133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

íslensk alþjóðleg skipaskrá.

667. mál
[20:02]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum mjög tímabært mál, mál sem ástæða hefði verið til að hefði komið inn á þing fyrir einhverjum árum. Þetta er fylgifrumvarp þess frumvarps sem lagt var fram af fjármálaráðherra fyrir nokkrum dögum, um að búa til svokallað skattleysi, tekjuskattsleysi, og taka upp tonnagjald, sem er það gjald sem er tekið í alþjóðlegum skipaskrám sem hafa verið settar á fót á undanförnum árum. Má nefna dæmi frá Írlandi og Færeyjum.

Við Íslendingar höfum verið ákaflega lengi að ná sátt um að leggja til alþjóðlega íslenska skipaskrá. Nú er sú sátt fyrir hendi og samtök útgerðarmanna og sjómanna hafa mælt með því að þetta verði fest í lög. Getið er um það í minnisblaðinu um skipan starfshóps. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í júlí sama ár barst samgönguráðherra, fjármálaráðherra og formanni samgöngunefndar Alþingis bréf frá Samtökum atvinnulífsins, Félagi skipstjórnarmanna, Vélstjórafélagi Íslands og Sjómannafélagi Reykjavíkur þar sem enn er skorað á stjórnvöld að grípa til aðgerða …“

Einnig segir:

„Til þess að sporna við þróuninni hafa nágrannalönd okkar gripið til margvíslegra aðgerða til þess að skapa kaupskipaútgerð þeirra hagstæðari rekstrarskilyrði og sporna þannig við því að þekking og störf flytjist úr landi. Aðgerðir nágrannalanda okkar snúa í grundvallaratriðum að því að bæta rekstrarskilyrði útgerða með rýmri löggjöf og skattalegum ívilnunum.“ — Það var það frumvarp sem hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir í síðustu viku og við tókum undir mörg hver sem lausn í þessu máli.

Síðan segir áfram, með leyfi forseta:

„Í ágúst afhentu Samtök íslenskra kaupskipaútgerða starfshópnum yfirlýsingu sama efnis.“

Þar sagði m.a., með leyfi forseta:

„Eigi kaupskipaútgerð að þrífast og dafna á Íslandi, þurfa íslensk stjórnvöld að tryggja að rekstrarumhverfi þeirra fyrirtækja sem starfa í greininni sé samkeppnishæft við rekstrarumhverfi það sem samkeppnisaðilarnir búa við.“

Undir þessi sjónarmið er upplagt að taka. Vissulega hefði verið tilefni til þess að bregðast við fyrr, eins og ég sagði í inngangi máls míns, að við værum ekki fyrst að bregðast við þegar við ættum ekkert kaupskip skráð í íslenska skipaskrá. Ég held að síðasta skipið sem var tekið af íslenskri skipaskrá hafi verið Keilir sem var fært á skipaskrá í Færeyjum.

Hvað um það, hæstv. forseti, betra er seint en aldrei. Ég vonast vissulega til þess að þetta geti orðið til þess að rekstraraðilar kaupskipa, einkum íslenskir eða fyrirtæki sem hafa starfað í tengslum við íslensk fyrirtæki, sjái sér hag í því að skrá kaupskip hér á landi í hina alþjóðlegu skipaskrá og að rekstur útgerðarfélaganna falli þá undir samstæð kjör og hafa verið tekin upp í nágrannalöndum okkar að því er varðar skattgreiðslur þannig að útgerðir verði samkeppnishæfar á íslenskri skipaskrá. Það er til mikils að vinna ef hægt er að snúa þróuninni við. Við gerum okkur vonir um að það sé hægt, það hefur m.a. tekist í Færeyjum og á Írlandi þar sem verulega hefur fjölgað í kaupskipaflotanum. Það eru sennilega þau ríki í nágrenni við okkur sem nýlegast hafa tekið upp það fyrirkomulag sem við erum að fara í gang með.

Þetta vildi ég segja almennt, hæstv. forseti, um þetta. Við þurfum samt að huga vel að einu atriði og það er í 11. gr. frumvarpsins þar sem talað er um mönnun og kjaramál.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Um kjör skipverja í áhöfn kaupskips fer eftir þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið við stéttarfélög viðkomandi ríkja þar sem skipverji á lögheimili. Kjarasamningur gildir einungis fyrir félaga í því stéttarfélagi og ríkisborgara þess ríkis sem stéttarfélag á lögheimili í, enda eru þeir ekki í öðrum stéttarfélögum sem gerður hefur verið kjarasamningur við.“

Síðan segir, hæstv. forseti, í umsögn um 11. grein, um kjör skipverja, með leyfi forseta:

„Um kjör skipverja gerir frumvarpið ráð fyrir að fari eftir kjarasamningi þess lands sem viðkomandi skipverji á lögheimili í og gilda því íslenskir kjarasamningar einungis um íslenska skipverja í áhöfn kaupskipa. Miðað er við að kjarasamningur gildi einungis fyrir þá sem eru í því stéttarfélagi sem gerði samninginn og hefur það þá þýðingu að ef skipverji er ekki í stéttarfélagi í sínu heimalandi eða annars staðar er útgerð kaupskipsins heimilt að semja sérstaklega við hann um kaup og kjör.“

