133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

hafnalög.

366. mál
[20:25]
Hlusta

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003, frá samgöngunefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölda gesta.

Frumvarp þetta var samið af endurskoðunarnefnd skipaðri af samgönguráðherra í samræmi við ákvæði til bráðabirgða IV í gildandi hafnalögum, nr. 61/2003. Í frumvarpinu er lagt til að hafnarstjórn geri tillögu um skipulag hafnarsvæðis til skipulagsnefndar eða sveitarstjórna til samræmis við þá framkvæmd sem nú tíðkast. Einnig er lagt til að höfnum verði skylt að birta gjaldskrár með skýrum og aðgengilegum hætti og að hafnir í opinberum rekstri hafi jafnframt heimild til að birta gjaldskrár í B-deild Stjórnartíðinda. Þá er lagt til að gerðar séu breytingar á gjaldtökuheimildum 17. gr. hafnalaga, nr. 61/2003, til samræmis við meginreglur um opinber þjónustugjöld. Í því sambandi er lagt til að notendur hafna geti krafið hafnarstjórn um upplýsingar um kostnað sem almennt hlýst af því að veita þá þjónustu sem gjaldinu er ætlað að standa undir. Enn fremur er lagt til að höfnum í einkarekstri verði gert kleift að gera ákveðnar arðsemiskröfur við gjaldtöku. Í frumvarpinu er jafnframt mælt fyrir um skyldu svokallaðra neyðarhafna til að taka á móti skipum í sjávarháska eftir því sem mælt er fyrir um í áætlun um að liðsinna nauðstöddum skipum á hafsvæðum í lögsögu Íslands. Með þessu er leitast við að uppfylla tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/59/EB frá 27. júní 2002 um stofnun eftirlits- og upplýsingakerfis bandalagsins fyrir umferð á sjó. Að lokum er í frumvarpinu lagt til að ný endurskoðunarnefnd verði skipuð ekki síðar en árið 2010 til að fara yfir reynsluna af lögunum.

Auk ýmissa orðalagsbreytinga leggur nefndin til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:

1. Lagt er til að í 3. gr. frumvarpsins verði kveðið á um hverjir séu greiðendur þeirra gjalda sem talin eru upp í 1. tölul. a-liðar 3. gr. frumvarpsins. Í sameiginlegri gjaldskrá, sem samgönguráðherra gaf út á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða I í gildandi hafnalögum, nr. 61/2003, og gilti fyrir allar hafnir fram til 1. júlí 2004, var sérstaklega tekið fram hverjir væru greiðendur hafnargjalda. Í gjaldskránni kom fram að skipstjóri og eigandi skips væru greiðendur þeirra gjalda sem greiða bæri vegna skipanna, t.d. skipagjalda og hafnsögugjalda, en móttakandi og sendandi vöru væru greiðendur vörugjalda. Í ljósi þess að höfnum er nú gert að setja sjálfum sér gjaldskrár er ekki sjálfgefið að þar komi fram hver sé greiðandi hafnargjalda. Með hliðsjón af framangreindu þykir rétt að lögfesta það sérstaklega hverjir séu greiðendur hafnargjalda.

2. Lagt er til að í 5. gr. frumvarpsins verði kveðið á um úrræði hafna vegna vanskila á gjöldum sem greiða skal vegna skipa og einnig hvernig bregðast má við svokölluðum óreiðuskipum eða öðrum hlutum sem eru skildir eftir í hirðuleysi á hafnarsvæðum. Með óreiðuskipi er átt við skip sem enginn hirðir um, liggur undir skemmdum og hætta stafar af, þar með talin mengunarhætta. Sama getur gilt um aðra hluti sem eru á hafnarsvæði, svo sem báta, flutningstæki eða annan búnað.

Í gildandi hafnalögum, nr. 61/2003, er kveðið á um að tiltekin hafnargjöld, svokölluð skipagjöld, njóti lögveðsréttar. Ekki er hins vegar kveðið á um beina nauðungarsöluheimild í lögunum og hefur það í för með sér að aðgerðir til að innheimta gjöldin dragast á langinn og á meðan aukast vanskilin. Þá er lögveðsrétturinn tímabundinn í tvö ár. Til að bæta úr þessu er lagt til að í frumvarpinu verði mælt fyrir um beina nauðungarsöluheimild þannig að höfnum verði heimilað að krefjast nauðungarsölu án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms. Einnig er lagt til að nauðungarsala geti farið fram án þess að eiganda sé birt áskorun samkvæmt lögum um nauðungarsölu. Ástæða þessa er sú að eigandi er oft óþekktur eða hann finnst ekki en í slíkum tilvikum er það úrræði að krefjast nauðungarsölu í raun ónothæft. Þykir ótækt að sú staðreynd að eigandi sé óþekktur eða ófundinn geti stöðvað innheimtu þessara gjalda sem ástæða þykir til að njóti lögveðsréttar. Með þessum hætti er hægt að koma í veg fyrir að fyrir safnist ógreidd hafnargjöld árum saman.

