133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

íslensk alþjóðleg skipaskrá.

667. mál
[18:33]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það frumvarp sem hæstv. samgönguráðherra hefur nú lagt fram um íslenska alþjóðlega skipaskrá og lýtur að skráningu kaupskipa á Íslandi og að reyna að færa þau aftur til landsins kemur fram vonum seinna. Þetta er mál sem við höfum verið að fjalla um í þinginu á undanförnum árum. Hvað eftir annað hefur þetta mál verið tekið upp á Alþingi, bæði í fyrirspurnum og með tillöguflutningi. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur m.a. ásamt öðrum góðum þingmönnum beitt sér fyrir því að málefni kaupskipa væru tekin upp á Alþingi. Sú alvarlega staða er uppi, sem var fyrirsjáanleg, að nú er bara eitt lítið fragtskip, sem flytur olíu á milli nokkurra staða innan lands, skráð hér á landi. Önnur eru ekki skráð hér. Meira að segja óskabarn þjóðarinnar, Eimskip, valdi það um tíma að breyta um nafn en kaus svo að skipta aftur í sitt forna nafn, Eimskip, óskabarn þjóðarinnar sem var m.a. stofnað til þess að efla og styrkja atvinnulíf og búsetu um allt land og var liður í því að íbúarnir gætu stundað sjálfstætt atvinnulíf, sjálfstæða verslun og flutning á eigin vegum. Allir lögðu sitt af mörkum til að stofna Eimskipafélagið á sínum tíma. Ég minnist þess sem ungur piltur að litið var á það sem skyldu alls fullorðins fólks út um sveitir landsins að kaupa hlutabréf í Eimskipafélaginu, ekki til þess að hafa einhvern persónulegan peningalegan arð af því heldur til að tryggja vöxt og eflingu íslensks atvinnulífs og sjálfstæði þjóðarinnar hvað flutninga varðaði.

Þessi hugmyndafræði, þessi félagshyggja og samfélagshugsjón er því miður á hverfanda hveli. Sama átti við um Samskip eða flutningafyrirtæki samvinnufélaganna á sínum tíma, það var einnig byggt upp á þessari hugsjón. Síðan hefur komið önnur ríkisstjórn, ríkisstjórn markaðshyggjunnar þar sem allt skal metið til fjár. Arðurinn af peningunum og fjármununum og fjárfestingunum skal fyrst og fremst renna til einstaklinga, til fyrirtækja, til einkaaðila. Hagsmunir þjóðarinnar eða samfélagshagsmunir eru þar ekki ofarlega á borði.

Sú ríkisstjórn sem nú situr, ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, hefur náttúrlega stutt dyggilega við þessa þróun og svo gerðist það fyrir nokkrum árum síðan að öll kaupskip voru orðin skráð erlendis. Ísland, eyland sem byggir alla sína aðdrætti eða stóran hluta af aðdráttum sínum á siglingum, á flutningum með skipum, átti ekkert kaupskip skráð á Íslandi. Það virtist ekki vera neitt áhyggjuefni hjá ríkisstjórninni. Málið hefur ítrekað verið tekið upp á Alþingi, svörin verið útúrsnúningar eða þau að ekki mætti grípa inn í til að tryggja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs. Þetta ætti að vera frjálst, það ætti að leyfa mönnum að fara með skipin úr landi því það væri liður í að efla starf þeirra á alþjóðavettvangi. Íslenskir hagsmunir voru ekki hafðir þar að leiðarljósi.

