133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[17:05]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að ég held að það sé mikilvægt að þróunin sé í þá veru að þeir sem hafa áhuga á því og kjósa að stunda sauðfjárræktina geti haft hana að aðalatvinnuvegi. Sem betur fer eru margir yngri bændur að stækka bú sín og auka við annaðhvort framleiðsluréttinn eða framleiða fyrir utan hann, ég gæti nefnt mörg dæmi um það. Ég var um daginn með opinn fund á Flúðum og þar voru tveir sauðfjárbændur, ungir menn sem voru fullir af metnaði til að ráðast í þessa atvinnugrein og gera hana að aðalatvinnugrein og fara að framleiða mikið magn.

Hæstv. landbúnaðarráðherra nefndi annað mál sem skiptir sauðfjárbændur miklu máli, sérstaklega kannski nýliðun í greininni og þá sem vilja hefja framleiðslu, það er jarðarverðið. Það hefur hækkað gífurlega á umliðnum árum og tengist að mörgu leyti annarri samfélagsþróun. Að sjálfsögðu er það að mörgu leyti mjög jákvætt að bændur geti innleyst jarðir sínar o.s.frv. og eignamyndun hefur verið mikil. Um leið er það ógnun við þá sem vilja hefja búskap. Þeir segja fullum fetum að nánast sé útilokað fyrir félítinn mann að kaupa jörð fyrir kannski hundruð milljóna, síðan framleiðsluréttinn og skepnurnar og bæta hús o.s.frv., þannig að jarðarverð ógnar um leið hinum hefðbundnu búgreinum og ekki síst sauðfjárræktinni. Það segja bændur sjálfir, það liggur fyrir.

Ég hef átt þessar samræður áður við hæstv. landbúnaðarráðherra í þinginu. Hann gaf til kynna í fyrra að til greina kæmi að setja reglur sem spornuðu t.d. við raðkaupum auðmanna á bújörðum þannig að verð á bújörðum færi ekki upp yfir öll þök og ryddi burt hefðbundnu greinunum. Ég vil nota tækifærið og spyrja hvort hæstv. ráðherra hafi náð einhverri niðurstöðu í jarðarverðsmálið (Forseti hringir.) eða hvort hann telji að ekki eigi að grípa inn í það.