133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[17:18]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það hefur verið eftirtektarvert að fylgjast með þessari umræðu og kannski ekki síst sumum innleggjum frá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, ekki síst þeim Drífu Hjartardóttur og Einari Oddi Kristjánssyni, sem hafa leitt okkur fyrir sjónir hversu miklu betri landbúnaðarráðherrar þeir væru og hversu miklu þarfari tillögur þeir hafa hér fram að flytja um stjórnarstefnuna í landbúnaðarmálum en þær sem hæstv. landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson flytur. Í því efni fór hv. þm. Drífa Hjartardóttir yfir nauðsyn þess að hér yrði gengið fram í að lækka hinar óhóflegu álögur á bændur landsins sem við í Samfylkingunni höfum út af fyrir sig ítrekað tekið til umfjöllunar, m.a. fóðurtollana. Hér er það augljóslega, af orðum stjórnarþingmannsins að dæma, hæstv. landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson sem stendur í veginum fyrir því að þessir skeleggu talsmenn Sjálfstæðisflokksins fái komið fram sínum góðu áformum eða ekki verður annað af þeirri umræðu skilið. Við hljótum að inna hæstv. landbúnaðarráðherra Guðna Ágústsson eftir því hvers vegna Framsóknarflokkurinn stendur í veginum fyrir því og hann sjálfur sem ráðherra að svo góð áform eins og hv. formaður landbúnaðarnefndar hefur kynnt hér nái ekki fram að ganga.

Þá heyrðum við þau sjónarmið frá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að hann hygðist flytja eða fá landbúnaðarnefnd til að flytja mikilvægar breytingartillögur við frumvarpið. Varð ekki betur skilið af orðum hv. þingmanns en að það væri í raun og veru alger lífsnauðsyn til að koma í veg fyrir uppnám í sveitum landsins sem fylgt gæti gríðarlegu hrapi á afurðaverði, hann nefndi tölur eins og 30, 40, 50%, vegna þess hversu óhönduglega til hefði tekist hjá hæstv. landbúnaðarráðherra við frumvarpsgerðina. Það hlýtur að vera ástæða til að leita eftir sjónarmiði hæstv. landbúnaðarráðherra um þetta efni þó að ég haldi að orð hans um það að hann hafi ekki hug á því að vera hér einhver frystihússtjóri séu út af fyrir sig nægilega efnisleg afstaða til málsins.

Það er ótrúlegt að heyra þingmann Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Einar Odd Kristjánsson, koma árið 2007 úr stjórnmálaflokki sem gefur sig út fyrir að vera talsmenn frjálsra viðskipta og atvinnufrelsis og tala fyrir 17. aldar ákvæðum eins og ég held að réttast væri að kalla útflutningsskylduna, kvöðum af því tagi sem auðvitað eiga að heyra til liðnum tíma. Full ástæða er til að hrósa hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir það að við sjáum þó í þessum nýja samningi að hún er að leggjast af en því miður eru þá upp taldar að mestu þær framfarir sem heita má að í þeim samningi felist. Samningurinn er í raun og veru ekkert annað en framlenging á því ástandi sem nú er og getur ekki varað inn í framtíðina því að það er ekkert framtíðarskipulag eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson gerði svo ágætlega grein fyrir í ræðu sinni. Þar er ekkert framtíðarskipulag af svo mörgum ástæðum. Ein þeirra er auðvitað það innra ósamræmi, bæði í mjólkurframleiðslunni og í sauðfjárræktinni, sem stuðningskerfin eru farin að valda að menn eru annars vegar innan kerfis og hins vegar utan kerfis, að einn framleiðandi er að fá allt að þrefalt meiri styrki á kíló en annar framleiðandi og alls kyns slíkar innri mótsagnir sem hver maður sér að mun á tiltölulega skömmum tíma leiða til þess að taka verður kerfin algerlega upp. Það sem er auðvitað ástæða til að vera óánægður með er að hér sé ekki tekist á við einmitt það verkefni að skapa okkur stuðningskerfi við sauðfjárræktina sem skilar okkur árangri og er í samræmi við þær kröfur sem við gerum í dag.