Við höfum oft tekið þetta mál upp í samgöngunefnd. Þar var líka hvatt til þess að það væri skoðað hvernig tryggja mætti að kaupskipin ættu hér heimahöfn en það hefur ávallt verið talað fyrir daufum eyrum í því sambandi. Þegar svo hefur verið um nokkra hríð að öll kaupskip eru skráð erlendis, kemur loksins á síðustu dögum þings, á síðustu dögum þessarar ríkisstjórnar, á síðustu dögum hæstv. samgönguráðherra í ráðherrastóli, fram frumvarp sem lýtur að þessu máli og það er að vísu fagnaðarefni. Það markmið að reyna að koma kaupskipunum aftur í íslenska lögsögu, bæði að skipin verði skráð hér á landi og sjómennirnir sem starfa um borð í skipunum verði skráðir hér, er náttúrlega gríðarlegt hagsmunamál fyrir þjóðina, bæði sjálfstæðismál og gríðarlegt hagsmunamál efnahagslega líka að hafa þau skráð hér. Því ber að fagna frumvarpinu hvað þessi atriði varðar þó að það komi seint fram og ráðherra geri greinilega ekki ráð fyrir að það verði að lögum áður en hann fer úr ráðherrastóli því það munu ekki vera meira en tveir eða þrír dagar eftir af raunverulegum starfsdögum þingsins. Þetta er svona viðleitni sem kemur fram á síðustu stundu.

Ef við lítum aðeins á ýmsa efnisþætti frumvarpsins þá vil ég staldra við þau atriði sem tekist hefur verið á um á undanförnum árum og sem talið hefur að skertu samkeppnisstöðu kaupskipaútgerðanna vegna þess að þær gætu ekki ef þær væru undir íslenskri lögsögu m.a. boðið starfsmönnum sínum kaup og kjör eftir eigin geðþótta. Þær töldu að ef þær yrðu að fara eftir íslenskum kjarasamningum, íslenskum áunnum réttindum og réttindum sem íslenskir starfsmenn hafa samkvæmt samningum hér á landi, væru þær ekki samkeppnishæfar. Þess vegna hafa þær m.a. leitað erlendis til þess að geta ráðið fólk á lakari kjörum. Ég tel í fyrsta lagi að það hafi verið misskilningur og í öðru lagi að þá hefði bara átt að taka á þannig að samkeppnishæfnin væri fyrir hendi. Það er alveg sama hversu mjög við viljum breyta lögum í þá veru að skipin komi hingað aftur og verði skráð hér, við megum samt undir engum kringumstæðum setja hér lög sem mismuna starfsmönnum, sjómönnum á þessum skipum, miðað við íslenska kjarasamninga og réttindi starfsmanna sem starfa hér samkvæmt íslenskum lögum. Þess vegna set ég stórt spurningarmerki m.a. við 11. gr. sem fjallar um mönnun og kjaramál en þar er sagt að áhafnir kaupskipa sem skráð eru á íslenska alþjóðlega skipaskrá skuli uppfylla lágmarkskröfur alþjóðasamþykktar um viðmiðanir að því er varðar menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna og gætt skuli reglna um öryggismönnun. Síðan segir:

„Um kjör skipverja í áhöfn kaupskips fer eftir þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið við stéttarfélög viðkomandi ríkja þar sem skipverji á lögheimili. Kjarasamningur gildir einungis fyrir félaga í því stéttarfélagi og ríkisborgara þess ríkis sem stéttarfélag á lögheimili í, enda eru þeir ekki í öðrum stéttarfélögum sem gerður hefur verið kjarasamningur við.“

Nú er ég ekki svo kunnugur því hvernig þessu er háttað almennt í kjarasamningum en ég man ekki betur en að einmitt hafi verið lögð áhersla á að standa ætti vörð um það að þeir starfsmenn sem kæmu til starfa undir íslenskri forsjá, undir íslenskri lögsögu, hvort heldur á sjó eða landi, fengju kaup og kjör samkvæmt íslenskum lögum og íslenskum kjarasamningum. Þarna er aftur á móti verið að segja að hægt sé að vera með 20 manns á skipi og þó að skipið sé skráð hér geti skipverjarnir verið á 20 ólíkum kjarasamningum í 20 mismunandi löndum þess vegna. Markmiðið sem við höfum sett og barist fyrir, að fólk sem vinnur hlið við hlið undir íslenskri lögsögu búi við sömu kjör, er ekki tryggt og er meira að segja verið að opna á það í þessum lögum að það sé ekki gert. Ég spyr ráðherra: Samræmist þetta íslenskum lögum? Hefur hæstv. ráðherra rætt t.d. við hæstv. félagsmálaráðherra, sem ég held að hafi verið að mæla fyrir lögum um réttindi og skyldur og atvinnuréttindi erlendra ríkisborgara sem hér starfa? Þegar skip er komið undir íslenskan fána, sem við höfum að markmiði og ég styð, hlýtur það að heyra undir íslensk lög hvað fólk varðar, hvað réttindi og skyldur varðar, hvað kjarasamninga varðar. Ef fara á út á aðra braut með það tel ég okkur vera komin á mjög hættulega braut. Þegar maður les athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins og það sem fjallað er um í 11. gr. þar sem verið er að opna á þá heimild að skip geti verið með starfsmenn, sjómenn, á mismunandi kjörum eftir því frá hvaða landi þeir koma, þá sjáum við að það er ekki nóg með það heldur segir líka í athugasemdum við 11. gr., með leyfi forseta:

