133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[16:03]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Samningurinn um starfsskilyrði sauðfjárræktar er athyglisverður fyrir margra hluta sakir. Menn geta svo sem velt fyrir sér gildi hans, hann á í raun og veru að gilda næstu sjö árin og er athyglisvert að ríkisstjórnin skuli ganga frá þeim samningi núna. Það bendir til þess að það sé eins með ríkisstjórnina eins og suma sem vilja hafa áhrif á framvindu mála eftir að þeir eru liðnir lífs af dögum. En það er auðvitað í sjálfu sér kannski bara til marks um það hvernig mönnum líður á þeim bænum þessa dagana.

Það er hins vegar þannig að þegar hið opinbera hefur gert slíkan samning sem þennan og það á við þótt um sé að ræða ríkisstjórn sem ég styð ekki, þá eru í honum fólgin loforð til viðkomandi aðila sem stjórnvöld í landinu hljóta að taka tillit til í framtíðinni. Þess vegna lít ég þannig á hvort sem þessi samningur hlýtur samþykki Alþingis eða ekki á þessu þingi — sem enginn veit vegna þess að ýmislegt vill fara forgörðum á lokadögum Alþingis, að maður tali ekki um þegar kosningar eru á næstu grösum — þá tel ég að í samningnum sé ýmislegt ágætt. Sumt er að vísu jafnvont og það hefur verið lengi en það sem erfiðast er að sætta sig við er það sem er ekki í þessum samningi. Þar á ég við einhverja stefnumörkun til framtíðar um það með hvaða hætti menn ætli að standa að því að styðja landbúnað í landinu. Ég hef sagt það áður að það er mín skoðun að stuðningskerfi landbúnaðarins og þá er ég að tala um mjólkurframleiðsluna og sauðfjárræktina líka, að bæði þau kerfi séu úr sér gengin og ónýt og það þarf ekki langan tíma til að rökstyðja það.

Það er þannig í mjólkurframleiðslunni að nú þegar eru bændur farnir að framleiða mjólk fyrir utan greiðslumark og nýir bændur eru jafnvel að ákveða að fara í að byggja upp ný mjólkurbú án þess að kaupa kvóta, og hvers vegna? Vegna þess að markaðsverð á kvóta er svo hátt að það er farið að reikna það út sem stuðning frá ríkinu og menn finna bara út hvað það kostar og menn geta selt mjólkina sína án þess að hafa kvótann og þá hljóta allir menn að sjá að þegar farið er að versla með stuðning ríkisins á þennan hátt og þegar verðið á honum er komið upp í þær hæðir sem ég er hér að lýsa, þá er þetta stuðningskerfi komið að fótum fram.

Þetta er eins í sauðfjárræktinni. Þar er farið að framleiða töluvert magn fyrir utan greiðslumarkið og það er orðið þannig að nú um stundir styrkir ríkið suma bændur allt að þrefalt hærra miðað við framleitt kíló en þá sem mest framleiða fram yfir greiðslumark. Slíkt fyrirkomulag getur alls ekki gengið til framtíðar og þess vegna hefðu þurft að vera skref inn í einhvers konar nýja framtíð í þessum samningi. Síðan hljóta hagsmunir neytenda að koma til umræðu þegar verið er að ræða um þennan samning og ég get ekki annað en verið pínulítið hneykslaður á því að menn skuli vera uppi með mótmæli og lýsandi yfir því að þeir ætli að flytja breytingartillögu við eina ákvæðið sem er kannski hægt að segja að sé svolítið skref í átt til þess að ganga til móts við neytendur, þ.e. að afnema útflutningsskylduna. Því afnám útflutningsskyldunnar er í raun og veru viðurkenning á því að slíkt inngrip í eina atvinnugrein geti ekki gengið.

Hvernig virkar síðan útflutningsskyldan? Hún virkar þannig að atvinnurekendur í búfjárrækt á Íslandi eru hver og einn skyldaðir til að flytja út tiltekið magn. Jafnvel þó að þeir geti selt sjálfir alla sína framleiðslu á innanlandsmarkaði þá er bara sagt við viðkomandi bændur: „Nei kallinn minn, þú skalt sko ekki selja þínar vörur á innanlandsmarkaði, þú skalt sko flytja út.“ Og ég er ekki hissa á því þó hæstv. landbúnaðarráðherra vilji afnema þetta. Mér finnst það virðingarvert og er sannarlega tilbúinn til að hæla honum þegar hann á það skilið. Þetta mundu menn aldrei láta yfir sig ganga, að Alþingi samþykkti svona fyrirkomulag fyrir aðrar atvinnugreinar. Ég held að menn þurfi að velta því fyrir sér pínulitla stund hvort atvinnugreinar sem lenda í offramleiðslu á íslenskum markaði geti bara komið hlaupandi til Alþingis og beðið um að settar verði reglur um útflutningsskyldu til þess að draga úr framboði á markaðnum. Ég held að það yrði ekki hlustað á slíkar beiðnir en þetta hafa menn samþykkt fyrir landbúnaðinn. Svo tala menn um að þetta sé svo óskaplega nauðsynlegt.

