133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

íslensk alþjóðleg skipaskrá.

667. mál
[18:28]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í umræðum við hæstv. núv. fjármálaráðherra á síðasta þingi, ég man ekki hvort það var óundirbúin fyrirspurn eða ekki, spurðist ég einmitt fyrir um þetta. Þá tók ég eftir því að hæstv. fjármálaráðherra var tregur í taumi, dýralæknirinn sjálfur, til þess að stíga skref á þeirri vegferð sem nú er loks hafin.

Ég fagna, þó seint sé, þeim frumvörpum sem lögð hafa verið fram, annars vegar frumvarpi frá fjármálaráðherra og hins vegar frumvarpi frá samgönguráðherra. Ég fagna með þeim fyrirvara að ég á eftir að lesa þetta nákvæmlega yfir og vinna í viðkomandi nefnd. En betra er seint en aldrei.

Virðulegi forseti. Eins og segir í lagafrumvarpi hæstv. fjármálaráðherra er lögð til sambærileg skattlagning kaupskipaútgerðar og í ýmsum nágrannalöndum okkar, sem er skattafsláttur eða skattaívilnun til þess að freista þess að halda skipunum í þeim skrám sem þar eru. Þegar síðasta kaupskipið, Keilir, fór í færeyska skipaskrá, var þetta gert.

Ég fagna því að verið sé að búa til skattaívilnun til þess að fá kaupskipin heim til Íslands í íslenska skipaskrá. Spurning mín til hæstv. samgönguráðherra er þessi: Getum við farið þessa leið eða getum við notað fordæmið um skattalega ívilnun til að taka upp strandsiglingar á Íslandi á ný? Að gera þær aftur hagkvæmar og fýsilegar af skipafélögunum til að hefja strandsiglingar með eða án ríkisstyrkja eftir útboð? Telur hæstv. samgönguráðherra að það fordæmi sem hér er gefið getum við notað til að taka upp strandsiglingar að nýju á Íslandi?