Komið hefur fram í máli allra sem um málið hafa rætt að menn deila ekki um það að leggja eigi til 3 milljarða í byggðastyrki og stuðning við sauðfjárræktina. Enginn sér eftir þeim fjármunum í stuðning við byggðir landsins eða sauðfjárbændur í þessu tilfelli sem hér er verið að leggja til. Það sem skiptir hins vegar máli er að sá stuðningur skili árangri og það er auðvitað mergurinn málsins að sá árangur sést ekki. Sauðfjárræktin er meira og meira að verða aukabúgrein því að það er ekki hægt að framfleyta sér af þessu fyrirkomulagi og ríkisstjórninni nægir ekki þessi stuðningur til að skila okkur neinu því matvælaverði sem er bjóðandi árið 2007. Ríkisstjórnin er auðvitað mesta ógnin við landbúnaðinn í því hversu fullkomlega henni hefur mistekist að fást við landbúnaðarverðið í landinu, því að meðan það er svo að matvælaverð hér á landi er liðlega helmingi hærra en í Evrópusambandsríkjunum verða neytendur auðvitað aldrei við það sáttir og það verður sífellt kallað á að gripið verði til aðgerða í þeim efnum. Auðvitað er það verkefni sem við öll þurfum fyrst og fremst að einhenda okkur í að takast á við til að bæta lífskjör alls almennings í landinu.

Ef til vill er ekki ástæða til að gera mikið úr þessum viðbótarloforðum meðstjórnarmanna hæstv. landbúnaðarráðherra því að það er auðvitað þannig að nú þegar við sitjum í þessum sal eru að nálgast kosningar og það er kannski hóflega mikið mark takandi á ýmsu sem sagt er í þessum ræðustóli, ekki síst frá stjórnarflokkunum en það er líka ástæðan fyrir því að við eigum ekki að vera að fjalla um þennan samning hér og nú. Það er ekki boðlegt að rétt nokkrum vikum fyrir kosningar komi ríkisstjórn sem er að fara að skila umboði sínu og geri stefnumarkandi samning um stóra atvinnugrein og ákaflega mikilvæga í landinu sem ekki er bara til nokkurra ára heldur nær langt fram á þarnæsta kjörtímabil. Alveg óháð því hversu verðug atvinnugreinin er og hversu mikilvægur stuðningurinn er þá eru það ekki vinnubrögð sem eru boðleg í þinginu. Það hlýtur að vera hið eðlilega að álíta að hver ríkisstjórn á hverju kjörtímabili eigi að hafa færi á því að hafa áhrif á stefnumótun í grundvallaratvinnuvegum þjóðarinnar og að hendur hennar séu ekki bundnar af samningum af þessu tagi í óhóflega langan tíma korteri fyrir kosningar. Ég hef í andsvörum mínum í dag gert athugasemd við það. Ég tel að verið sé að draga óhóflega úr fjárstýringarvaldi Alþingis og það sé sömuleiðis verið að draga úr möguleikum nýrrar ríkisstjórnar til að breyta áherslum í þessum stuðningi, því að eins og margoft hefur komið fram í dag þá er ekki ágreiningur um stuðninginn sem slíkan eða fjárhæðirnar sem um er að ræða heldur hvernig þær eru veittar, þ.e. að þær séu í allt of ríkum mæli framleiðslutengdar og þar með framleiðsluhvetjandi í stað þess að vera styrkir til þess sem menn vilja styrkja sem er byggðin í landinu, þ.e. styrkir beint til bænda en ekki framleiðslutengdir styrkir. Þeim aðferðum hafa menn beitt víða annars staðar með ágætum árangri og ég vísa algerlega á bug yfirlýsingum hv. þingmanns fyrr í umræðunni um að það hafi lagt byggðir í rúst hvar sem það hefur verið reynt. Ég tel að þær yfirlýsingar séu algerlega tilhæfulausar og að hv. þingmaður verði að finna þeim orðum sínum stað og lýsa þeim byggðum sem af þeim sökum hafa verið yfirgefnar einhvers staðar í veröldinni.