þá á það í framtíðinni. Kannski er engin þörf á því en þá er heldur enginn skaði, ekki nokkur skaði og enginn getur kvartað yfir því.

Í umræðunni um sauðfjárræktina og landbúnaðinn er ákaflega nauðsynlegt að menn geri sér ljósa grein fyrir því að þetta er hluti af því við ætlum að byggja Ísland. Við höfum heyrt hér dálítið skrýtnar ræður og það þarf djúpsálarpælingar til að átta sig á viðhorfum sumra þegar er verið að ræða um hvernig þeir vilja styrkja þennan landbúnað. Haldin var ræða áðan þar sem sagt var að þetta væru miklir peningar en þó ekki nægjanlegir. Þegar ég var búinn að hlusta í nokkrar mínútur og skildi ekki neitt kom lausnarorðið, lausnarorðið frá Brussel, gamla lausnarorðið að grípa til þeirra góðu ráða að hafa ekki styrkina til bænda framleiðslutengda. Skyldi það nú ekki hafa heyrst úr þessum ræðustóli einhvern tíma áður, virðulegi forseti, að hafa ekki styrkina til bænda framleiðslutengda?

Það er nefnilega þannig, virðulegi forseti, að þetta þjóðráð frá Brussel, að hafa ekki styrki til landbúnaðarins framleiðslutengda, hefur sýnt sig í framkvæmd að gengur ekki upp. Það er alveg pottþétt að hafi menn ekki styrkina til landbúnaðarins framleiðslutengda þá gerist það að landbúnaðurinn deyr, hann deyr á öllum stöðum. Ef menn eiga ekki að gera annað en að halda til haga einhverjum geldum horrollum má treysta því að landbúnaðurinn deyr. Þetta hafa þeir í Brussel margsannað með gerðum sínum og þetta er pottþétt aðferð.

Okkur sem búum á landsbyggðinni, alla vega mér og ég held öllum sem ég þekki, er ákaflega erfitt að skilja hvernig það má vera að það sé til styrktar því mannlífi sem þar er og til framdráttar að þar sé til fólk sem fær borgað fyrir ég veit ekki hvað, fyrir að góna upp í tunglið eða að horfa á naflann á sér eða hvaðeina, því sé borgað fyrir að vera staðsett á þessum steini en ekki öðrum. (Gripið fram í.) Hvaða styrkur er það til íslenskrar byggðar? Það er enginn styrkur, það er bara ávísun á að menn ætla að leggja þær niður. Þess vegna er það grundvallaratriði, virðulegi forseti, og ég hef alltaf haldið því fram í allri umræðu um þetta mál að því meira sem styrkir ríkisins færu beint til bænda og þeim mun minna sem þeir færu í annað því líklegra væri að það bæri árangur. Þetta er grundvallaratriði sem við verðum að skilja. Það er rangt sem kom fram áðan, virðulegi forseti, hjá síðasta ræðumanni að slíkir framleiðslustyrkir séu bannaðir. Það bannar enginn slíka styrki, hins vegar hefur WTO verið að reyna að leggja á það áherslu að þeir muni hverfa út og það hefur margsinnis komið fram í samningaumræðum þeirra að æskilegt væri að menn semdu um að slíkt hyrfi.

Evrópubandalagið, af sumum hér er talin mikil blessun ef eitthvað er Evrópubandalagslegt, hefur ekki tekið þetta út úr sínu kerfi. Þar eru styrkir leyfilegir, beintengdir styrkir og með sérstakri áherslu á, t.d. ef ég tek samning Evrópubandalagsins við Svíþjóð og Finnland þar var tekið fram að heimilt væri að hafa sérstaka styrki til norðurslóðarinnar. Svíum og Finnum var sérstaklega leyft að styrkja beint framleiðslu á norðurslóðinni. Og hvað er norðurslóðin hjá Finnum og Svíum? Jú, í þeim samningi var miðað við 62. breiddargráðu. Við munum vonandi öll að við erum á 65. hérna þannig að það fari ekki á milli mála.

Þess vegna verða menn að muna það og gera sér grein fyrir því í umræðu um landbúnaðinn að við erum á norðurslóðinni og munum alltaf vera það. Allir styrkir til landbúnaðar hér eru eðlilegir og sjálfsagðir svo lengi sem við erum í hópi ríkustu þjóða heimsins, svo lengi sem við erum í þeim hópi. Við erum það og erum farsællega búin að tryggja okkur þar stöðu. Þó að við notum þessa dularfullu reikninga frá WTO um það hvernig landbúnaður er styrktur, ég veit ekki hvort menn nenna að hlusta á mig skýra það út en það er sett inn í ímyndað kerfi á frjálsum markaði þar sem reynt er að reikna út hver sé hlutinn af launum bænda sem kemur frá markaðnum og hvað kemur annars staðar frá. Þannig er reynt að setja þetta upp og er ekki vitlausari aðferðafræði en hver önnur, þó að viðmiðin séu náttúrlega oft og tíðum hrapalleg, samanber þegar verið er að segja frá því hvað nýmjólkin mundi kosta á Íslandi ef við legðum niður allt kerfið og færum að flytja inn mjólk.

Hvaða mjólk skyldi það vera sem þá er verið að miða við? Jú, það er sú nýmjólk sem við köllum það þegar við hrærum saman undanrennuduft og smjör. Það er viðmiðunin þannig að við sjáum nú hver sanngirnin er í þessu. (Gripið fram í: Er þetta gott?) Já, það er ábyggilega gott í kjaftinn á sumum og nægilega gott þó að ég efist um að ungbörnin vilji það eða aðrir smekkvísir Íslendingar. Við skulum gá að þessu í öllum samanburði. Við erum að vísu talin há í þessum styrkjum, við erum talin álíka og Sviss, Noregur og Japan. Er það ekki í lagi, er það ekki til sóma? Jú, það er til sóma. Við skulum halda áfram að vera til sóma.

Það er líka rangt sem hér hefur komið fram þegar menn segja að slíkir samningar séu óeðlilegir miðað við fjárreiðulög. Það er ekkert óeðlilegt miðað við fjárreiðulög að ríkið á hverjum tíma geri samninga fram í tímann með samþykki Alþingis. Það er bara eðlilegt og gengið út frá því í öllum slíkum tilfellum, enda erum við að gera mikinn fjölda slíkra samninga sem eiga við um mjög marga þætti alls ríkisrekstrarins

Hins vegar geta menn svo breytt samningum ef þeir vilja. Það er mjög nauðsynlegt og grundvallaratriði fyrir landbúnaðinn líka og fyrir hvaða atvinnugrein sem er að hún sjái fram í tímann, viti hvað bíður hennar, hún geti treyst því hvað er á næstu árum. Þess vegna er ekki óeðlilegt að þessi samningur sé gerður núna, undirritaður núna og staðfestur af þinginu núna, sem ég vona að verði ágreiningslítið vegna þess að þannig tala allir hér að stuðningur við íslenska framleiðslu sé þeirra hjartans mál og við skulum vona að það sé rétt og það sé ekkert ofmælt í því. Ég treysti því líka að sú skoðanakönnun sem hér var sagt frá fyrir nokkrum dögum um stuðning almennings við íslenskan landbúnað sé rétt og ég vil treysta því og trúa að Íslendingar séu þannig meðvitaðir um þann grundvöll sem við leggjum byggðinni með því að stunda landbúnað hér á landi og ekki móttækilegir fyrir ótrúlegum áróðri og ótrúlegu níði sem íslenskur landbúnaður hefur mátt þola árum og missirum saman.