133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

mælendaskrá í athugasemdum.

[10:58]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að þurfa að segja það að ég er ekki sammála forseta um að ekkert sé athugavert við fundarstjórn forseta. Forseti las upp úr 56. gr. þingskapa sem fjallar um umræður um lagafrumvörp enda kemur það fram í þeim texta sem forseti las upp, með leyfi forseta:

„Forseti gefur þingmönnum venjulega færi á að taka til máls í þeirri röð er þeir beiðast þess þá er dagskrármálið er tekið fyrir.“

Dagskrármálið, og umræður um störf þingsins eru ekki dagskrármál, virðulegi forseti. Um það er fjallað í 50. gr. þingskapa með svohljóðandi málsgreinum, með leyfi forseta:

„Í upphafi fundar, áður en gengið er til dagskrár, geta þingmenn gert athugasemdir er varða störf þingsins. Enginn má tala oftar en tvisvar og ekki lengur en tvær mínútur í senn. Umræður um athugasemdir mega ekki standa lengur en í tuttugu mínútur.“

Hér er hvergi vikið að forgangi ráðherra til þessara umræðna, virðulegi forseti, þannig að ég ítreka það að ég er ósammála túlkun forseta og málsvörn í þessu máli og geri athugasemd við þá fundarstjórn sem fram fór áðan um dagskrárliðinn um störf þingsins.