133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

íslensk alþjóðleg skipaskrá.

667. mál
[18:24]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hæstv. samgönguráðherra hefur flutt mætti kannski hafa yfirskriftina: Allt að vinna, engu að tapa. Það er vegna þess að ríkisstjórnin kemur allt of seint fram með þessi frumvörp, og er ég þá ekki að tala um á þessu þingi heldur allt of seint í árum talið. Eins og hæstv. ráðherra gat um eru nú engin kaupskip skráð á Íslandi. Við erum búin að missa þau öll í burtu vegna þess hve seint er gripið inn í. Nú er gripið inn í með því frumvarpi sem hæstv. ráðherra flytur hér og með frumvarpi sem fjármálaráðherra flutti um daginn um skattlagningu kaupskipaútgerðar. Ég gat því miður ekki tekið þátt í þeim umræðum vegna þess að ég var úti á landi.

Virðulegi forseti. Betra er seint en aldrei. Ég tók þátt í umræðum við hæstv. fjármálaráðherra á seinasta þingi um þetta mál. Þá var rætt um það hvort ríkisstjórnin ætlaði ekki að leggja fram frumvarp til þess að kippa í þessa spotta, búa til íslenska alþjóðlega skipaskrá og freista þess að fá kaupskipin aftur hingað heim, með þeim skattaívilnunum sem fjallað hefur verið um í frumvarpi fjármálaráðherra.

Miðað við lýsingu í athugasemdum með frumvarpinu var umræðan farin af stað árið 1998 en þá er ekki lagt fram frumvarp vegna þess að í ljós kom andstaða o.s.frv., það er talað um andstöðu. Var það andstaða hæstv. fjármálaráðherra, núverandi og fyrrverandi, við að breyta skattalöggjöfinni sem kom í veg fyrir að hægt væri að gera það sem hér er boðað? Ég tek skýrt fram að ég er hlynntur þessu máli án þess að hafa lesið þetta allt spjaldanna á milli eða rætt það í nefnd. Ég tel einungis að frumvarpið komi allt of seint fram. En var andstaðan hjá hæstv. fjármálaráðherrum, núverandi og fyrrverandi?