133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

íslensk alþjóðleg skipaskrá.

667. mál
[19:02]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kom svo sem ekki á óvart að hlusta á hv. þm. Jón Bjarnason hér áðan, fullyrðingar hans voru ein allsherjar sleggjudómafroða satt að segja, lítt rökstuddar fullyrðingar um neikvæða afstöðu stjórnvalda til siglinga o.s.frv. Það er mjög erfitt að fara ofan í og svara slíkum málflutningi og ég mun þess vegna takmarka mig mjög við það að vekja hins vegar athygli á því varðandi það frumvarp sem hér er til umfjöllunar að það er leitast við að sníða það að þeim reglum sem eru í nágrannalöndum okkar, bæði hvað varðar hluti sem koma fram í 11. gr. og öðrum greinum, í þeim tilgangi að við náum því að hafa reglurnar sem íslenskastar, að sjálfsögðu, en jafnframt að við höfum þær ekki með þeim hætti að hér verði ekkert skip skráð. Við þurfum að tryggja að við notum svipaða aðferðafræði og nágrannalöndin hafa haft og leggja ríka áherslu á að eftirlitið sé gott, umbúnaður og öryggismál séu í góðu lagi og það sé farið í einu og öllu eftir alþjóðlegum reglum sem við erum aðilar að.

Ef við ætlum hins vegar að búa til löggjöf um þessa íslensku alþjóðlegu skipaskrá sem stangast að verulegu leyti á við það sem er hjá öðrum þjóðum í nágrenninu þá er kannski ekki líklegt að mikið verði úr þessu. Þess vegna þurfum við að gæta okkar á því að umturna þessu frumvarpi ekki (Forseti hringir.) í hv. samgöngunefnd með þeim hætti að það verði óframkvæmanlegt að vinna þetta.