133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

[10:50]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Frú forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði áðan að brotnar hefðu verið allar hefðbundnar samskiptareglur flokkanna á Alþingi í þessu máli. Þetta er af og frá. Hv. formaður Samfylkingarinnar sem hóf þessa umræðu núna var að staðfesta það að Framsóknarflokknum sérstaklega hefði verið boðið til samstarfs um þetta mál og ekki öðrum. Ekki ríkisstjórninni, ekki Sjálfstæðisflokknum, bara Framsóknarflokknum. Og hvað skyldi þá hafa vakað fyrir hinni góðu stjórnarandstöðu í því efni? Var það að ná heildarsamstöðu allra flokka á þingi? Ó, nei. Samstaðan var rofin um leið og stjórnarandstæðingarnir fóru þessa leið og það var stjórnkænska hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, sem hafði forgöngu um þetta allt saman, sem hefur nú leitt til þeirrar stöðu sem uppi er og að ekki er flutt sameiginlegt frumvarp allra flokka um þetta mál.

Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var að staðfesta það rétt í þessu að Framsóknarflokknum einum hefði verið boðið í samstarf um þetta. Hvað var þá hér á ferðinni? Pólitískt trix. Það var verið að reyna að koma illu til leiðar pólitískt, þetta var sem sagt loddaraháttur, það var ekkert meint með þessu, það var ekki áhugi á málefninu sem réði ferðinni. Það var áhugi á því að koma pólitískum illindum af stað. (Gripið fram í: Það er staðreyndin.)