133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[15:50]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Verð til bænda hefur ekki stýrt svo mjög verðlagi á landbúnaðarvörum út úr búð til neytenda. Mér sýnist frekar að aðgerðir ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum í því að innleiða svokallaða samkeppni í matvöruverslun hafi leitt til allt annars, fákeppni og alveg við það að vera einokun í matvöruverslun. Ég held að það sé miklu stærra mál í verðmyndun á vörunni til neytenda.

Það sem hér er verið að tala um er að verið er að skapa traustari umgjörð um framboð og framleiðslu á þessari vöru til íslenskra neytenda. Skoðanakönnunin sem ég las upp áðan og vitnaði til sýnir að neytendur vilja það. Þeir vilja hafa öryggi í því að þessi vara sé á boðstólum og standa líka vörð um öryggi íslensks landbúnaðar. Það er ekki hægt að fórna öðru og taka bara hitt. Við verðum að horfa á þetta í heild sinni. Það er verið að rýmka heimildir á innflutningi á landbúnaðarvörum. Við eigum eftir að sjá til hvers það leiðir en þjóðarviljinn er afdráttarlaus um að við skulum vera sjálfum okkur nóg með þær landbúnaðarvörur sem við getum framleitt hér. Það er afdráttarlaus þjóðarvilji um að staðinn sé vörður um þau gæði landbúnaðarframleiðslunnar sem við höfum og þá ber okkur líka að taka tillit til þess í þeirri umgjörð sem sett er um þessa búgrein. Ég tel allt of bratt farið, enda hafa bændur sagt það. Bændur sem hafa tekið á sig miklar skuldbindingar og ábyrgðir í því að halda niðri vöruverði (Forseti hringir.) vilja fá þetta inn í lögin, frú forseti.