133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:23]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, þ.e. sauðfjársamningur, samningur milli ríkisins og sauðfjárbænda um umgjörð sauðfjárræktarinnar næstu árin.

Markmið samningsins eru, með leyfi forseta:

„a. að efla sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu sauðfjárbænda,

b. að stuðla að nýliðun í hópi sauðfjárbænda og styrkja búsetu í dreifbýli,

c. að sauðfjárrækt sé stunduð í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og sjálfbæra landnýtingu,

d. að örva markaðsvitund bænda og afurðastöðva og halda jafnvægi milli framleiðslu og eftirspurnar,

e. að stuðla að framþróun í sauðfjárrækt.“

Markmiðin eru öll góðra gjalda verð og verið er að setja samninginn um þau. Ég held að rétt sé og skylt að við áréttum viðhorf íslensku þjóðarinnar til landbúnaðar af því að því hefur oft verið blandað inn í umræðuna um landbúnaðinn að hann geti að einhverju leyti verið óþarfur, að hægt væri að leysa matarþörf fólks, íbúanna, með því að flytja inn mat og jafnvel væri hægt að bjóða hann á lægra verði. Þetta má allt saman vera mögulegt, en það er nú svo að þjóðin hefur á þessu skoðun og heldur sterka, um að íslenskur landbúnaður sé í raun ein af kjölfestum íslensks samfélags, búsetu, menningarlífs og hvað varðar fæðu, mat og hollustu. Það að borða góðan mat er, eins og hæstv. landbúnaðarráðherra hefur oft sagt, líka munaður. Þegar við viljum gera okkur glaðan dag og eiga góða stund er það gjarnan gert með því að borða góðan mat. Ég býst við að í tilfellunum hér á landi viljum við oftar að maturinn sé íslensk framleiðsla. Landbúnaðurinn og matvælaframleiðslan er því óaðskiljanlegur hluti íslensks samfélags, íslenskrar þjóðarvitundar, eins og kemur svo rækilega fram í þeirri skoðanakönnun sem ég vitnaði til í upphafi máls míns þar sem gerð hafði verið skoðanakönnun um viðhorf þjóðarinnar til íslensks landbúnaðar sem kynnt var á búnaðarþingi nýverið.

Ég vil vekja athygli á þeim spurningum sem lagðar voru fram. Í fyrsta lagi: Telur þú gæði íslenskra landbúnaðarvara vera meiri, minni eða þau sömu og gæði innfluttra landbúnaðarvara? Nærri því 98% af svarendum segjast telja innlendar landbúnaðarvörur vera meiri að gæðum en innfluttar. Þetta er tilfinning þeirra og tilfinning og vitund skipta gríðarlegu máli í þessu sambandi.

Eins var spurt: Hversu miklu eða litlu máli finnst þér skipta að landbúnaður verði stundaður hér á landi til framtíðar? Mörgum okkar finnst furðulegt að spyrja þurfi að þessu af því að það sé svo sjálfsagt að hér verði stundaður öflugur landbúnaður til framtíðar. Þessari spurningu er svarað þannig að 94% svarenda styðja afdráttarlaust að hér sé stundaður öflugur landbúnaður til framtíðar.

Þegar spurt er: Hversu miklu eða litlu máli finnst þér skipta að Íslendingar séu ekki háðir öðrum um landbúnaðarafurðir? Þá er náttúrlega verið að horfa til þeirra vara sem við flokkum undir þeim merkjum, þ.e. kjöt- og mjólkurvörur og þær vörur sem eru framleiddar hér. Um 80% þjóðarinnar telja mikilvægt að við séum sjálfbjarga og sjálfum okkur næg hvað þetta varðar. Þetta undirstrikar því hversu ríkan og sterkan sess landbúnaðarframleiðslan hefur í þjóðarvitundinni, nokkuð sem ber að fagna en kallar líka á ábyrgð af hálfu stjórnvalda að um þá vitund standi menn vörð.

Þá kem ég að því, frú forseti, hvernig sauðfjársamningurinn er einmitt liður í því og hvar veiku hliðar hans eru. Ég las í upphafi þau markmið sem sett eru með samningnum þar sem rakin eru markmið sauðfjárræktar sem atvinnugreinar, afkoma sauðfjárbænda, nýliðun, umhverfisvernd, landkostir og sjálfbær landnýting og þar með sjálfbær búskapur. Þessi atriði eru held ég öll mjög mikilvæg og full sátt er um þau en mér finnst að í samninginn vanti afstöðu til neytenda. Þegar ríkið gerir svona tvíhliða samning við sauðfjárbændur um framleiðslu undir ákveðnum skilyrðum erum við líka og ekki hvað síst að gæta að hagsmunum neytenda og hinn almenni neytandi, ég og þú, er sá sem við erum líka að semja fyrir. Þess vegna tel ég að í samninginn hefðu átt að koma skýrari markmið eða þau markmið undirstrikuð sem eru með landbúnaðarframleiðslu hér á landi, þ.e. framleiðsla á hollum og góðum landbúnaðarvörum og að geta tryggt þær með sem mestum gæðum gagnvart neytandanum. Það er það sem okkur ber skylda til að tryggja, ekki bara til eins árs heldur til næstu ára. Samningurinn á einmitt að vera liður í því að undirstrika hagsmuni neytandans, hins almenna Íslendings, hins almenna borgara sem neytir íslensks matar, að hann eigi möguleika á að fá holla og góða matvöru. Mér finnst að þetta ætti að vera þungamiðjan í slíkum samningi sem verið er að gera milli ríkisins og sauðfjárbænda.

