133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

íslensk alþjóðleg skipaskrá.

667. mál
[19:00]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar að sjálfsagt er að reyna að hraða þessu máli í gegn og þó þannig að það uppfylli öll lög og réttindi og skyldur þannig að allir séu sáttir enda getur það ekki verið kappsmál okkar að koma í gegn lögum sem ekki eru réttlát.

Það er alveg rétt að í umsögnum aðila í samtökum sjómanna og annarra um frumvarpið er hvatt til þess, hvað markmiðin varðar og það höfum við vitað að hefur legið fyrir að samtök sjómanna og annarra hagsmunaaðila hafa alltaf hvatt til þess að gert væri átak til þess að koma kaupskipunum aftur heim, en ég sé hvergi nefnt að þeir vilji gera það á kostnað réttinda sjómanna og það er ábyggilega ekki svo. Ég held því að það sé mjög mikilvægt að við stöndum vörðinn um það. Enda minnist ég þess, og við hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, og reyndar fulltrúar bæði samgöngunefndar og frá fjármálaráðuneytinu, vorum saman á fundi með fulltrúum sænskra aðila sem lýstu fyrir okkur kerfi í Svíþjóð þar sem lagt var kapp á að allir væru við sömu kjör um borð í skipunum og væru í sænskum kjarasamningum. Síðan var einhver tegund af endurgreiðsluleið farin til þess að allt væri samkeppnishæft, kaupskipin, útgerðirnar og sjómennirnir.

Ég vil spyrja hv. þingmann, af því að hann kemur hér í ræðustól á eftir, hvort það sé sanngjarnt að vera með áhöfn þar sem einn sjómaður er á einum kjörum og annar á einhverjum öðrum kjörum og þriðji á einhverjum þriðju kjörum (Forseti hringir.) og svo kemur einn sem gerir bara samninginn beint við útgerðina.