„Um kjör skipverja gerir frumvarpið ráð fyrir að fari eftir kjarasamningi þess lands sem viðkomandi skipverji á lögheimili í og gilda því íslenskir kjarasamningar einungis um íslenska skipverja í áhöfn kaupskipa.“

Takið eftir hvað ég er að segja. Enda þótt skipið eigi að sigla undir fána Íslands og heyra þar af leiðandi að mínu mati undir íslensk lög þá eiga íslenskir kjarasamningar einungis að gilda um þá sem eru íslenskir ríkisborgarar. Um hina fer eftir kjarasamningum þess lands sem þeir koma frá. Ekki er nóg með þetta heldur segir áfram í athugasemdum við 11. gr., frú forseti:

„Miðað er við að kjarasamningur gildi einungis fyrir þá sem eru í því stéttarfélagi sem gerði samninginn og hefur það þá þýðingu að ef skipverji er ekki í stéttarfélagi í sínu heimalandi eða annars staðar er útgerð kaupskipsins heimilt að semja sérstaklega við hann um kaup og kjör.“

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi ekki verið lærdómsríkt fyrir hann að fylgjast með skipinu sem kom að Grundartanga og var stöðvað þar af samtökum sjómanna hér á landi vegna þess að ekki hafði verið gert upp við skipverjana. Þeir bjuggu ekki við þann aðbúnað sem alþjóðasamþykktir kveða á um og höfðu vond kjör. Hvað óttuðust þeir og hvers vegna ætluðu þeir ekki að þora að tala við neinn? Það var að ef þeir mundu opna munninn yrðu þeir reknir heim, sagt upp störfum og þeir reknir heim. Er það ástand sem hæstv. ráðherra vill innleiða á kaupskipum undir íslenskum fána? Þannig ætti þetta hvergi að vera.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal talar um hentiskip og hentifána. Ég er ekki hlynntur því að íslenski fáninn verði neinn hentifáni til þess að lækka eða bjóða út kjör sjómanna. En eftir orðanna hljóðan gætu sjómenn unnið á ólíkum kjarasamningum hlið við hlið á íslensku skipi, undir íslenskum fána, eftir því frá hvaða landi þeir koma eða því stéttarfélagi sem þeir eru aðilar að. Séu þeir ekki aðilar að stéttarfélagi þá hefur útgerðin frjálsar heimildir til að semja eða að skaffa eða til að ákveða launin. Einn sjómaður án samningsfélags hefur enga samningsstöðu eins og við vitum. Við þekkjum þann þrýsting sem vinnuveitendur geta beitt starfsmenn í slíkum tilfellum og þar með væri innleitt fullkomið réttleysi, ef þetta yrði raunin. Frú forseti, ég vara afdráttarlaust við þeirri nálgun sem hér er verið að innleiða á íslensku atvinnusvæði og í íslenskri lögsögu, eins mikið og ég er fylgjandi því að útgerðirnar og skipin komi og heyri undir íslenska lögsögu. Þetta er eitt af þeim atriðum sem maður heggur sérstaklega eftir og finnst með ólíkindum að finna í frumvarpi sem íslenskur ráðherra flytur.

