133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[16:50]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er búið að vera fróðlegt að fylgjast með umræðunum í dag sem hafa að mörgu leyti snúist um landbúnað og byggðamál almennt, að sjálfsögðu. Hér er um að ræða stórt mál, eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði, þetta er ein stærsta byggðaaðgerðin sem við ráðumst í, stjórnmálamenn, þ.e. samningurinn við sauðfjárbændur.

Hún er um leið mjög undarleg minnimáttarkenndin sem einkennir alla framgöngu hæstv. landbúnaðarráðherra í dag. Hann rýkur upp, hvefsinn mjög, og ber mönnum á brýn að hér séu annarleg sjónarmið um að verið sé að kenna bændum og landbúnaði um hátt matvælaverð. Margoft hefur komið fram og síðast í könnun um liðna helgi að útgjöld meðalheimilis til matvælakaupa á landbúnaðarvörum séu um 5% af reikningnum. Það er ekki mikið og ég held að íslenskar landbúnaðarvörur eigi í raun afskaplega lítinn þátt í því lífskjaraokri sem er hér á landi. Það er hátt verð á peningum, það eru okurvextir, það er heimóttarskapur hjá stjórnvöldum hvað varðar Evrópumál o.fl. sem gera það að verkum. Það eru glórulausar framkvæmdir í stóriðju, gríðarleg þensla á fáum árum, verðbólga og verðtrygging, allt þetta hristir heimilin sundur og saman og gera það að verkum að þúsundir Íslendinga eru með yfirveðsettar fasteignir eftir 90–100% fasteignalán o.s.frv. Það vita allir. Matvælaverðið og íslenskar landbúnaðarvörur eru í sjálfu sér afskaplega lítill þáttur í því öllu saman en að sjálfsögðu á að ræða um neytendamál og landbúnaðarmál um leið. Það skiptir mjög miklu máli að um þetta sem hv. þingmaður sjálfstæðismanna kallaði eina stærstu byggðaaðgerð sem við ráðumst í, sé þokkaleg sátt á milli þeirra sem búa í dreifbýlinu og þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Það hlýtur að vera keppikefli okkar stjórnmálamanna að ná og viðhalda slíkri sátt. Þess vegna er sjálfsagt að ræða það út frá öllum hliðum hvaða ávinning við höfum af slíkum byggðastuðningi og hvaða mikilvægi hann ber með sér, af því það er alveg augljóst mál að mínu mati að við þurfum að halda úti myndarlegum byggðastuðningi sé það pólitískt markmið að tryggja og viðhalda byggð um allt Ísland. Áhrifin eru svo mikil og þess vegna er líka sjálfsagt að ræða um breytingar og þróun á stuðningskerfinu við landbúnaðinn.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson talaði eins og það væri algjörlega fráleitt að hafa til hliðar eða meðfram einhvers konar óframleiðslutengdan stuðning. Svo kom fram í andsvörum við hann og frekari umræðum að töluvert stór hluti af stuðningi við bændur og sauðfjárbændur sérstaklega er óframleiðslutengdur og hefur frekar verið að aukast heldur en hitt. Það vita allir, eins og umræðan hefur verið hér um ærgildið og 0,6% framleiðsluna o.s.frv. Auðvitað er því stór hluti af þessu orðinn óframleiðslutengdur. Ég held að það sé jákvæð þróun. Að sjálfsögðu er það algjör útúrsnúningur að halda því fram að hætta eigi algjörlega að framleiðslutengja og senda mönnum bara ávísun fyrir að gera ekki neitt. Það er fráleitur útúrsnúningur. Auðvitað yrði það alltaf bundið við nýsköpun og atvinnuuppbyggingu til sveitanna, hvort sem það væri í sambandi við skógrækt, ferðaþjónustu, hrossarækt eða hvaðeina annað sem nýsköpun í atvinnulífi til sveita felur í sér. Við eigum að kappkosta að styðja við bakið á nýsköpun í atvinnulífi í dreifbýli og þess vegna eigum við frekar að auka stuðninginn í heild sinni en að draga úr honum, en að sjálfsögðu að þróa hann og ræða það í þinginu án þess að hæstv. landbúnaðarráðherra þjóti upp til handa og fóta og saki menn um að ætla að leggja landbúnaðinn í rúst og ganga að honum dauðum af því að þeir vilja ræða hugsanlegar breytingar á stuðningskerfinu og stuðningsfyrirkomulaginu. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu er það algjörlega fráleitt og eina vörnin sem hæstv. landbúnaðarráðherra hefur fyrir að mörgu leyti ákaflega dapurlegum árangri er að saka aðra um að vilja ganga að landbúnaðinum dauðum og gera enn þá verra en hann hefur gert.