Auk framangreinds er lagt til að eigandi eða umráðamaður skips, báts, flutningstækja á landi eða annars búnaðar á hafnarsvæði beri alltaf ábyrgð á að viðkomandi eign sé í lagi og valdi ekki óþrifnaði og/eða hættu á hafnarsvæðinu. Verði um slíkt að ræða, að mati hafnar, getur hún fyrirskipað að úrbætur skuli gerðar innan ákveðins frests. Í þessu sambandi þykir rétt að árétta að það er alfarið lagt í hendur hafnarinnar að meta hvort um óþrifnað eða hættu á hafnarsvæðinu sé að ræða. Sinni eigandi eða umráðamaður ekki slíkum fyrirmælum geta hafnir valið milli tveggja úrræða. Annars vegar geta hafnir fjarlægt hlutinn á kostnað og ábyrgð eiganda eða umráðamanns og fært hann í vörslur viðkomandi en þetta úrræði byggist á því að eigandi eða umráðamaður sé þekktur og að auðvelt sé að flytja hlut milli staða. Hins vegar geta hafnir selt hlut á nauðungaruppboði án þess að þörf sé á undangenginni áskorun til eiganda eða umráðamanns. Er hér um að ræða sérstaka beina nauðungarsöluheimild og undantekningu frá þeirri meginreglu að nauðsynlegur undanfari nauðungarsölu sé áskorun sem birt er eiganda með tryggilegum hætti. Þá er ekki nauðsynlegt að á undan fari dómur, sátt eða fjárnám enda ekki um að ræða nauðungarsölu sem fer fram til fullnustu peningakröfu. Þykir nauðsynlegt að kveða á um framangreinda heimild í ljósi þess að í mörgum tilvikum er eigandi eða umráðamaður óþekktur eða ófundinn en í slíkum tilvikum duga úrræði gildandi hafnalaga, nr. 61/2003, í raun skammt. Þegar svo háttar til geta hafnir setið uppi með óreiðuskip og aðra óreiðuhluti svo árum skiptir. Með framangreindu ákvæði vill nefndin bregðast við þeim vanda sem margar hafnir hafa glímt við vegna skipa sem liggja langtímum saman í höfn. Þau eru oft gömul og jafnvel ónýt en taka viðlegurými frá öðrum skipum sem koma með afla eða vörur að landi. Í slíkum tilvikum verða jafnframt oft vanskil á skipa- og hafnargjöldum.

Í frumvarpinu er enn fremur lagt til að höfn skuli birta auglýsingu um uppboð með mest fjögurra vikna og minnst viku fyrirvara í dagblaði eða á annan samsvarandi hátt í því tilviki þegar höfn ákveður að selja hlut á nauðungaruppboði þegar fyrir liggur að skip, bátur, flutningstæki á landi eða annar búnaður veldur óþrifnaði eða hættu og eigandi eða umráðamaður hefur ekki sinnt kröfum hafnar um úrbætur. Jafnframt skal höfn tilkynna eiganda eða umráðamanni bréflega um fyrirhugað uppboð og hvar og hvenær það fer fram. Hins vegar er lagt til að það standi ekki í vegi fyrir nauðungarsölu þótt tilkynningu verði ekki við komið vegna þess að eigandi eða umráðamaður er óþekktur eða ófundinn. Auk þessa er lagt til að hafnargjöld sem njóta lögveðsréttar skuli greiðast af söluandvirði með forgangsrétti næst á eftir kostnaði við nauðungarsölu og að um úthlutun söluandvirðis og framkvæmd nauðungarsölu fari eftir ákvæðum laga um nauðungarsölu eftir því sem við eigi. Með vísun til laga um nauðungarsölu eru tekin af öll tvímæli um að framkvæmd nauðungarsölu er í höndum sýslumanns og með því er gætt réttar annarra veðhafa skips eða hlutar til að lýsa kröfum og fá úthlutað söluandvirði.

