133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:10]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Breytingaótti hv. þingmanns er með nokkrum ólíkindum, kannski tengist það eitthvað komandi kosningum og útkomu Sjálfstæðisflokksins í þeim. En það er engin ástæða til að óttast umræður um þróun og breytingar á stuðningskerfinu, það er alveg á hreinu. Hæstv. landbúnaðarráðherra talaði um það áðan að hann vildi ekki verða eins og einhver frystihússtjóri yfir einni atvinnugrein. Það væri nú verra ef hann stæði svo uppi sem einhvers konar útfararstjóri yfir einni atvinnugrein af því að það var ekki nægjanlega vel að málum staðið og einhver glappaskot gerð eins og það að afnema útflutningsskylduna algjörlega án þess að slá þann varnagla sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson nefnir hér. Þess vegna hlýtur hæstv. ráðherra og hv. landbúnaðarnefnd að skoða það sérstaklega hvort glannaskapur hæstv. landbúnaðarráðherra keyri hér úr algjöru hófi fram og tefli jafnvel að einhverju leyti afkomu greinarinnar og sauðfjárbændanna, sem mega nú ekki við miklum tekjumissi, í voða. Að því hefur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson fært ágætisrök og hæstv. ráðherra, jafnskapillur og hann nú er hér á bekkjunum hlýtur að taka það til greina.