Hæstv. forseti. Ég vildi vara við þessum ákvæðum. Í fyrsta lagi: Til þess að menn hafi frið um slíka útgerð kaupskipa í alþjóðlegri skipaskrá, eins og hér er lagt til, þurfa menn að passa sig á því að fylgja ákveðnum lágmarksreglum. Þær lágmarksreglur eru einfaldlega á þann veg að menn geti ekki miðað við lægri kjör en kveðið er á um í kjörum Alþjóðaflutningaverkamannasambandsins fyrir flutningastarfsemi og störf á kaupskipum, svokallaða ITF-samninga þar sem kveðið er á um lágmarkskjör þeirra manna sem starfa á kaupskipum og eru í siglingum.

Það er algjörlega nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að útgerðir sem skrá sig á íslensku alþjóðlegu skipaskrána fá engan starfsfrið ef þær reyna að fara niður fyrir þau lágmarkskjör. Þá lenda menn bara í endalausri vöktun, einelti og stöðvunum. Það er lágmarksskilyrði að menn hugsi til þessara lágmarkskjara en það stangast aftur á við það ákvæði sem nú síðast var vikið að, að útgerð kaupskips sé heimilt að semja sérstaklega við mann um kaup og kjör. Það verður þá a.m.k. að taka mið af því að menn fari ekki neðar en lágmarkskjörin sem kveðið er á um alþjóðlega til að tryggja starfsfrið. Ákveðið eftirlit fer fram með þessum skipum, að kjarasamningar séu haldnir, víða um heim og menn lenda einfaldlega uppi á skeri rekstrarlega ef þeir hafa ekki starfsfrið. Á þessu vildi ég vekja sérstaka athygli, hæstv. forseti.

Ég vil einnig minna á að við vorum nýlega með frumvarp í þinginu þar sem rætt var um starfskjör erlendra manna á Íslandi sem vinna hjá íslenskum fyrirtækjum. Manna sem eru hér annaðhvort á eigin vegum eða eru starfsmenn svokallaðrar kaupleigu, þ.e. þegar vinnumiðlanir leigja frá sér starfskraft til fyrirtækis til ákveðins tíma. Í því frumvarpi var kveðið á um að það skyldi tryggt að allir þeir erlendu starfsmenn sem hér ynnu störfuðu samkvæmt íslenskum kjarasamningum og væru ekki á lakari kjörum en innlendir starfsmenn og hefðu að öllu leyti sömu réttindi. Við vorum m.a. að tala um tryggingar, við vorum að tala um sjúkrarétt, við vorum að tala um orlofsrétt, slysarétt o.s.frv. Þar sem við erum nýbúin að ræða þessi mál í tengslum við það frumvarp held ég að við þurfum að horfa til þess hvað við erum að gera í þeim lögum og fara alls ekki út úr því fari að tryggja hin alþjóðlegu lágmarkskjör. Um það gæti ekki orðið neinn starfsfriður almennt fyrir útgerðir.

Þar að auki held ég að ákveðið ósamræmi geti verið í því ef við erum að tryggja kjör allra erlendra manna sem vinna í landinu, þar með talið manna sem koma frá vinnumiðlunum og starfa hér tímabundið, en erum svo að festa eitthvert allt annað umhverfi í sessi að því er varðar kaupskipaútgerðina. Ég ráðlegg því eindregið að horft verði mjög stíft til þess að við förum ekki niður fyrir alþjóðleg lágmarkskjör og höldum okkur við það. Við þurfum líka að horfa til þess hvaða tryggingar þessir menn hafa varðandi slysatryggingar og orlofsrétt og ýmislegt fleira. Við getum varla verið með mjög ólík lög að því er varðar erlenda starfsmenn íslenskra fyrirtækja þó að við séum vissulega hér með alþjóðlega kaupskipaskrá sem m.a. Evrópusambandið hefur viðurkennt að megi vera með ýmsum hætti, megi jafnvel þiggja styrki frá ríkinu o.s.frv., og gera megi sérstakar ráðstafanir til þess að viðhalda kaupskipaútgerð innan Evrópusambandsins og á Evrópska efnahagssvæðinu sem við erum aðilar að.

Þetta vildi ég nú sagt hafa, hæstv. forseti. Ég vænti þess að málið verði skoðað gaumgæfilega í hv. samgöngunefnd og farið verði yfir þetta. Við eigum að passa okkur á því að ganga svo um gleðinnar dyr, við fögnum því jú vissulega að frumvarpið er komið fram, að við förum ekki niður fyrir viðmið sem teljast alþjóðleg og standast eðlileg kaup og kjör á vinnumarkaði á okkar heimssvæði þar sem við höfum gengist undir ýmis réttindi eins og mannréttindasáttmála, félagslega sáttmála o.s.frv. Það er því að mörgu að hyggja í þessu.