133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:11]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að það komi þá til þess að menn taki efnislega afstöðu til breytingartillögunnar sem ég hef boðað og kannski menn greiði þá atkvæði fram og til baka, þverpólitískt. Ég á von á að menn geri sér grein fyrir því að hér er um öryggismál að ræða fyrir framtíðina og ég vonast til þess að tillagan fái sem víðtækastan stuðning.

Ég vil líka taka það fram að ég hef — og vil minna hv. þingmann á það — staðið fyrir þingsályktunartillögu um breytingar á stuðningi við landbúnaðinn, við sauðfjárræktina. Sérstaklega minnist ég þess að hafa staðið fyrir því að fá hér samþykkta tillögu um að styrkja sauðfjárræktina á jaðarbyggðunum, sem er mjög þýðingarmikið, að þora að standa með í jaðrinum, standa með honum í tíma, treysta hann áður en komið er í óefni.