Hv. þm. Jón Bjarnason hélt langa ræðu um að þetta tryggði framboð á dilkakjöti á íslenska markaðinn. Ja, heyr á endemi, segi ég. Það er engum bændum bannað að flytja út þó svo að útflutningsskyldan sé afnumin. Auðvitað munu íslenskir bændur framleiða það kjöt sem þeir geta selt hér á markaðnum áfram þó að þeir séu ekki persónulega hver og einn skyldaðir til þess að flytja út. En þeir aðilar sem verða undir í kapphlaupinu að losna við sínar vörur á innanlandsmarkaði munu þá flytja út þær vörur sem þeir geta ekki selt og menn geta ekki talað í öðru orðinu um að íslenskir bændur eigi að ná meira og meira sambandi við neytendurna beint og selja til þeirra og í hinu orðinu að leggja eigi á þá hömlur og kvaðir af þessu tagi. Bóndi sem nær því að vera með mjög góða framleiðsluvöru sem allir sækjast eftir, á að setja hann upp að vegg og segja honum að nú skuli hann bara flytja út 40% af framleiðslu sinni þótt hann geti selt hana innan lands? Því þetta er sú regla sem hefur gilt. Og ég er ekki hissa þótt hún sé þá afnumin með þeim tillögum sem hér eru.

Ég get og sjálfsagt geta flestir samþykkt þær markmiðsgreinar sem eru í 1. gr. samningsins, þ.e. að menn leitist við að bæta afkomu sauðfjárbænda og efla sauðfjárræktina sem atvinnugrein. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að sú atvinnugrein sem við erum að tala um verði að horfast í augu við það að við erum fyrst og fremst að styðja hana svo ríkulega sem gert er vegna þess að við viljum tryggja okkur þessar vörur á innanlandsmarkað. En við Íslendingar erum ekki tilbúnir til að greiða niður kjöt sem er flutt til annarra þjóða og greiða þannig niður matvöru fyrir aðrar þjóðir. Það erum við ekki tilbúnir að gera.

Bændur verða að horfast í augu við það að ef þeir ætla að standa í útflutningi þá verður það að vera útflutningur sem stendur undir sér og þannig hefur það ekki verið á undanförnum árum. Bændur hafa fengið eða munu fá samkvæmt þessum samningi stuðning, ef við horfum bara á ærgildin og meðaltalsframleiðslu miðað við ærgildi þá er ríkið að styðja bændur sem svarar hátt í 500 kr. á kg. Ef við hins vegar að horfum á framleiðsluna sjálfa þá erum við að styðja bændur sem svarar svona 370 kr. á kg. Bændur fá lægri skerf frá sláturhúsunum í sinn hlut en þeir fá úr ríkissjóði samkvæmt þessu, miðað við síðustu tölur. Á 11 mánuðum síðasta árs fengu bændur að meðaltali 302 kr. fyrir kílóið sem þeir fluttu út. Haldi menn því svo fram að ríkið hafi ekki með óbeinum hætti stutt þá útflutningsframleiðslu þá geta þeir svo sem gert það. Ég held því hins vegar fram að bændur sem flytja kjöt út geri það í krafti þess að þeir fái stuðning frá ríkinu því ég á ekki von á því að þeir geti framleitt kjöt og selt með hagnaði ef um er að ræða að fá verð sem svarar til 302 kr. á kg. Þá vantar gersamlega viðbótina. Það er sambærilegt við það ef tekinn væri af þeim allur stuðningur frá ríkinu.

Ég tel að það sé þess vegna ástæða til að menn tali í hreinskilni um þennan útflutning og hvort við séum tilbúin að styðja hann með þeim stuðningi sem kemur úr ríkissjóði. Ég tel ekki að draga eigi úr stuðningi við íslenska bændur og það kann vel að vera að það þurfi að bæta í hann á þeim tímum sem menn fara í gegnum breytingar á stuðningskerfinu en það er ekki í vændum vegna þess að nú er verið að fara í gegnum Alþingi með samning sem á að halda í þann árafjölda sem fram hefur komið.

