133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:19]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér er alveg ómögulegt að koma heim og saman hinum ýmsu skoðunum hv. þingmanns. Ef honum er svona umhugað um sauðfjárræktina ráðlegg ég honum að taka upp baráttuna með mér fyrir inngöngu í Evrópusambandið því fram hefur komið í skýrslunni Landbúnaður á norðurslóð, sem er ekki mjög gömul og hv. þingmaður hefur lesið, að sauðfjárrækt mun að öllum líkindum reiða betur af og afkoma hennar betur tryggð innan Evrópusambandsins en utan.

Í annan stað geysist hv. þingmaður gegn óframleiðslutengdum styrkjum. Mætti nú ekki ætla að ef innflutningur ykist og verðið lækkaði, eins og hv. þingmaður gerði skóna að, þá mætti ætla að óframleiðslutengdir styrkir mundu gagnast þeim betur?

Svo langar mig til að spyrja hv. þingmann: Hefur hann ekki greitt atkvæði mörgum sinnum með því að styrkir til sauðfjárbænda séu einmitt óframleiðslutengdir að hluta?