Við höfum verið að ræða um lífskjarabata margra Íslendinga frá því að þjóðarsáttarsamningurinn var gerður í lok þarsíðasta áratugar og EES-samningurinn í framhaldi af því. Þessir tveir atburðir í íslenskri stjórnmálasögu skópu grunninn að því að hér hefur verið velmegun á mörgum sviðum og þensla en ríkisstjórn síðustu ára, sem á engan þátt í þessu, sérstaklega ekki Framsóknarflokkurinn, hefur hins vegar með mjög groddalegum hætti að mörgu leyti verið að glutra niður ávinningi af EES-samningi og ávinningi af þjóðarsáttarsamningum. Það er komin þörf fyrir nýja þjóðarsátt og að sjálfsögðu nýja ríkisstjórn en sú stétt sem líklega hefur minnst notið ábatans af lífskjarabótinni sem EES-samningurinn og þjóðarsáttarsamningarnir höfðu í för með sér eru einmitt sauðfjárbændur. Ætli þeir séu ekki sú stétt sem setið hefur hvað harkalegast eftir í hagsveiflum undanfarinna ára og ætli hagvöxturinn, mældur á þeim landsvæðum sem sauðfjárræktin er stunduð hvað mest og aðrar búgreinar minnst, t.d. á svæðum á Norðvesturlandi, mælist ekki mínus 20% á meðan hann er verulegur á suðvesturhorninu og á mörgum svæðum þar í kring. Við hljótum að ræða þetta og eins hvað verður um verðið á vörunni.

Fram hefur komið að bóndinn fær um 20% af útsöluverði lambakjöts, um 300 kr. Ætli meðalverðið á kílóinu sé ekki um 1.500 kr., eitthvað svoleiðis, ég ímynda mér það. Alla vega ber bóndinn um 20% úr býtum þannig að hann fær ákaflega lítið af því sem neytandinn greiðir fyrir vöruna úti í búð. Vilji menn lækka matvælaverð á íslenskum afurðum ætli þá þurfi ekki einmitt að glíma fyrst og fremst við milliliðina áður en gengið er að því sem bóndinn fær í sinn hlut. Ég vil taka það aftur skýrt fram og ætli það sýni ekki pólitískan metnað Samfylkingarinnar til að efla íslenskan landbúnað og efla mannlífið í sveitunum að hér taka margir þingmenn flokksins þátt í umræðunum í dag og vilja ræða með metnaðarfullum hætti um framtíð atvinnuhátta út um allar byggðir Íslands. Það er fráleitt að reyna að snúa því upp í að það sé aðför að landbúnaðinum séu orðaðar breytingar og þróun á stuðningnum, að hér eigi bara að leggja allt í rúst af því að það eigi að þróa sig í áttina að því að framleiðslutengja ekki hluta af stuðningnum sem er í rauninni löngu byrjað að gera og hefur komið mjög skýrt í ljós í umræðunum í dag.

Umræðurnar hafa verið mjög jákvæðar að mörgu leyti og margt athyglisvert komið út úr þeim. En það skiptir miklu máli og ég vil ítreka það hér að þegar við gerum svo stóra samninga má að sjálfsögðu gagnrýna það hvernig staðið er að samningsgerðinni og til hve langs tíma hann nær. Það er að sjálfsögðu gagnrýnisvert að þetta er einhliða ákvörðun unnin hjá ráðherra og aðkoma annarra stjórnmálaflokka og þingsins að henni er engin fyrr en samningurinn kemur inn hér núna, fjórum virkum þingdögum áður en þingið hættir og gengið er til nýrra alþingiskosninga. Auðvitað eru það mjög dapurleg vinnubrögð af hálfu hæstv. landbúnaðarráðherra að hann skuli bíða með að koma með samninginn þangað til þingið er svo gott sem búið og tíminn til að fjalla um hann í landbúnaðarnefnd og í þinginu nánast enginn. Auðvitað má setja spurningarmerki við hvað sé réttlætanlegt að gera slíkan samning til langs tíma og að sjálfsögðu eru það hlutir sem eru ræddir í umræðunni í dag.