Þá er lagt til að kveðið verði á um heimild hafnar til að láta farga hlut á kostnað eiganda eða umráðamanns sjái höfn ekki ástæðu til að selja hlut á nauðungarsölu vegna ástands hans. Gildir þetta þegar eigandi eða umráðamaður er þekktur og hann hefur ekki sinnt áskorun um úrbætur. Förgun hlutarins kann að hafa í för með sér að greiðsla komi fyrir hann, svo sem ef hlutur er seldur í brotajárn og er því lagt til að verðmæti sem kann að fást fyrir hlut með þessum hætti sé ráðstafað til greiðslu kostnaðar hafnar við geymslu og ráðstöfun hlutarins, og greiðslu hafnargjalda sem tryggð eru með lögveði í viðkomandi hlut. Að lokum er lagt til að í 5. gr. frumvarpsins verði mælt fyrir um hvernig fara skuli með þann hluta söluandvirðis sem fæst við uppboð og er eftir þegar allir rétthafar hafa fengið greitt. Slíkar eftirstöðvar eiga að renna til uppboðsþola en lagt er til að fjármagnið renni í ríkissjóð hafi uppboðsþoli ekki vitjað þess innan árs.

Nefndin vekur athygli á því að framangreindar breytingar fá stoð í skyldu hafna til móttöku skipa, sbr. 21. gr. gildandi hafnalaga, nr. 61/2003. Höfnum eru settar mjög takmarkaðar heimildir til að neita skipum um aðgang að höfnum á meðan rými og aðstaða leyfir. Móttökuskylda hafna gerir það að verkum að sérhæfðar hafnir eins og t.d. stóriðjuhafnir geta ekki komið í veg fyrir aðgang skipa sem flytja hráefni eða fullunna vöru til eða frá viðkomandi stóriðjuhöfn. Sama gildir um einstakar sérhæfðar bryggjur, t.d. loðnubryggjur eða bryggjur fyrir framan farmstöð. Þó er hægt að neita skipi um aðgang að höfn ef ekki er laust rými og ef engin aðstaða er til þess að taka á móti því. Hið sama gildir ef mönnum og umhverfi er talin stafa hætta af komu þess til hafnar, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 21. gr. gildandi hafnalaga, nr. 61/2003. Í síðarnefnda tilvikinu er hins vegar einkum um að ræða tímabundna synjun svo að svigrúm gefist til þess að undirbúa komu skips í höfn eða grípa til nauðsynlegra varúðarráðstafana. Við eðlilegar aðstæður á tilkynning um komu skips með hættulegan farm að hafa borist höfninni með góðum fyrirvara.

3. Lagt er til að bætt verði við frumvarpið nýrri grein, þ.e. 7. gr. þar sem mælt verði fyrir um heimild hafnabótasjóðs til að bæta tjón á upptökumannvirkjum. Fyrir liggur að ríkissjóður hefur styrkt gerð margra upptökumannvirkja. Hingað til hefur hins vegar ekki verið til staðar heimild til þess að bæta tjón upptökumannvirkja líkt og er gagnvart öðrum hafnarmannvirkjum sem notið hafa styrkja. Þykir eðlilegt að samræmis sé gætt að þessu leyti. Nefndin áréttar að hér er eingöngu veitt heimild til að bæta tjón á upptökumannvirkjum í eigu opinberra aðila eða sveitarfélaga. Heimildin tekur því einungis til þess að bæta tjón á upptökumannvirkjum sem hafa verið byggð með ríkisstyrk. Í þessu sambandi ber að taka fram að miðað er við að bætur geti einungis tekið mið af endurbyggingarverði þess mannvirkis sem fyrir hendi var áður en tjónið varð. Með vísan til þessa er ekki heimilt að veita bætur til endurbyggingar mannvirkis sem er afkastameira en það sem fyrir var.

4. Í 1. málsl. 3. mgr. 18. gr. gildandi hafnalaga nr. 61/2003 er kveðið á um að rekstrarformi hafnar skuli breytt í höfn í eigu sveitarfélags án sérstakrar hafnarstjórnar þegar hún hefur haft neikvæðan rekstrarafgang í þrjú ár í röð að teknu tilliti til vaxta, en fyrir afskriftir. Lagt er til að við frumvarpið bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið verði á um að 1. málsl. 3. mgr. 18. gr. laganna komi til framkvæmda 1. janúar 2012. Þykir eðlilegt að þeim höfnum sem falla undir framangreint ákvæði verði gefin lengri aðlögunartími áður en gripið verði til aðgerða á grundvelli ákvæðisins.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir og Sigurrós Þorgrímsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Jón Bjarnason sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og gerir fyrirvara við álit þetta.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, Hjálmar Árnason, með fyrirvara, Anna Kristín Gunnarsdóttir, með fyrirvara, Kristján L. Möller, með fyrirvara, Guðjón Hjörleifsson, Jón Kristjánsson og Guðjón Arnar Kristjánsson.