133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[17:12]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég fylgdist með ræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar um sauðfjársamninginn. Í nokkrum tilfellum fór hann efnislega inn á samninginn og mig langaði aðeins að fara yfir þau mál. Ég gat ekki betur heyrt og skilið en að hv. þingmaður vildi að útflutningsskyldan yrði tekin af og ég er honum sammála í því og fagna að hafa heyrt — (Gripið fram í.) nú fæ ég frammíkall frá landbúnaðarráðherra, ég fæ þá úr því skorið í andsvarinu hvort ég heyrði ekki rétt — að þingmaðurinn vildi útflutningsskylduna af.

Þá heyrði ég að hv. þingmaður vill samþykkja samninginn. Ég fæ ekki annað séð en að hann vilji að núverandi þing samþykki samninginn þó svo að það sé á skjön við það sem hv. þm. Anna K. Gunnarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði. Hún vildi ekki binda ríkissjóð fram í tímann með því að afgreiða samninginn hér og nú. Við þessu vildi ég gjarnan fá svör.

Svo er það hitt, sem kom fram hjá þingmanninum, að skilaverð til bænda væri u.þ.b. 20% af útsöluverði. Ég ætla ekki að deila um það hvort munar einhverjum prósentustigum til eða frá, það breytir ekki öllu. En mig langaði að spyrja hvort hv. þingmaður hefur einhver úrræði þar, sér hv. þingmaður eitthvað sem mætti hugsanlega bæta hvað þann þátt varðar. Það skiptir afskaplega miklu máli ef við sjáum einhverja birtu að við segjum þá frá því, ef það mætti koma einhverjum slíkum úrræðum inn í samninginn.