Þessi byggðastuðningur, þessi stærsta byggðaaðgerð sem við ráðumst í með beinum hætti eins og staðan er núna, á að sjálfsögðu að skila sér í sterkara mannlífi og sterkara atvinnulífi á landsbyggðinni úti í byggðunum öllum. Þess vegna verður hæstv. ráðherra og á að að hafa pólitískan metnað til að gera grein fyrir beinum markmiðum með slíkum samningi og ávinningi af þeim síðasta. Það skiptir verulega miklu máli af því að við eigum að ná sátt um samninginn á milli neytenda í þéttbýli og þeirra sem búa úti á landi og njóta ávinnings af samningnum með beinum hætti þó svo að segja megi að eitt af markmiðunum sé að allir njóti þess í lægra vöruverði sem er þó erfitt að sjá að komi fram út af því hve milliliðirnir taka gífurlega mikið til sín af því verði sem neytandinn greiðir fyrir vöruna úti í búð þar sem, eins og ég sagði, framleiðandinn, bóndinn, fær ekki nema rétt um 20% af útsöluverði kjötsins út úr búð. Það er náttúrlega alveg fráleit staða og þess vegna hefði verið fróðlegt að heyra hæstv. ráðherra landbúnaðarmála kynna hér hugmyndir og umræður um þróun íslensks landbúnaðar í þá veru að fullvinnsla afurðanna og framleiðslan aukist á hverjum stað fyrir sig og það verði styttra á milli bóndans og neytandans að mörgu leyti.

Pólitísk markmið samningsins hljóta annars vegar að vera þau að ná fram lægra verði á vörunni sem skilar sér í því að bóndinn fær hana beingreidda að hluta og hins vegar þau að framleiða fyrsta flokks vöru og efla mannlíf og atvinnulíf úti á landi. Þess vegna er svo mikilvægt að skýra frá því hver markmiðin eru með samningnum af því að allir vita að sauðfjárræktin er orðin að aukabúgrein. Hæstv. landbúnaðarráðherra sagði í andsvörum fyrr í dag þegar hann var spurður að því hvort að það væri ekki sár á hans pólitísku samvisku að sauðfjárbændur væru ein fátækasta stétt landsins að þetta væri aukabúgrein og að fólk ynni við hitt og þetta meðfram. Vissulega er það svo en það er ekki alls staðar kostur á því, þar sem sauðfjárræktin er stunduð hvað mest, að stunda aðra vinnu og hlýtur það ekki að vera markmið að fólk geti lifað á því, bændur sem kjósa að stunda sauðfjárrækt, að stunda hana eina og saman og þurfa ekki að vera í tveimur öðrum störfum til að ná endum saman? Það gefur augaleið að það hljóta að vera pólitísk vonbrigði fyrir hæstv. landbúnaðarráðherra eftir 12 ára ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn hver staðan er hjá íslenskum sauðfjárbændum þegar lífskjör þeirra eru borin saman við lífskjör annarra stétta. Það hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir hæstv. landbúnaðarráðherra, enda þýtur hann upp, skömmóttur og illur, í hvert sinn sem þessi mál eru rædd við hann í þinginu í staðinn fyrir að taka málefnalega umræðu um framtíð íslensks landbúnaðar og framtíð opinbers stuðnings við greinina. Við eigum að sjálfsögðu að kappkosta að viðhalda sátt um stuðninginn og gera skýra grein fyrir markmiðssetningu með slíkum stuðningi af því að þessi samningur skiptir verulega miklu máli og er stór aðgerð í þá veru, ef vel til tekst, að styrkja byggðir landsins.

Ég spurði hæstv. ráðherra sérstaklega um útflutningsskylduna sem ég held að sé mjög jákvætt að afnema fyrir greinina. Ég vildi fá viðhorf hæstv. ráðherra til þess og hvort það hefði verið skoðað að slá þann varnagla að hafa heimild til að taka hana upp aftur síðar þó að ég efist ekki á neinn hátt um að það sé gott að taka hana af, hvort áhrifin af afnámi útflutningsskyldunnar á framleiðendur hafi verið metin til fulls. Getur það t.d. komið mjög harkalega niður á rekstri þeirra? Þá verður það að liggja fyrir þó svo að pólitísk sátt sé um að afnema útflutningsskylduna sem þátt í því að þróa greinina áfram.