133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

[10:31]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um störf þingsins og vil í því sambandi vísa til þess frumvarps til stjórnarskipunarlaga sem dreift var á þinginu í gær. Þetta frumvarp var kynnt fyrir blaðamönnum um miðjan dag í gær á blaðamannafundi, síðan var því dreift í þingsalnum og svo var forusta stjórnarandstöðunnar boðuð til fundar í þinghúsinu klukkan sex. Við töldum að til stæði að kynna fyrir okkur inntak þessa frumvarps, hvað í því fælist og hvað stjórnarliðum gengi til með þessu máli.

Því var nú ekki að heilsa, virðulegur forseti, heldur var það eitt lagt fyrir okkur að veita afbrigði fyrir því að taka málið á dagskrá og málið að öðru leyti ekki kynnt eða útskýrt fyrir stjórnarandstöðunni. Við vorum að sjálfsögðu ekki tilbúin til að veita þessi afbrigði, enda áskildum við okkur allan rétt til þess að fara yfir málið með sérfræðingum okkar á þessu sviði og fá útskýringar þeirra á málinu. Nú höfum við gert það, virðulegur forseti, og mér sýnist alveg ljóst að með þessu frumvarpi sé verið að gera annað tveggja, annaðhvort stjórnarskrárbinda réttinn til að úthluta þjóðareign með varanlegum hætti, hvaða þjóðareign sem það nú er, eða hitt, virðulegur forseti, útvatna hugtakið með þeim hætti að það hafi hvorki nokkra einustu merkingu né gildi fyrir stjórnskipan okkar.

Hér er á ferðinni, virðulegur forseti, mjög alvarlegt mál, það er verið að meðhöndla stjórnarskrána með þeim hætti að ekki liggi ljóst fyrir hvað menn ætla sér með því sem þeir eru að gera. Ég tel, virðulegur forseti, að við þurfum að fá um þetta pólitíska umræðu. Ég er tilbúin að mæta til þings á morgun, og stjórnarandstaðan öll, til að ræða þetta, koma þessu til nefndar og fá umsagnir sérfræðinga um málið. (Gripið fram í.) Þessi pólitíska umræða verður auðvitað að fara fram og það þarf að skýra það út af hálfu stjórnarliða hvað þeir ætla sér með þessu máli. Ætla þeir sér í rauninni ekki neitt, að útvatna hugtakið, eða eru þeir að binda í stjórnarskrána réttinn til að framselja þjóðarauðlindir með varanlegum (Forseti hringir.) hætti?