133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[16:41]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með margt sem fram kom í ræðu hv. þingmanns. Það kom mér á óvart t.d. að hann vill setja — svona búvörusamningur er mjög flókið ferli og þingflokkar eiga að gera hann með ríkisstjórn. Hvað með launþega landsins? Eru ekki gerðir samningar við þá? Ekki eru þingflokkar kallaðir að því ferli. Það er samninganefnd frá þeim sem kemur að því, það er gert við ríkisvaldið þess vegna og atvinnulífið. Mér finnst þetta óvirðing, og tómt tal af manni sem kemur úr landsbyggðarkjördæmi að tala með þessum hætti.

Síðan verð ég að segja fyrir mig að hér kemur þessi hv. þingmaður Samfylkingar enn og aftur og reynir að halda því fram að íslenskur landbúnaður beri ábyrgð á háu matvælaverði á Íslandi. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Ekki skrökva.) Leyfið mér að tala, ég er í ræðustólnum. Ég hlustaði á hv. þingmann. Alltaf þegar talað er um íslenskan landbúnað koma samfylkingarmenn hver af öðrum til að tala um hátt matvælaverð og reyna að tengja landbúnaðinn inn í það.

Nú fór fram skoðanakönnun í Gallup. Þar kemur fram að íslenska þjóðin, 70% neytenda, segir að íslenskir bændur beri ekki ábyrgð á háu matvælaverði á Íslandi. Innlendar búvörur eru 56% af útgjöldum fjölskyldunnar, matvæli 13–14%. Það liggur alveg kristaltært fyrir að innfluttar landbúnaðarvörur sem hækka í hafi eru hlutfallslega jafnmiklu dýrari hér en í Evrópu. Hér er hátt verðlag af ýmsum ástæðum sem búið er að rekja. Ríkisstjórnin hefur lækkað það með ýmsum hætti þannig að þar er að verða breyting á.

Svo vil ég bara minna hv. þingmann á að útflutningsuppbætur á Íslandi voru lagðar af árið 1991. Evrópusambandið, hið fyrirheitna land Samfylkingarinnar, er enn með milljarða í útflutningsbætur til sinna bænda. Ísland gerði þetta 1991 þannig að það á ekki að bera það út að við séum að flytja út ríkisstyrkt (Forseti hringir.) kjöt. Það er rangt.