Síðan varð ég alveg undrandi á ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar. Hann hélt mikla ræðu um að hann væri á móti óframleiðslutengdum styrkjum, það væri bara til að leggja byggðir í eyði. En þessi samningur er eins og hann hefur verið undanfarin ár, 40% af beinu greiðslunum til bændanna eru óframleiðslutengdar og síðan koma aðrir styrkir líka inn, þannig að einhvers staðar á milli 40 og 50% af því sem ríkið er að leggja landbúnaðinum til í sauðfjárræktinni er óframleiðslutengt. Þess vegna held ég að menn eigi ekki að tala eins og þeir gera því ef taka ætti fullt mark á þeirri ræðu þá hefur hv. þingmaður verið að standa að því að leggja allt í eyði í sveitum landsins með því að vera með óframleiðslutengda styrki en það er ekki þannig. Það er hægt að hafa þá líka og auðvitað er nauðsynlegt að menn horfi yfir þetta allt saman með það fyrir augum að búa til stuðningskerfi sem dugir til framtíðar.

Ég tel að þessi samningur muni ekki taka breytingum í þinginu og er svo sem ekkert endilega viss um að menn muni klára umfjöllun um hann núna. Að mínu viti skiptir ekki öllu máli hvort umfjöllun um hann verður kláruð á þessu þingi eða ekki. Bændur hafa með þessum samningi tryggt sér þann stuðning frá ríkinu sem í honum felst. Það munu menn þurfa að horfast í augu við og það geri ég. Ég tel að það sé þannig.

Ég er búinn að fjalla um útflutningsskylduna og ég er ekki hissa á því sem hæstv. landbúnaðarráðherra sagði, að hann kærði sig ekki um að vera einhvers konar frystihússtjóri hér varðandi það hvort kjöt færi á innanlandsmarkað eða erlendis og ætla að láta lokið því sem ég vil segja um þetta.

Ég vil ljúka máli mínu á því að segja að ég tel að það sé mikil nauðsyn á því að þrátt fyrir hversu langur þessi samningur er þá fari menn að huga að því að leita að leiðum til þess að breyta stuðningskerfunum við bæði mjólkurbændur og sauðfjárbændur, einfaldlega vegna þess að ef að líkum lætur eins og verið hefur á undanförnum árum þá breytist ekkert nema menn hafi tímann fyrir sér til þess að ræða þær leiðir sem til greina koma. Auðvitað mun Alþingi ekki í meðhöndlun sinni um þennan samning fjalla um hugsanlegar aðrar leiðir sem koma þar til greina. Þetta verður auðvitað að gerast á grundvelli stjórnvalda í samræðum við bændur og menn þurfa að leita lausna sem eru þá hugsaðar til langrar framtíðar. Ég er á þeirri skoðun að allir flokkar sem hafa þingmenn á Alþingi séu tilbúnir til að standa að slíkri stefnumörkun og það væri miklu nær að menn leituðu samkomulags um þessa hluti en að menn standi í því stríði sem hefur orðið á hverjum tíma. Það er ekki þolandi og verður ekki þolað til framtíðar að verðlag á vörum hér á markaði sé sprengt upp vegna fyrirkomulags á stuðningi við landbúnað, það er ekki þolandi. Menn verða að finna leiðir frá því.

Við vorum að ræða um tollkvótana fyrir nokkrum dögum. Það liggur fyrir að þó að búið sé að útvíkka þá þá munu þeir verða boðnir upp. Þar með er varan sem er flutt til landsins í þessum tollkvótum búin að taka mið af verðlaginu sem er á markaðinum innan lands. Einhverjar gyllivonir um það að sú vara verði á eitthvað óskaplega lágu verði eru þess vegna bara gyllivonir. Það getur ekkert verið þannig því að verslunarmenn sem eru í samkeppni sín á milli munu auðvitað keppa um þessa tollkvóta og það spennir upp verðið. Á síðasta ári var tollkvóti á innfluttum kjúklingum 713 kr. á kg. Það er ekkert ólíklegt að ríkissjóður fái hátt í hálfan milljarð vegna uppboðs á þeim tollkvótum sem verða til ráðstöfunar á því ári sem er fram undan þannig að ríkissjóður fær þá þessa peninga. Það er svo sem allt gott um það að ríkissjóður fái peninga en þetta hefur þá ekki þau áhrif sem sumir hafa haldið á vöruverðið í landinu á þeim vörum sem eru fluttar inn.

Ég er búinn að lýsa skoðunum mínum á þessum samningi og ætla að segja það að lokum að mér finnst að bændaforustan í landinu og ýmsir aðrir sem hafa tekið þátt í umræðum að undanförnu um matarverð og stuðning við bændur í landinu hafi verið á afar röngum brautum í áherslum sínum, haldandi því fram að þeir sem vilji taka á þessum matarverðsmálum séu með aðför að bændum í landinu. Það er af og frá. Við höfum sagt þetta margoft, við erum tilbúin að styðja við landbúnað á Íslandi en það á ekki að kosta það að hér sé haldið uppi vöruverði sem er langt fyrir ofan það sem eðlilegt er. Menn verða að fara aðrar leiðir til að styðja landbúnað á Íslandi og það skulu vera mín lokaorð.