Það væri ástæða til að spyrja um fleira. Ætli það séu ekki eitt og hálft eða tvö ár síðan hingað komu fulltrúar frá sænskum verkalýðssamtökum sem sjómenn á flutningaskipum eiga aðild að. Mig minnir að þeir legðu til annað kerfi heldur en hér er gert ráð fyrir. Þar var lögð áhersla á, ef ég man rétt, að allir sjómenn væru á sænskum kjarasamningum, nytu lífeyrisréttinda og allra þeirra starfsréttinda sem sænskir launþegar njóta. En síðan var einhvers konar endurgreiðslukerfi við lýði sem jafnaði aðstöðu skipafélaga og sjómanna þannig að þau voru samkeppnishæf við aðrar þjóðir. Ég sé ekki að hinu sænska kerfi hafi verið gerð skil. Það er nefnt á bls. 29 í greinargerð að í Noregi og Svíþjóð séu siglingar blómstrandi útflutningsatvinnuvegur og í öðru og þriðja sæti hvað varðar gjaldeyristekjur. Þessi yfirlýsing segir okkur hversu gríðarlegt hagsmunamál þetta er, að kaupskipin komi heim. En eftir því sem ég man best þá var einmitt lögð rík áhersla á það í þessum löndum að réttindi sjómanna, starfsmanna á skipunum, væru að fullu virt og þeir lytu sænskum lögum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann vildi kanna þessa sænsku leið.

Í lokin vil ég nefna strandflutningana. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum undanfarin ár ítrekað flutt frumvörp um að strandsiglingar verði teknar upp að nýju. Ég held að það hafi verið ein af döprustu aðgerðum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma að hætta strandsiglingum með því að leggja niður stuðning við þær. Finna hefði mátt aðra leið til að halda þeim uppi. Við fáum stöðugar áskoranir frá byggðarlögum, m.a. Vestfjörðum og víðar um land, þar sem samkeppnisstaða þessara byggðarlaga skertist þegar strandsiglingar voru aflagðar.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum ítrekað lagt áherslu á að strandsiglingar verði teknar upp, þótt ríkið þyrfti að styðja við þær. Það væri bara sjálfsagt. Þetta er flutningskerfi sem er partur af grunnþjónustu við atvinnulíf og búsetu um allt land. Ríkið styður við hafnir sem er gott. Ríkið byggir vegi og á vegina og þess vegna er jafnmikilvægt að siglingar meðfram ströndum landsins séu studdar þannig að sá flutningsmáti geti orðið samkeppnishæfur. Þau rök sem oft hafa verið flutt hér, að það sé ekki hægt vegna einhverra reglna í Evrópusambandinu, eru náttúrlega fáránleg. Alltaf þegar ráðherrar hafa komist í rökþrot þá segja þeir að þannig séu ESB-reglur og þegar þeir eru beðnir um að skilgreina það nánar verður fátt um svör.

Það er einmitt svo varðandi siglingarnar, flutninga sjóleiðina, að Evrópusambandið hvetur til ríkisstyrkja í því sambandi eins og segir í greinargerðinni. Leiðbeiningar ESB um ríkisstyrki til sjóflutninga heimila að fella megi niður skatta og gjöld af sjómönnum á þessum skipum. Það á við á styttri og lengri sjóleiðum, eins og stendur þarna í greinargerðinni. Það hefur ekki vantað heimildir og hefði ekki þurft að brjóta nein lög. Við höfum staðið frammi fyrir fullkomnu aðgerða- og sinnuleysi stjórnvalda í þessum málum hvað varðar sjóflutninga.

Það er virðingarvert að þetta frumvarp skuli komið fram. Markmiðið er að kaupskip verði aftur íslensk, sem annast flutninga til og frá landinu og hringinn í kringum landið. Þau geti verið skráð á Íslandi undir íslenskum fána samkvæmt íslenskum lögum og þá eiga starfsmennirnir líka að njóta réttinda sem slíkir samkvæmt íslenskum kjarasamningum og við verðum að haga lagasetningunni eftir því.