133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[17:14]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spurði nokkurra spurninga. Fyrir það fyrsta styð ég það að útflutningsskyldan sé tekin af. Ég velti því hins vegar upp við hæstv. ráðherra hvort skilja ætti eftir heimild til að taka hana upp síðar ef stefndi í eitthvert ástand sem kallaði á slíkt. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hélt því fram að slíkt ætti að koma til greina. Ég velti því upp hvort slá ætti slíkan varnagla

Ég hef ekki gert upp hug minn hvað varðar samninginn sjálfan. Það fer eftir því hvernig mál þróast í meðförum þingsins og landbúnaðarnefndar hvernig við greiðum atkvæði um hann að lokum. Við viljum hafa aðkomu að slíkum samningi og erum til viðræðu um það, það kemur bara í ljós.

Hvað varðar verðið á vörunni verð ég að harma það að einungis 20% fari til bóndans. Við þyrftum að sjálfsögðu að fara í gegnum verðmyndunina og sjá hvað veldur því að svo lítið fer til bóndans á meðan neytandinn greiðir það verð sem hann greiðir. Það þarf að liggja ljóst fyrir að bóndinn tekur svo lítinn hluta af útsöluverðinu til sín og að það er neikvætt fyrir bæði bóndann og neytandann. Það yrði mikill ávinningur, bæði fyrir neytandann og bóndann, í því að varan yrði ódýrari og bóndinn fengi hærra hlutfall af verðinu. Við þurfum því að fara yfir verðmyndun á vörunni til að greina hvernig bregðast megi við og ná fram ávinningi fyrir báða hópana.