133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

[10:48]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra sagði að við hefðum verið boðuð til fundarins í gær, forustumenn stjórnarandstöðunnar, til þess að bjóða okkur samstarf. Það var sérkennileg hugmynd um samstarf, virðulegur forseti, því að það fól einungis það í sér að við ættum að koma til þings í dag og veita afbrigði fyrir því að taka þetta frumvarp þeirra á dagskrá.

Við buðum upp á samstarf við Framsóknarflokkinn í síðustu viku. (Gripið fram í: Hann sagði samkomulag.) Já, vegna þess að við trúðum því að Framsóknarflokkurinn vildi einlæglega breyta stjórnarskránni með þeim hætti að festa í sessi þjóðareign, skilgreina þjóðareign á auðlindum sem ekki eru í einkaeigu og þar gengju þeir út frá því grundvallarviðhorfi sem var viðhorfið í stjórnarskrárnefndinni og í auðlindanefndinni, a.m.k. hjá meiri hlutanum í stjórnarskrárnefndinni, að náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign mætti ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Það sé hið sértæka í þjóðareigninni, það megi ekki selja hana eða láta varanlega af hendi til annarra aðila. En það er ekki verið að gera það, virðulegur forseti, það er ekki verið að festa það í lög ef það nær fram að ganga sem hér er lagt til. Framsóknarflokkurinn er að ganga á bak orða sinna gagnvart kjósendum. (Gripið fram í: Hvað …?) Þetta hélt ég ekki að Framsóknarflokkurinn mundi gera. (Gripið fram í.) Ég hélt að hann væri tilbúinn til þess að ganga þannig frá málum að við gætum treyst því að ekki væri hægt að framselja þjóðareignir til einkaaðila með varanlegum hætti, (Gripið fram í: Þetta frumvarp …) virðulegur forseti. (Gripið fram í: Þetta frumvarp …) Það er verið að útþynna hugtakið eða, virðulegur forseti, eins og ég sagði áðan, verið að festa það í sessi að hægt sé að úthluta þjóðarauðlindunum, fiskstofnunum okkar með varanlegum hætti (Gripið fram í.) til einkaaðila. (Forseti hringir.) Það er mergurinn málsins, (Forseti hringir.) virðulegur forseti.