133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:46]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek alveg undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni um að hagsmunir neytenda eiga hér m.a. að vera í fyrirrúmi, ekki bara skammtímahagsmunir heldur líka langtímahagsmunir. Við viljum að neytendur hafi aðgang að hollum og góðum landbúnaðarvörum og þá er okkur mikilvægt að búa þessari grein þá umgjörð að svo verði.

Sauðfjárræktin á nokkuð langan framleiðsluferil, nokkur ár frá því að menn fjárfesta í greininni og þangað til hún skilar afurðum á borð neytenda. Þær sveiflur sem eru í dag og við þurfum að bregðast við geta leitt til vöruskorts eftir þrjú eða fimm ár. Það eru þessar sveiflur sem við þurfum að reyna að komast hjá. Við viljum standa vörð um þessa framleiðslu. Við viljum standa vörð um það að við séum sjálfum okkur nóg um landbúnaðarframleiðsluna eins og þessi skoðanakönnun sem ég vitnaði til sýnir. Það sem bændur hafa lagt til í þessu er að áfram verði heimild fyrir ráðherra til að beita þessu stýritæki sem nauðsynlegt er til að tryggja hvoru tveggja hagsmunina, tryggja hagsmuni neytenda um öryggi í framboði vörunnar til langs tíma og einnig öryggi framleiðendanna um að taka að sér sameiginlega sveiflur sem geta orðið í framleiðslu- og markaðsmálum. Menn mega velta fyrir sér þessu stýritæki en við erum með samningunum í heild sinni að búa nú til umgjörð í formi samnings milli ríkisins og atvinnugreinarinnar. Þá er einmitt þetta matvælaöryggi gagnvart neytendum einn mikilvægasti þátturinn í því sem (Forseti hringir.) mér finnst að eigi að horfa til.