Um önnur þau atriði sem samningurinn tekur á þá hefur komið fram og verið rakið hér að hann er að stórum hluta framleiðslutengdur. Þó eru nýmæli í samningnum sem ég hefði viljað að hefðu fengið stærri sess, þ.e. lagt er til að veitt verði fjármagn til nýliðunar- og átaksverkefna, en ég held að ein mesta ógn sem steðjar að íslenskum landbúnaði og íslensku samfélagi hvað landbúnaðarframleiðslu varðar, sé hve torveld nýliðunin er með hækkandi verði á jörðum, með því að framleiðslurétturinn gengur kaupum og sölum og er verðlagður býsna hátt þannig að þeir sem vilja koma nýir í greinina þurfa að fjárfesta bæði í jörð, mannvirkjum og framleiðslurétti, og það er ekkert grín, það er ekkert spaug. Þess vegna er takmörkun á nýliðun ein mesta ógn við íslenskan landbúnað og íslenskt samfélag sem vill hafa öflugan landbúnað, eins og niðurstöður skoðanakönnunarinnar sem ég vitnaði í gefa til kynna. Ég hefði viljað að þetta hefði einmitt verið dregið enn sterkar í samninginn því við erum að gera samning um að tryggja atvinnugreinina ekki bara til fimm eða sjö ára eða hvað menn eru að gera hér samning um, heldur til lengri tíma.

Eins og réttilega var komið inn á í umræðum fyrr í dag er framleiðslustigið í landbúnaðinum, sauðfjárræktin, ekkert sem tekin er ákvörðun um í einu vetfangi. Þetta er langt ferli. Í sauðfjárræktinni tekur það nokkur ár frá því að kind hefur verið keypt, lamb fæðist og síðan áfram. Umgjörðin þarf því að vera nokkuð örugg til fleiri ára. Við viljum búa íslenskri sauðfjárrækt mjög góð ytri skilyrði. Einn helsti vandi hennar í dag er, eins og ég sagði áðan, hve erfitt er að komast í greinina. Ég tel og er enn þeirrar skoðunar að það hafi verið óheillaverk að leggja Lánasjóð landbúnaðarins niður. Lánasjóðurinn hafði það hlutverk að veita stuðning til nýrra bænda sem voru að koma í greinina, kaupa jarðir, bústofn o.s.frv. Hægt hefði verið að breyta Lánasjóði landbúnaðarins í sjóð til stuðnings nýliðun í sveitum og til tengdra átaksverkefna. Þó að hér sé lagt til að veita 80 millj. kr. á ári hvað þetta varðar finnst mér að það hefði mátt vera meira. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram tillögu á Alþingi sem miðar að því að treysta byggð í sveitum, gera nýliðun auðveldari, gera nýjum bændum auðveldara að koma í greinina og ég harma það að núverandi landbúnaðarráðherra hafi ekki haft þá framtíðarsýn fyrir íslenskan landbúnað sem skyldi.

Víkjum aðeins að sauðfjársamningnum. Eitt atriði á undanförnum árum var mikilvægur þáttur í að skapa öryggi í kringum sauðfjárframleiðsluna, taka af markaðssveiflur, árssveiflur sem geta orðið hvað framleiðsluna varðar, og það var útflutningsskyldan. Ráðherra gat því haft frumkvæði að slíkri félagslegri aðgerð sem hún var, að skylda alla bændur til að taka þátt í útflutningi upp að vissu marki til að jafna þá sveiflu bæði fyrir greinina og gagnvart neytendum. Nú er lagt til að hún verði afnumin, bara svona í einu vetfangi, (Landbrh.: Í áföngum.) á einu ári, frú forseti, ef hæstv. ráðherra hefur ekki lesið samninginn betur, þá er gert ráð fyrir að útflutningsskyldan og ábyrgð hvað það varðar falli niður eftir eitt og hálft ár sem er innan framleiðsluferlis sauðfjárræktarinnar núna. (Gripið fram í.) Við setjum lambið á í haust, virðulegi forseti, og ákvörðunin er þá komin í framleiðsluferlið næst þegar slátrað verður því sem nú er sett á. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra þarf ekki að kenna mér mikið um sauðfjárrækt þó að hann sé ágætur í henni líka. (Gripið fram í: Hann er það ekkert.) Frú forseti. Það er gripið fram í og sagt að ráðherra sé ekki góður í sauðfjárrækt. Ég vil samt láta hann njóta vafans í þeim efnum.

