133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

íslensk alþjóðleg skipaskrá.

667. mál
[19:23]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er þannig með þau skip sem gerð eru út frá Færeyjum af hálfu íslenskra kaupskipaútgerða, Samskips, Kaupskips og Olíudreifingar, að það er nokkuð mismunandi hvernig þar hefur verið staðið að málum en ég veit að hjá Samskip og Eimskip eru þau skip sem eru í reglubundnum siglingum til og frá Íslandi jafnvel undir fleiri þjóðfánum en einum, Panama og fleiri, og ekki öll skráð í Færeyjum sem slík heldur er áhafnaskráningin þar. Sjómenn eru á íslenskum kjörum, njóta trygginga og greiða í lífeyrissjóði hér. Það eina sem stendur út undan hjá annarri útgerðinni eru sérstakar greiðslur til Tryggingastofnunar vegna feðraorlofs.

Ég óttast það ekki, virðulegi forseti, og deili ekki þeim áhyggjum með hv. þingmanni því að með þessari alþjóðaskipaskrá munum við væntanlega ná því að íslensk farmannastétt deyr ekki út. Hún er mjög eftirsótt vegna þekkingar og reynslu sem þarf að hafa hvað góða sjómennsku áhrærir. Og vegna vályndra veðra, sjólags og vinda sem eru hér í Norður-Atlantshafinu er mjög mikilvægt að sjómenn hafi kunnáttu, þekkingu og getu til að sjóbúa farm svo tjón á farmi verði sem minnst. Það hefur sýnt sig, því miður, að þegar skip hafa verið tekin á tímaleigu með erlendum sjómönnum að þar hefur oft orðið miklu meira tjón en á skipum sem eru mönnuð íslenskum farmönnum.