133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

íslensk alþjóðleg skipaskrá.

667. mál
[20:13]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Það frumvarp sem við erum hér að ræða um er frumvarp til laga um íslenska alþjóðlega skipaskrá sem hæstv. samgönguráðherra flytur. Áður hefur hæstv. fjármálaráðherra flutt í raun og veru sams konar frumvarp sem snýr þá að skattalögunum.

Ég sagði í stuttu andsvari áðan að auðvitað fagnaði ég því að þessi frumvörp skuli vera komin fram og sagði að betra væri seint en aldrei. En ég ætla, virðulegi forseti, að sjálfsögðu að áskilja mér allan rétt við vinnu í samgöngunefnd sem ég á sæti í hvað þetta varðar og hvað kemur út úr vinnunni hjá efnahags- og viðskiptanefnd gagnvart skattaþættinum, ég ætla að hafa þann fyrirvara og lýsa honum hér en ég segi jafnframt og ítreka það sem ég hef áður sagt að ég fagna því að þetta sé komið fram. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra út í þetta á síðasta þingi. Þá var þegar farið að flytja skip frá íslenskri skipaskrá og út, við vorum að missa skip í burtu og þar af leiðandi skatttekjur og þá hvatti ég til þess að gengið yrði í þessa vinnu sem er hér að koma fram í frumvarpsformi. Eins og ég segi, betra er seint en aldrei.

Eins og komið hefur fram hjá báðum hæstv. ráðherrunum þá hefur því verið lýst að ekki er eitt einasta íslenskt kaupskip í íslenskri skipaskrá í dag. Þau eru öll farin út og síðasta skipið, Kyndill, fór í færeyska skipaskrá. Og eins og við sögðum þá voru siglingar með olíu um strendur Íslands í raun og veru niðurgreiddar af færeyska ríkinu. Það ber auðvitað að þakka frændum okkar Færeyingum kærlega fyrir að það skuli hafa verið gert og það voru þá einu styrktu strandsiglingarnar sem áttu sér stað og eiga sér stað við Íslandsstrendur en þær voru sem sagt ekki styrktar af íslenska ríkinu, okkur sjálfum og okkar eigin ríkissjóði heldur úr landssjóði Færeyinga og hafi Færeyingar kærar þakkir fyrir það sem þeir hafa lagt til íslensks efnahags á undanförnum missirum við það að Kyndill sigldi hér um ströndina til að færa okkur olíu, ef til vill eitthvað smániðurgreidda af flutningsjöfnunarsjóðnum sem vafalaust er orðinn hálfbjagaður og slitinn.

Þetta er, virðulegi forseti, raunveruleikinn á Íslandi í dag og að því leytinu til tek ég enn einu sinni fram að ég fagna því að þetta skuli vera komið fram með þeim fyrirvörum sem ég hef lýst og vona að hér sé ekki verið að ganga á rétt sjómanna, það á alls ekki að vera tilgangurinn. En það sem kemur fram í þessu og kom fram í flutningsræðu hæstv. fjármálaráðherra er að það er verið er að búa til skattaívilnun, það er verið að laga skattkerfið að því að reyna að ná skipunum aftur heim þar sem skatttekjur af sjómanni sem voru áætlaðar meðaltekjur 4 millj. 320 þúsund, skatttekjur til íslenska ríkisins hefðu átt að vera 772 þús. ef ég man rétt. Ég er að vísu ekki með þetta frumvarp við höndina en það eiga sem sagt 90% af því að fara í endurgreiðslu til Skipaútgerðarinnar sem framlag, sem styrkur, sem skattaívilnun til þess að freista þess að fá skipin aftur heim í íslenska skipaskrá og þau 10% sem verða eftir eða 72 þús. eiga að skiptast jafnt milli ríkis og sveitarfélaga, þ.e. 37 þúsund í hlut ríkisins og 37 þúsund í hlut viðkomandi sveitarfélags á mann, á mánuði. (GAK: Og við hefðum getað gert betur …) Já, það er rétt hjá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni sem mælir manna heilastur ýmislegt í þessum efnum.

En ég vil segja að ég fagna því að hæstv. ríkisstjórn, að fjármálaráðherra hafi í raun og veru verið barinn til hlýðni við að koma með þessi frumvörp, koma með þessar aðgerðir í skattamálum vegna þess að hér er komið fordæmi sem ég fagna, skattaívilnun til atvinnurekstrar, til þess að fá atvinnureksturinn aftur heim, að beita skattakerfinu til þess að svona rekstur eigi sér stað á Íslandi og þá segi ég, virðulegur forseti, sem ég hef oft barist fyrir, að ég held að það sé hægt að nota skattkerfið til að jafna lífskjör fólks, til þess að jafna rekstrarskilyrði fyrirtækja eftir því hvort þau eru á landsbyggð eða höfuðborgarsvæði eða jafnvel á einhverjum svæðum á Íslandi sem eiga mjög í vök að verjast, hér erum við komin með fordæmi. Við erum komin með fordæmi sem við sækjum m.a. til Evrópusambandsins sem hefur samþykkt svona aðgerð vegna þess að annars var verið að missa alla atvinnustarfsemina út úr Evrópu til Asíuþjóða og menn vildu ekki vera eingöngu háðir Asíuþjóðum í skipaflutningum til Evrópu. Þökk sé Evrópusambandinu þó að það sé ekki alltaf hægt að þakka þeim fyrir allt, en þökk fyrir þetta.

