133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

íslensk alþjóðleg skipaskrá.

667. mál
[18:26]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei. Það réð ekki úrslitum að andstaða var við breytingar á skattalögum í fjármálaráðuneytinu. Raunveruleikinn er sá að á vettvangi hagsmunaaðila var deilt um þetta. Það verður að segja hverja sögu eins og hún er. Það var ágreiningur á milli stéttarfélaganna vegna þessara hugmynda. En síðan lá það jafnframt ljóst fyrir að mikið var rætt um sjómannaafslátt lengi vel o.fl. Ýmsir töldu að ekki væri skynsamlegt að koma með nýja tegund af sjómannaafslætti inn í skattkerfið. Það var, svo öll sagan sé sögð, liður í þeim deilum sem um þetta mál stóðu. Niðurstaðan varð sú að stéttarfélögin náðu saman. Ekki er ágreiningur við þau lengur. Nú hefur náðst gott samkomulag á milli samgönguráðuneytis og fjármálaráðuneytis um þessar leiðir.

Eins og hv. þingmenn þekkja höfum við staðið fyrir verulega miklum breytingum á skattkerfinu. Við höfum verið að lækka tekjuskatt. Það má kannski segja að þessi aðgerð sé að hluta til liður í því. Hins vegar er það ekki eingöngu, aðalatriðið er það að við erum, m.a. með ívilnun í skattlagningu, að leita leiða til þess að ná þessari skráningu inn í landið og með skipulagi um þjónustu sem (Forseti hringir.) gæti leitt til þess að skráningin (Forseti hringir.) yrði atvinnuskapandi.