133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

sameignarfélög.

79. mál
[20:52]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Um þetta mál sem hér er á dagskrá var allgóð sátt í efnahags- og viðskiptanefnd en með frumvarpinu er stefnt að setningu fyrstu heildarlöggjafar um sameignarfélög. Ég skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara ásamt hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni. Ég kem hér upp til að undirstrika þá fyrirvara og reyndar hefur nefndin í heild tekið undir þá, en þeir snúa annars vegar að því að ekki verði breytingar á því fyrirkomulagi að sameignarfélög eru skráð í firmaskrá og hins vegar því að ekki væri ákvæði um samlagsfélög í frumvarpinu. Með fyrirvara okkar erum við að undirstrika að hæstv. viðskiptaráðherra bregðist við þeim athugasemdum sem nefndarmenn setja inn í frumvarpið. Vil ég vitna til þess að ríkisskattstjóri hefur í ítarlegri umsögn sinni sett fram mjög sterk rök fyrir því að við þessu verði brugðist og gerðar verði breytingar í þá átt, bæði að því er varðar samlagsfélög og eins að sameignarfélög séu skráð í firmaskrá.

Vil ég aðeins fara örfáum orðum um það, virðulegi forseti, en ríkisskattstjóri segir í umsögn sinni:

„Frumvarp þetta fjallar eingöngu um sameignarfélög en full ástæða er til að taka samlagsfélög einnig með inn í þetta frumvarp þar sem eðlismunur þessara félagsforma er í reynd aðeins sá að einn eða fleiri félagsaðilar geta borið takmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins meðan a.m.k. einn félagsaðili ber ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins. Að öðru leyti er enginn lagatæknilegur mismunur á félögunum og leggur ríkisskattstjóri til að ákvæði verði bætt inn í frumvarpið sem geri það kleift að það fjalli jöfnum höndum um sameignarfélög og samlagsfélög.“

Mér finnst að þessi rök séu alveg fullnægjandi og er reyndar óskiljanlegt af hverju hæstv. viðskiptaráðherra hafi ekki skoðað þetta mál í leiðinni og eru athugasemdir nefndarinnar þar að lútandi settar nefndarálitið.

Varðandi skráninguna segir ríkisskattstjóri í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Enn fremur leggur ríkisskattstjóri til að skráning sameignarfélaga og samlagsfélaga verði færð til ríkisskattstjóra. Með lögum 17/2003 var fyrirtækjaskrá færð frá Hagstofu Íslands ásamt öllum félagaskrám sem voru hjá Hagstofunni á þeim tíma. Hér er um að ræða hlutafélagaskrá með skráningu hlutafélaga, einkahlutafélaga og samlagshlutafélaga, samvinnufélagaskrá með skráningu samvinnufélaga og sjálfseignarstofnanaskrá með skráningu sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnurekstur. Auk þess færðist til fyrirtækjaskrár skráning annarra félaga, félagasamtaka, sjóða og stofnana sem rétt er að skrá á fyrirtækjaskrá. Samhliða skráningu er félögunum úthlutuð kennitala.

Þá var skráning einstaklinga með atvinnurekstur færð á hendur fyrirtækjaskrár og er sú skráning tengd við skráningu einstaklinga á launagreiðendaskrá og virðisaukaskattsskrá skattyfirvalda eftir því sem við á. Það er aðeins skráning sameignarfélaga og samlagsfélaga sem ekki fer fram hjá félagaskráningu ríkisskattstjóra. Við þessa lagabreytingu varð félagaskráning markvissari en verið hafði og veruleg samlegðaráhrif fólust í samhæfingu skránna og færslu þeirra frá ríkisskattstjóra. Þessar skrár mynda nú eitt gagnasafn og er mikið hagræði fólgið í því að stjórnvöld og opinber kerfi geti unnið með eina samhæfða skrá, sem er opinber og aðgengileg til eftirlits. Um það efni og frekari rökstuðning fyrir færslu þessa gagnasafns og opinberrar skráningar fyrirtækja og félaga vísast til ítarlegrar greinargerðar með frumvarpi til laga um fyrirtækjaskrá.“

Á nokkrum blaðsíðum í viðbót, virðulegi forseti, rökstyður ríkisskattstjóri enn frekar þessar tillögur sínar, bæði varðandi skráninguna og að taka samlagsfélög einnig inn í frumvarpið. Ég tel ekki ástæðu til að fara yfir þau rök, þau liggja fyrir í þessari umsögn og að hluta til er þetta líka tekið með inn í athugasemdirnar hjá hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Ég undirstrika það enn og aftur að öll nefndin mælir með því að þessar breytingar verði gerðar og fyrirvarar okkar, sem ég var að lýsa, lúta aðallega að því að undirstrika rækilega mikilvægi þess og þýðingu að viðskiptaráðherra bregðist við þeim athugasemdum sem koma fram í nefndarálitinu.