133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:16]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður sé að snúa út úr viljandi. Alþingi er á hverjum tíma að gera samninga. Eðli málsins samkvæmt geta þeir verið mismunandi. Eðli málsins samkvæmt þurfa þeir að vera til lengri tíma. Það er mjög skiljanlegt ef menn t.d. semja við eina atvinnugrein eins og þessa, að auðvitað þarf landbúnaðurinn að geta séð fram í tímann einhver ár og það er svo með fjöldamargt annað. Það er alls ekki verið að segja annað en það sé hið siðlega að við stöndum við gerða samninga. Ég held að enginn þingmaður í neinum flokki mundi nokkurn tíma hafa aðra afstöðu en að það væri siðlegt að standa við það. Það má hins vegar halda því fram að löggjafinn hafi vald til þess. Ég held að menn megi samt treysta því, nákvæmlega sama hvaða flokkur er, þeir menn munu ekki rifta slíku, því geta menn treyst. En þarna er um ákaflega litla fjármuni að ræða.