Í stuttu andsvari áðan og í spurningu til hæstv. samgönguráðherra sem hann játaði spurði ég hvort við værum komin með aðgerð til að taka upp strandsiglingar aftur á Íslandi, fraktflutninga við strendur landsins. Húrra fyrir því ef það er komið, vegna þess að það hefur verið baráttumál mitt lengi að strandsiglingar yrðu teknar upp á ný og þær vörur sem er hagkvæmt að flytja með skipi yrðu fluttar þannig og aðrir flutningar yrðu uppi á þjóðvegunum. Að sjálfsögðu verður Cheerios-ið og sulturnar og kjötið og hvað þetta allt saman heitir áfram flutt með flutningabílum, dagvaran, en ég hef sagt það hér áður að ég held að toppurinn á vitleysunni hafi komið fram þegar átti að flytja til landsins stálþil til að ramma niður í hafnargerð á Akureyri og það átti að skipa því upp í Reykjavík og keyra þeim í bíl norður til Akureyrar. Ég held að vitleysan hafi ekki getað náð lengra í flutningamálum okkar Íslendinga.

Og þá kemur upp í huga minn viðtal sem var í útvarpi ekki alls fyrir löngu, kannski einn eða tveir dagar síðan, við rekstrarstjóra Samherja á Dalvík vegna þeirra stórkostlegu áforma Samherja að byggja fullkomnasta fiskiðjuver í heimi á Dalvík á næstu missirum. Það kom fram í viðtalinu við þennan ágæta rekstrarstjóra, hann var að tala um flutningskostnað og samkeppnishæfni íslensks fiskiðnaðar við erlend fyrirtæki, sérstaklega við Kína, mig minnir að hann hafi sýnt fram á að flutningskostnaður innan lands væri álíka hár og frá Kína til Evrópu.

Ef svo er, virðulegur forseti, ef þetta er rétt munað hjá mér, þá held ég að það hafi aldrei komið fram eins sterk rök, ekki meðmæli heldur sterk rök fyrir því og staðfesting á því hvað flutningskostnaðurinn er orðinn óheyrilega hár á Íslandi vegna skattlagningar hæstv. ríkisstjórnar, m.a. vegna breytinga á þungaskattskerfi yfir í olíuna þar sem heildartekjum ríkissjóðs af þungaskatti á tilteknu ári var deilt ofan í ímyndaða selda lítra af olíu og þannig var fengið út mjög hátt olíugjald. Það gjald var svo lækkað en í staðinn haldið í þungaskattinn á tæki 10 tonn eða stærri og síðan hefur komið í ljós að sá lítrafjöldi sem reiknað var með í olíusölu á Íslandi var 50 millj. lítra of lítill þegar þetta var reiknað út. Salan var sem sagt 50 millj. lítra meiri en reiknað var út og það hefur aldrei komið fram eins góð sönnun fyrir því hvað gert var með olíugjaldinu á þungaskattinn. Ég nefni þetta í sömu andrá og ég er að tala um flutningskostnaðinn, virðulegi forseti, vegna þess að þetta er auðvitað liður í hinum háa flutningskostnaði.

En ég segi það aftur, virðulegi forseti, að það frumvarp sem hér er lagt fram og frumvarpið sem hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir fyrir nokkrum dögum, þ.e. skattalega hliðin á því að taka upp íslenska alþjóðlega skipaskrá, því fagna ég vegna þess að hér er komin skattaívilnunarleið til að örva atvinnustarfsemi á Íslandi til þess að reyna að fá atvinnustarfsemina aftur inn í landið sem er farin vegna slóðaháttar hæstv. ríkisstjórnar, hve seint var brugðist við þessu máli. En hér er komin forskrift til að nota að ýmsum öðrum atvinnurekstri sem við þurfum ekki að ná í frá útlöndum til Íslands heldur í raun og veru bara reyna að halda í og halda gangandi á Íslandi yfir höfuð, að sú atvinnustarfsemi leggist ekki af vegna hás kostnaðar og vegna þess að samkeppnishæfnin er röng og hún er ekki til staðar m.a. eins og ég hef hér gert að umtalsefni, þann svimandi háa flutningskostnað sem er í landinu sem að stórum hluta er íslensk skattheimta ríkissjóðs, hinir verstu landsbyggðarskattar sem til eru.

Virðulegi forseti. Þetta vil ég leggja inn í umræðuna um íslenska alþjóðlega skipaskrá um leið og ég segi að ég fagna því að þetta skuli koma fram með þeim fyrirvara sem á eftir að fara í gegnum í hv. samgöngunefnd, ég var næstum því búinn að segja á komandi vikum eða komandi mánuðum en það er víst ekki hægt að segja það, virðulegi forseti. Ég held því miður að ég verði að segja á komandi klukkustundum og það er kannski það sem má gagnrýna líka, hvað þetta kemur seint fram og verður þá lítill tími til að vinna almennilega og fara í gegnum en það er auðvitað mikilvægt að fara í gegnum þetta atriði, sérstaklega með tilliti til þess að ekki sé verið að svína á sjómönnum vegna þess að tilgangurinn á ekki að vera sá að svína á sjómönnum, hvorki íslenskum né erlendum sem koma til með að verða skráðir á þessi skip sem vonandi koma inn í íslenska alþjóðlega skipaskrá. En ég vona það, virðulegi forseti, að þetta frumvarp, ef það verður að lögum, hafi ekki komið það seint fram að það muni ekki virka og þau íslensku kaupskip sem hafa verið skráð erlendis muni ekki vera færð heim. Ef svo verður mun það eingöngu skrifast á slóðahátt hæstv. ríkisstjórnar og sennilega einna helst á núverandi og fyrrverandi fjármálaráðherra sem hafa þvælst allt of lengi fyrir þessu máli og það erum við sennilega að blæða fyrir í dag.