Útflutningsskyldan var mjög mikilvæg. Hægt er að deila um hvort hún hefði verið æskileg en hún var samt staðreynd og nauðsynlegur þáttur í þeirri umgjörð sem gerð var. Ég tel að það sé áhættuspil að vera að afnema hana með þeim hætti sem hér er lagt til. Það sem er enn þá alvarlegra er að hún virðist vera afnumin án þess að bændur og samningamenn þeirra hafi samþykkt það og á vissan hátt er komið aftan að þeim í þeim efnum. Ég vil, með leyfi forseta, lesa upp erindi sem okkur í landbúnaðarnefnd barst frá meiri hluta samninganefndar bænda:

„Til landbúnaðarnefndar Alþingis, Drífa Hjartardóttir.

Við undirrituð sem störfuðum í samninganefnd bænda um nýgerðan sauðfjársamning gerum eftirfarandi athugasemdir við frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Við mótmælum harðlega þeirri breytingu sem kemur fram í 23. gr. frumvarpsins, en þar segir: „Frá og með 1. júní 2009 fellur útflutningsskylda kindakjöts skv. 29. gr. laga nr. 99/1993 brott.““

Áfram segir í bréfinu frá samninganefndinni, með leyfi forseta:

„Eftir að samninganefnd bænda hafði fallist á að útflutningsskylda kindakjöts skyldi falla niður frá og með 1. júní 2009 var alltaf samkomulag um að lagabreyting sem staðfesti þetta yrði lögð fram á haustþingi 2008 en ekki nú. Framan af var þetta ákvæði inni í samningstextanum en var fellt niður í lokin eftir að lögfræðingur landbúnaðarráðuneytisins taldi það betra og mundi engu breyta þar sem fullt samkomulag væri um að þetta kæmi ekki fram fyrr en 2008. Nú bregður svo við að þetta er sett inn í lagatextann.“ — Segir í bréfi fulltrúa samninganefndar bænda.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Í öllu kynningarferlinu var bændum greint frá þessu. Á þessum fundum voru annars vegar fulltrúar bænda og hins vegar stundum landbúnaðarráðherra eða aðstoðarmaður hans og tóku undir þetta sjónarmið eða mótmæltu ekki.“

Í lok bréfsins segja fulltrúar í samninganefnd bænda, með leyfi forseta:

„Við undirrituð mótmælum þessu harðlega og skorum á landbúnaðarnefnd Alþingis að sjá til þess að við áðurnefnt fyrirheit verði staðið.“

Undir þetta rita Gunnar Sæmundsson, Jóhanna Pálmadóttir og Fanney Ólöf Lárusdóttir, sem voru í samninganefndinni.

Ég tel þetta mjög alvarlegt. Rætt hefur verið um að þetta hafi komið frá embættismönnum. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson vildi kenna því um að embættismenn hefðu komið breytingunum inn með einhverjum hætti eða að embættismenn væru að ganga erinda einhverrar alþjóðaviðskiptastofnunar og vildu koma ákvæðunum inn með þessum hætti. Ég tek slíkt ekki gilt. Embættismenn hlýða einungis fyrirmælum ráðherra, hinna stjórnskipuðu yfirmanna sinna, og það er ráðherra sem ber ábyrgð á því ef samningnum hefði verið breytt eða þeim vilyrðum sem gefin voru í tengslum við hann.

Talað hefur verið um Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) og að það þurfi að aðlaga sig henni. Ég er sammála hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni þegar hann sagði að í WTO væru hin auðugu ríki sem eru að reyna að gera samning um að skipta á milli sín markaðssvæðum heimsins. Ekki er þar alltaf verið að bera hag einstaklinga, fátækra þjóða eða hagsmuna almennings í hinum ýmsu löndum fyrir brjósti. Enginn veit heldur hvert WTO-viðræðurnar leiða. Við vitum að þær hafa stjórnast mjög á undanförnum árum af áhrifum Bush-ríkisstjórnarinnar í Bandaríkjunum sem hefur barist fyrir rétti auðhringa um allan heim, hvort sem það eru olíulindir í Írak eða aðgengi að hinum ýmsu mörkuðum. Bandaríkjamenn eru þekktir fyrir að styrkja og vernda landbúnað sinn jafnvel umfram önnur lönd. Hvað gerist í WTO-viðræðunum veit enginn. Sjálfsagt er síðan að taka mið af skynsamlegri umræðu sem þar getur verið á ferðinni en það er fjarri því að hún eigi að leiða eitthvað sem við vitum ekki hvað verður. Þess vegna ber okkur fyrst og fremst að standa vörð um náttúruna, hagsmuni íslensks landbúnaðar, hagsmuni almennings, hagsmuni bænda og þeirra sem þann atvinnuveg stunda, iðnaðinn sem honum tengist og framleiða hér holla og góða vöru samkvæmt lögmálum og á grundvelli sjálfbærrar þróunar. Það er framlag okkur bæði til þess samfélags sem við búum í og líka til samfélags heimsins.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvers vegna var ákvæðunum breytt í samningnum eða þeim vilyrðum sem gefin voru og (Forseti hringir.) fulltrúar í samninganefnd hafa gert athugasemdir við?